Listamannaspjall – þrjár heimsálfur listakvenna í Edinborg

Gestavinnustofur ArtsIceland á Ísafirði, í samstarfi við menningarmiðstöðina Edinborg, býður upp á listamannaspjall föstudaginn 20.október. Spjallið fer fram í Rögnvaldarsal og hefst klukkan 17.
Gestavinnustofurnar hafa átt því láni að fagna að laða til sín fjölbreyttan hóp hæfileikaríkra listamanna og dvelja þar nú þrjár listakonur, hver úr sinni heimsálfunni: Annie Hamilton frá Ástralíu, Amanda Teixeira frá Brasilíu og Henriikka Tavi frá Finnlandi. Í spjallinu fara þær aðeins yfir feril sinn og hverju þær hafa unnið að meðan á dvölinni á Ísafirði hefur staðið.

Henriikka Tavi er ljóðskáld, skáldskaparhöfundur. Hún er virkur meðlimur í Poesia, útgáfufélagi sem stofnað var af 20 finnskum skáldum og gefur út bókmenntir sem ekki rata vegi fjöldans. Auk þess að fást við eigin sköpun kennir hún skapandi skrif og hefur hún mikið unnið með listamönnum úr öðrum geirum og þá sérstaklega myndlistarfólki.
Skrif hennar eru á annan bóginn tilraunakennd, hugtakakennd og meðvituð um formið og á hinn bóginn tilfinningarík, full tjáningar og jafnvel ævisöguleg. Mikla athygli vakti verk Henriikku „12.” Í því reyndi hún að ná yfir fátæktarmörk með höfundarréttarinnkomu, er hún gaf út 12 ljóðabækur á einu ári. Henriikka hefur unnið til verðlauna fyrir bækur sínar í heimalandinu og verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Á Ísafirði hefur Henriikka unnið að tveimur verkum. Samstarfsverkefni við finnska listahópinn IC-98 og skáldið Mikael Brygger. Í verkinu er stuðst við marga miðla, Veðurljóð, sem er sífelldum breytingum háð. Veðurljóð. Einnig vinnur hún að því að ljúka við sína fyrstu skáldsögu sem kemur út á næsta ári. Sú bók reynir að vera kvennabókmennta-krufning að sögn Henriikku, einhverskonar barnsleg, illgjörn, sálfræðilega ofurraunsæ endurskrif á háðskum og skemmtilegum sögum um líf kvenna.

Amanda Teixeira vinnur með sjónræna miðla, mest með ljósmyndir og myndbandsgerð, en einnig vinnur hún með hluti; texta og listrænar bækur. Hún er með bakkalárgráðu í sjónlistum frá Art Institute of UFRGS í heimalandinu Brasilíiu, en hluta af náminu tók hún við Háskólann í Buenos Aires í Argentínu. Hún var valin í DAAD Scholarship prógrammið og fór í árs nám við KHM, Lista- og miðlunarháskólann í Cologne í Þýskalandi. Amanda á útgáfufyrirtækið Azulejo sem fæst við útgáfu listrænna bóka og hún vinnur fyrir AVSD, videolista-hátíðina í Porto Alegre í Brasilíu.

Undanfarið hefur Amanda unnið með hugmyndir um tíma og rúm, og allar þess birtingarmyndir í hversdagslífinu. Til að þrengja það frekar; hvernig landslag (í hinni ytri veröld sem hinni innri) getur mótað persónuleikann, sagt sögur – sannar eður ei og hvaða bendingar eru notaðar til þess. Amanda vitnar í Certeau þessu til stuðnings, sem sagði litlar bendingar vera einn fárra staða hugvitssemi. Hugmyndafræðinni hefur Amanda fundið stað í teiknimyndagerð, ljósmyndun og teikningum, einnig í verkum sem geta orðið að texta eða bók.

Annie Hamilton er tónlistarkona og hönnuður. Hún er með bakgrunn í textílhönnun, grafískri hönnun og myndskreytingu. Hún byrjaði með sitt eigið fatamerki á síðasta ári, þar sem hún hannar silki- og hörfatnað sem er með áprentuðum myndum Annie af áströlskum plöntum og dýrum. Hún er með brennandi ástríðu fyrir siðlegri og sjálfbærri framleiðslu á tískuvarningi og styðst við þá hugmyndafræði og er ein af stofnendum bloggsíðunnar Locally made sem fjallar um tískuiðnaðinn í Ástralíu og víðar, þar sem áhersla er lögð á „slow fashion.“ Annie er einnig gítarleikari og söngkona og var í hljómsveitinni Little May sem hefur notið talsverðra vinsælda í Ástralíu og víðsvegar um heiminn.

Meðan á Ísafjarðardvölinni hefur staðið hefur Annie bæði unnið að tónlist sinni og hönnun. Hún er stöðugt að skrifa og teikna hlutina í allt í kring. Hún hefur safnað ógrynni af plöntum og steinum á gönguferðum sínum og svæðið – sem hún hefur svo í framhaldinu teiknað. Litirnir í umhverfinu og áferðin hafa fyllt hana innblæstri og andagift fyrir næstu fatalínu. Hún hefur nýtt sér til fullnustu gestavinnustofuna og það að hafa píanó til að semja á nýja tónlist – sem líka er innblásin af dramatísku landslaginu allt um kring.

bryndis@bb.is

DEILA