Munurinn innan vikmarka

Formenn VG og Sjálfstæðisflokks á fundi eftir kosningarnar í fyrra. Mynd: Vísir/Anton

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 22,9 prósenta fylgi samkvæmt nýrri könnun MMR og mælist með mest fylgi. Þar á eftir fylgja Vinstri græn með 19,9 prósent en munurinn á flokkunum mælist þó innan vikmarka.

Bæði Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa bætt við sig fylgi frá síðustu mælingu MMR sem lauk 18. október 2017 en þá mældist Sjálfstæðisflokkurinn með 19,9 prósent og Vinstri græn með 19,1 prósent fylgi. Fylgi Samfylkingar minnkar aftur á móti á milli mælinga og er nú í 13,5 prósent, samanborið við 15,8 prósent í síðustu mælingu. Jafnframt fækkar fylgjendum Pírata á milli mælinga og mældust nú 9,3 prósent en mældust 11,9 prósent í síðustu könnun.

Fylgi Miðflokksins mældist nú 12,3 prósent og hækkar um 1,3 prósentustig frá síðustu könnun. Framsóknarflokkurinn fer upp um 0,6 prósentustig milli kannana og mælist með 8,6 prósent fylgi.

Viðreisn gefur eftir, mælist með 5,5 prósent fylgi nú, en 6,7 prósent í síðustu könnun MMR. Sömu sögu er að segja um Flokk fólksins sem er rétt við 5 prósenta múrinn og mælist með 4,7 prósent og fer niður um 0,6 prósentustug. Fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 1,8 prósent og mældist 1,6 prósent í síðustu könnun.

Könnunin stóð yfir dagana 20. til 23. október.

smari@bb.is

DEILA