Sviðsstjórastarfið flyst ekki vestur

Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar. Mynd: Gunnar Kvaran.

Starf sviðsstjóra fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun verður ekki flutt til Ísafjarðar. Haustið 2016 ákvað Gunnar Bragi Sveinsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, að starfið flyttist til Ísafjarðar frá árinu 2018. Þegar ákvörðunin var tilkynnt var hún sögð í takt við tillögur í skýrslu nefndar um átak í byggðamálum á Vestfjörðum sem lögð var fram í ríkisstjórn skömmu áður. Um nýtt starf hjá stofnunni var að ræða, en ekki tilflutning á starfi sem var til staðar.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir í samtali við bb.is að sviðsstjórastarfið verði ekki flutt til Ísafjarðar. „Þetta var yfirlýsing þáverandi ráðherra og hún er sérstök að því leyti að henni fylgdi engir fjármunir og hingað til hafa ráðherrar ekki hlutast til um staðsetningu einstakra starfa. Mest af starfsfólki sviðsins starfar í Reykjavík og í Grindavík,“ segir Sigurður. Að öðru leyti vísar hann á sjávarútvegsráðuneytið og þáverandi sjávarútvegsráðherra þegar kemur að ákvörðun Gunnars Braga um að starfið flyttist vestur.

Sigurður bendir á að Hafrannsóknastofnun hafi eflt starfsemina á Ísafirði frá því þessi yfirlýsing var gefin út og fjölgað úr fimm starfsmönnum í sjö.

DEILA