Syngjandi flakkari í Gallerí Úthverfu

Á laugardaginn opnar Bjargey Ólafsdóttir sýninguna Syngjandi flakkarinn (tilgangsverkefnið) í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. ,,Fyrir nokkrum árum hitti ég miðil í Buenos Aires. Hún féll í trans og sagði mér að í einu af mínum fyrri lífum hefði ég verið einmana hirðingi sem reikaði um sléttur Síberíu,“ segir Bjargey um sýninguna og bætir við að miðillinn hafi ennfremur sagt að tilgangur núverandi jarðvistar hennar væri að syngja og teikna. „Ef ég myndi einbeita mér að því að syngja og teikna þá myndi ég verða hamingjusöm mannvera og gera aðra hamingjusama. Verkin teiknaði ég syngjandi í gestavinnustofu Nordic Art Association-Malongen í Stokkhólmi sumarið 2017 og sýndi þau fyrst í verkefnarými NKF,“ segir hún.

Bjargey Ólafsdóttir býr og starfar að list sinni í Reykjavík. Hún nam myndlist við Myndlista og handíðaskóla Íslands sem og Myndlistarakademíuna í Helsinki. Hún nam ljósmyndun við Aalto University í Helsinki og kvikmyndagerð við Binger Filmlab í Amsterdam.  Listsköpun Bjargeyjar Ólafsdóttur er ekki bundin við einn listmiðil heldur velur hún sér þann miðil sem henni finnst henta hugmyndinni best hverju sinni. Bjargey fæst við kvikmyndagerð, hljóðverk, gjörninga, teiknar, málar og ljósmyndar.

smari@bb.is

DEILA