Hlustum og lærum.

Við íslendingar erum fljótir að gagnrýna aðrar þjóðir þegar þær fara augljóslega útaf sporinu.  Okkur þótti Færeyingar óttalega ábyrgðarlausir í fjármálum þegar þeir lentu í sinni kreppu 1990 i), en vöruðum okkur ekki á því að við gætum líka lent í kreppu.  Við vorum viss um að við værum miklu betri og ábyrgari í fjármálum en Færeyingar.

Grikkland.

Okkur þótti Grikkir óttalega ábyrgðarlausir í fjármálum.  Gríska ríkið lenti í skuldavanda eins og íslensku bankarnir í hruninu.  Það var vegna þess að óábyrgir stjórnmálamenn höfðu rekið ríkið með halla í langan tíma.  Það var hægt meðan það var ótakmarkað framboð á lánsfé.  Eftir nokkur neyðarlán frá Evrópusambandinu og AGS eru skuldir Grikkja 320 milljarðar evra ii).   Á núvirði eru þetta 40 þúsund milljarðar íslenskra króna.  Þetta er há fjárhæð, en íslensku bankarnir fóru á hausinn með 7,5 þúsund milljarða tapi.  Þetta tap er meira á hvern Íslending en hver Grikki skuldar.  Kröfuhafar íslensku bankanna sátu uppi með tapið.  Þetta voru aðallega erlendir bankar.  „Hrægammarnir“ svokölluðu.  iii)

Er hægt að bera þetta saman?  Grískir stjórnmálamenn létu ríkið safna skuldum.  Íslenskir stjórnmálamenn (Sjálfstæðis og Framsókn) seldu bankana félögum sínum og létu þá óáreitta þó að þeir söfnuðu gífurlegum skuldum.  Í Grikklandi var mjög erfitt fyrir erlendar eftirlitsstofnanir að fá upplýsingar um ástandið í fjármálakerfinu.  Á Íslandi var þjóðhagsstofnun lögð niður þegar hún fór að benda á gífurlegan viðskiptahalla.  Stjórnmálamenn í báðum löndum sýndu fádæma ábyrgðarleysi í stjórnun landsmálanna.  Leyndarhyggjan hjálpaði þeim með að komast upp með það.

Trump.    

Við horfum til kosningar Trumps í Bandaríkjunum með fyrirlitningu iv).  Hvernig geta þeir verið svona vitlausir að velja mann sem segir alveg mismunandi hluti um sama málefnið, bara eftir því hverjir eru að hlusta?  Aðferðin var að punda röngum upplýsingum á facebook síður almennings.

Er eitthvað þannig í gangi hér?  Jú hér stundar hægri hlið stjórnmálanna alveg sömu vinnubrögð.  Hér fáum við kostuð skilaboð frá „Andríki“, „samtök skattgreiðenda“ og „Kosningar 2017“ v) inná facebook reikninga okkar.  Þetta er rakalaus þvættingur, en það er nafnlaust, svo það er eins og að berjast við vindmyllur að svara því.

Niðurstaða.

Núna þurfum við að vara okkur á áróðrinum.  Hann hefur skaðað aðrar þjóðir, og getur skaðað okkur.  Við ættum ekki að umbera það að uppnefnið „Skatta Kata“ sé notað, bara af því að við höfum séð það svo oft.

Reynir Eyvindsson, nr 7 á lista VG í norðvesturkjördæmi.

  1. Googlið: „faroe islands financial crisis“
  2. Googlið: “Greek government-debt crisis” sjá wikipedia/Economic statistics
  • Ath! Icesave skuldin bliknar í samanburði við gjaldþrot íslensku bankana.
  1. Þarna á ég við fólk flest. Ég þekki samt aðila sem eru ánægðir með að Trump sé að „stríða“ vinstri mönnum með loftslagsmálunum og fleiru.  Þeim finnst það mikilvægara, en sjálf tilvera jarðarbúa!
  2. Ath sama nafn og grúppa sem RUV heldur úti, en alls ekki sama innihald.
DEILA