Hver verður áttundi þingmaður kjördæmisins?

Það stefnir í æsispennandi kosninganótt í Norðvesturkjördæmi samkvæmt nýrri þingsætaspá Kjarnans. Línurnar eru óskýrari en þær voru í þingsætaspánni fyrir tveimur dögum. Í spánni eru gefnar upp líkur á kjöri hvers þingmanns. Mestu líkurnar fá Haraldur Benediktsson (100%), Lilja Rafney Magnúsdóttir (100%), Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir (98%), Bergþór Ólason (88%), Guðjón S. Brjánsson (74%), Bjarni Jónsson (74%) og Ásmundur Einar Daðason (61%). Þá eru upptaldir sjö af átta þingmönnum og ljóst að hörkubaráttu verður um síðasta þingsæti kjördæmisins enda eru þrír frambjóðendur metnir með svipaðar líkur, þau Eva Pandóra Baldursdóttir (54%), Teitur Björn Einarsson (48%) og Magnús Þór Hafsteinsson (44%).

Þingsætaspáin byggir á 100 þúsund „sýndarkosningum“ og er aðferðafræðin sú að fylgi framboða í skoðanakönnunum er talin líklegasta niðurstaða kosninga að viðbættri óvissu sem byggir á sögulegu fráviki kannana frá kosningaúrslitum. Söguleg gögn sýna að fylgni er á milli þess að ofmeta/vanmeta fylgi flokks í einu kjördæmi og að ofmeta/vanmeta fylgi flokksins í öðrum kjördæmum.

Reiknilíkanið hermir 100.000 „sýndarkosningar“ og úthlutar kjördæma- og jöfnunarsætum út frá niðurstöðunum. Líkur frambjóðanda á að ná kjöri er þess vegna hlutfall „sýndarkosninga“ þar sem frambjóðandinn nær kjöri.

Mynd: Kjarninn

smari@bb.is

DEILA