Þín velferð er mín vegferð

Rannveig Ernudóttir

Ég er að bjóða mig fram til Alþingis, með Pírötum. Viðurkenni ég fúslega að ég er örlítið óttaslegin, enda er ég vel upp alin stúlka sem í skólakerfinu sat stillt og prúð meðan strákarnir fengu athyglina. Stúlka sem ólst upp við það að strákarnir væru klárari og sterkari. Svo hér er ég í dag, að segja skilið við þá ranghugmynd að ég sé ekki nógu klár, að stíga inn í nýjar og ókunnugar aðstæður, af því að ég hef fengið nóg af stöðugleikanum sem stanslaust er haldið fram að sé til staðar.

Það er ekki stöðugleiki að vera kjósa aftur í fjórða sinn á níu árum. Þrjár ríkisstjórnir hafa sprungið áður en að kjörtímabili þeirra hefur verið lokið. Samnefnarinn er bara einn og orsökin er sú sama – spilling.

En þessi pistill á ekki að hamra á því. Þetta er nú þegar skýrt og á allra vörum.

Mig langar til að segja þér frá Pírötum.

Það er kannski ekki margt sem þú veist um Pírata. Kannski vegna þess að Píratar hafa ekki komið sínum málefnum og hugsjónum nógu vel á framfæri. Þú þekkir mögulega ekkert starfið okkar, hvernig við vinnum, málefnahópana eða stefnurnar okkar.

Það sem mig langar til að þú vitir, er að Pírötum er annt um þína velferð. Þú átt rödd hjá Pírötum og þú getur náð í okkur og haft áhrif á hvað við gerum.

Píratar vilja sýna þér kæri kjósandi, hvað stöðugleiki er. Við viljum sýna þér að það er vel hægt að gera vel við alla í þessu landi, að enginn þurfi að líða skort. Píratar líta sem svo á að þingmaður eigi að vera í þjónandi hlutverki gagnvart yfirmönnum sínum, sem ert þú og þjóðin. Þingmaður á að hlusta eftir þínum kröfum sem og þjóðarinnar.

Okkur finnst það sárt að þér sé sagt að hér sé allt í lagi, meðallaun séu góð, enda eru þau 667 þúsund krónur á mánuði, fyrir fullt starf. Því þú veist alveg að þessi tala segir þér bara að hér sé hluti þjóðarinnar á ofurlaunum, sem dregur meðaltalið allt of hátt upp.

Píratar kalla því eftir stuðningi þínum: Við þurfum á þínu atkvæði að halda og óskum eftir gagnkvæmu trausti. Einungis með því eigum við möguleika á að koma á stöðugleika og kalla fram raunverulegar breytingar.

Mikilvægast er fyrir þig að vita að Píratar eru þverskurður af samfélaginu, Píratar eru alls konar:

Píratar eiga afa á ellilífeyri, eiga systir á örorku, eiga atvinnulausa vinkonu, eru nördar, eru ellilífeyrisþegar, eru heilbrigðisstarfsmenn, eru á landsbyggðinni, eru kennarar, eiga unglinga, eru á örorku, eru námsmenn, eru fjölskyldufólk, eiga langveik börn, hafa misst ástvini, eiga börn, eru þunglyndir, elska dýr, eru hraustir, eru sjúklingar, eru í borginni, eru framtakssamir, eru alls staðar.

Píratar eru hér fyrir þig!

Píratar hafa framtíðarsýn og þú ert hluti af henni. Við viljum að þú búir í landi þar sem ríkir sanngirni og réttlæti, að þú búir við velsæld og að lífsgæði þín séu varin.

Það er nefnilega framtíðin okkar.

Rannveig Ernudóttir

Skipar 3. Sæti Pírata í Norðvesturkjördæmi

DEILA