Kjöt á beinin

Guðjón Brjánsson.

Bændum er nóg boðið.  Þeir eru uggandi um framtíð greinarinnar.  Bændur gera sér grein fyrir að lengra verður ekki haldið á sömu braut, átak og breytingar séu nauðsynlegar. Þetta kom m.a. berlega fram á gríðarlega fjölmennum fundi á Blönduósi fyrir nokkrum vikum.  Þangað flykktust bændur, nánast af öllu landinu.

Ábyrgð á byggðaþróun

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins nefndi þar í ræðu sinni að það væri bara hreinlega hluti af byggðastefnu að koma nú til liðs við bændur, rétta þeim hjálparhönd þannig að þeir gætu enn hjarað við störf sín undir eða við fátækramörk eins og fyrir liggur. Framangreindu sjónarmiði er ég algjörlega ósammála. Það er í hæsta máta ósanngjarnt að nefna bændur og byggðaþróun í þessu samhengi. Staðreyndin er auðvitað sú að engin raunveruleg byggðastefna er til í landinu hvað sem yfirlýsingum líður, stjórnvöld láta reka á reiðanum.

Það er nauðsynlegt að búa þannig um hnútana að bændur geti með sóma stundað sín mikilvægu störf sem helstu matvælaframleiðendur landsins um leið og þeir eru varðmenn náttúrunnar, oft útverðir á sínum svæðum.

Tengsl við framleiðendur

Bændur eru furðu lostnir yfir litlum árangri afurðafyrirtækja í markaðsmálum og telja að þar ríki algjör stöðnun gagnvart þörfum neytenda, bæði nýrrar íslenskrar kynslóðar og ríflega milljón ferðamönnum sem skolað hefur hér á land undanfarin ár.  Undir þetta tek ég og tel að markaðsfólk landbúnaðarins ætti að líta til annarra útflutningsaðila á Íslandi og draga af því lærdóm, t.d. sjávarútvegsins. Það vekur jafnframt furðu hversu langt bil er á milli framleiðenda, þ.e. bænda og þeirra sem sjá um sölu- og markaðsmál þeirra. Þessir aðilar virðast hreinlega ekki tala sama mál.

Eflum frumkvæði og þekkingu

Ungir bændur hugsa með upplýstum hætti enda eru þeir almennt vel menntaðir og víðsýnir. Í ljósi þess að Samfylkingin talar mjög fyrir meira frelsi til handa bændum í markaðs- og sölumálum, þá er það heillandi tilhugsun að menntastofnanir taki saman höndum og liðsinni bændum í þessu efni.  Ein hugmyndin væri sú að Háskólarnir á Bifröst með styrkleika á viðskiptasviði, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri með gæðamál sem áhersluþátt og Háskólinn á Hólum með sjónarhorn ferðaþjónustu tækju sameiginlega á þessu og stórefldu sérnám fyrir bændur í sölu-, gæða- og markaðsmálum.

Framsóknarflokkarnir þrír

Viðreisn hefur boðað áherslubreytingar í landbúnaði og lýst því yfir að nú standi til átak til framtíðar og að hagur bænda muni vænkast til muna.  Það er holur hljómur í þeirri orðræðu og ekki traustvekjandi gagnvart stéttinni. Flokkurinn var enda í vondum félagsskap í ríkisstjórn með höfuðflokki sem ber höfuðábyrgð á núverandi ástandi og það eru öfl í landinu sem hagnast á óbreyttu prangi í ónýtu gjaldmiðilsumhverfi. Kerfisflokkarnir þrír munu því miður litlu breyta og á meðan horfum við upp á merka atvinnustétt bænda búa áfram við ósæmandi kjör. Flokkur fólksins ætlar síðan að gera allt fyrir alla, eins trúðverðugt og það er. Sama á líklega við um Miðflokkinn sem sjálfsagt leitar fanga meðal bænda. Ætlar bændastéttin virkilega aftur og enn að veðja á rangan hest og viðhalda með því ómögulegu hlutskipti sínu?

Sýn jafnaðarmanna

Jafnaðarmenn hafa áratugum saman talað fyrir breytingum í íslenskum landbúnaði með það að markmiði að efla hag bændastéttarinnar. Þær umræður má rekja allt aftur til daga þess merka stjórnmálamanns, Gylfa Þ. Gíslasonar. Ef við hefðum stigið gæfuspor á þeim tíma, þá væri staðan önnur en í dag.

Samfylkingin með bændum

Samfylkingin styður vitaskuld íslenska bændur og talar fyrir auknu frelsi þeirra til framleiðsla á vandaðri matvöru. Ljóst er að til framtíðar er nauðsynlegt að líta yfir þetta framleiðslusvið með þarfir hins íslenska markaðar fyrst og fremst í huga. Möguleikar til útflutnings eru fyrir hendi en sjálfbærni er markmið sem nauðsynlegt er að vinna að og það er ekki óraunhæft.  Þetta vita bændur og eru í hjarta sínu sammála. Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands skilur viðfangsefnið og er reiðubúin til samstarfs við bændur um traustari og betri hag í þágu stéttarinnar í heild og fyrir almenning í landinu.

Guðjón Brjánsson

Alþingismaður

DEILA