Ofbeldi er samfélagsmein

Arna Lára Jónsdóttir

Ofbeldi er stórt samfélagsmein á Íslandi og stærra er marga grunar. Við verðum að horfast í augum við meinið og takast á við það.

  • 22% kvenna hafa upplifað kynferðis og/eða heimilisofbeldi í nánu sambandi. Ein af hverjum fjórum til fimm!
  • Flestar konur og margir karlar hafa upplifað kynferðislega áreitni.
  • Á fyrstu 6 mánuðum Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, komu tæplega 200 manns og leituðu ásjár.
  • 130 konur og 79 börn dvöldu í Kvennaathvarfinu í fyrra, en ekkert slíkt athvarf er til fyrir karla og börn þeirra.
  • Árlega leita um 120 einstaklingar á Neyðarmóttöku vegna kynferðisofbeldis. Meirihluti þeirra eru ungir þolendur sem eru 25 ára og yngri. Konur eru um 97% brotaþola. Alvarleiki brota mikill en um 70% þeirra er nauðgun og ekki er nema helmingur brotanna kærður.

Afleiðingar ofbeldis geta verið víðtækar og langvarandi. Neikvæð sjálfsmynd, erfiðleikar í félagslegum samskiptum, skert starfsgeta og líkamleg vandamál. Víðtækur geðrænn vandi getur þróast í kjölfar ofbeldisins. Áfallastreituröskun er þar fremst í flokki. Þunglyndi, kvíði, áfengis- og vímuefnavandi eru einnig algengar afleiðingar ofbeldis.

Við verðum að grípa til aðgerða.

Samfylkingin ætlar að fara í stórsókn gegn hvers kyns ofbeldi, kynferðisofbeldi, netofbeldi sem og heimilisofbeldi. Samfylkingin ætlar að setja einn milljarð króna árlega í málaflokkinn næstu fjögur árin.

Tillögur okkar til aðgerða er að efla löggæsluna með markvissari málsmeðferð ofbeldisbrota. Fjölga lögregluþjónum en þeim hefur fækkað þrátt fyrir fjölgun íbúa og umtalsverða fjölgun ferðamanna. Árið 2007 voru þeir 712 en eru 660 í dag. Þá þarf að hækka hlutfall faglærða lögregluþjóna.  Það verður að hækka laun lögregluþjóna til að koma í veg fyrir frekari fækkun í stéttinni. Reynslumiklir lögregluþjónar fara til annarra starfa og allt of margir í langtímaveikindi vegna mikils álags.  Með þessu sendum við skýr skilaboð til samfélagsins um að við líðum ekki ofbeldi.

Það þarf að efla fræðslu og forvarnir. Við verðum að byrja strax í grunnskólunum en efla einnig fræðslu í mennta- og háskólum. Fræðslan verður að vera viðvarandi en ekki sem átak til skamms tíma. Markmiðið með því er að auka fræðsla til brotaþola og gerenda í nútíma og framtíð sem mun án efa hafa áhrif og fækka ofbeldisbrotum. Gerendur þurfa að skilja afleiðingar ofbeldis.

Heilbrigðiskerfið spilar stóran þátt í tillögum Samfylkingarinnar.  Samræma þarf móttöku þolenda kynferðis- og heimilisofbeldis um allt land. Neyðarmóttaka Landspítala hefur bætt þjónustuna verulega og þarf að samræma þetta alls staðar um landið. Það þarf að tryggja brotaþolum gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu.

Ísland verður að stíga inn í tækniöldina í viðbrögðum sínum gegn netofbeldi. Auka þarf þekkingu svo hægt sé að bregðast hratt við netofbeldi. Við erum  langt á eftir öðrum þjóðum í viðbrögðum við slíku. Netglæpir drepa líka og við sem samfélag verðum að geta tekið á þessu sívaxandi vandamáli.

Þetta eru þau baráttumál sem Samfylkingin setur á dagskrá nú í kosningunum – þau eru skýr, við ætlum að gera þetta.

Látum hjartað ráða för!

Arna Lára Jónsdóttir skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðvestur kjördæmi

DEILA