Píratar um kvótann

Álfheiður Eymarsdóttir og Gunnar Ingiberg Guðmundsson

Það má eitt gott um kvótakerfið segja. Áhrif þess á aflamagn. Hafrannsóknastofnun leggur til veiðimagn upp úr sjó og síðustu ár hefur sjávarútvegsráðherra farið eftir þeirri ráðgjöf. Íslendingar eru í kjölfarið með viðurkenndar, sjálfbærar og umhverfisvænar veiðar og fiskafurðir Íslendinga fá því toppverð á toppmörkuðum um allan heim.

En þar með er ávinningur þjóðarinnar upptalinn. Áhrif kvótakerfisins á byggðir víða um land eru skelfilegar. Lífsskilyrði heilu byggðarlaganna hafa horfið á augabragði. Lausnir sem ráðamenn bjóða uppá virka ekki. Byggðakvótinn er háður skilyrðum sem er erfitt að uppfylla. Ekkert sveitarfélag hefur nýtt sér forkaupsrétt á veiðiheimildum því þau hafa ekki ráð á því. Eftir standa því byggðarlögin, brotin og viðkvæm.

En þetta er auðveldlega hægt að lagfæra.

Fiskmarkaði verður að styrkja. Einna mest frumkvöðlastarfsemi innan sjávarútvegsins er í fyrirtækjum sem reiða sig á fiskmarkaði fyrir hráefni. Útgerðir sem  selja afla á markað fá einna mest aflaverðmæti í krónum á tonnið. Sjómennirnir á þessum veiðum skila því hlutfallslega mestum tekjuskatti og útsvari til samfélagsins. En þessi fyrirtæki eru oft smá og mun viðkvæmari en útgerðir með vinnslu á bak við sig. Þau eru viðkvæmari fyrir gengisveiflum og breytingum í atvinnugreininni  á meðan stærri fyrirtæki með útgerð og vinnslu eru mun betur í stakk búin til að geyma afla og peninga fyrir niðursveiflur af hvaða tagi sem er. Þessi  aðstöðumunur verður að víkja. Allir eiga að sitja við sama borð. Þess vegna verður að aðskilja veiðar og vinnslu og fá allan afla á markað.

Það þarf líka að gefa handfæraveiðar frjálsar. Þetta eru umhverfisvænustu veiðarnar okkar og þangað eigum við að stefna. Allur fiskurinn kemur í land blóðgaður og tilbúinn til frekari vinnslu. Því er hægt að nýta slógið, roðið, beinin og haus. Það er lítil hætta á ofveiði því veiðigetan er lítil og fiskistofnar á landgrunni eru aðrir en þeir sem togararnir elta.

Þetta eru vissulega róttækar breytingar á kvótakerfinu. Við þurfum að viðurkenna eignarrétt þjóðarinnar á sjávarauðlindinni skilyrðislaust. Það getur enginn átt kvóta nema þjóðin.  Það þarf að auka atvinnufrelsi, styrkja fiskmarkaði og frumkvöðla, frelsa strandveiðar, tryggja jafnræði, nýliðun og jafna aðstöðumun í greininni. En við Píratar teljum þessar aðgerðir og fleiri tengdar sjávarútvegi, mikilvægustu atvinnustefnu landsbyggðarinnar.

Gunnar Ingiberg Guðmundsson, 2. sæti á lista Pírata í Norðvesturkjördæmi

Álfheiður Eymarsdóttir, 2.sæti á lista Pírata í Suðurkjördæmi

DEILA