Hjartað á réttum stað

Guðjón Brjánsson

Íslendingar ganga til kosninga um helgina eftir skammlífa ríkisstjórn sem starfaði í skugga  spilltrar stjórnmálamenningar. Upplýsingum er haldið frá almenningi, ójöfnuður fer hratt vaxandi. Hagsmunir hinna ríku ráða för en almannahagsmunir að engu hafðir.

Fátæktargildrur

Þrátt fyrir efnahagslegan uppgang þurfa margir í röðum öryrkja, eldri borgara, sjúklinga og barnafólks að óttast um afkomu sínu um hver mánaðamót. Láglaunafólk og leigjendur eru fastir í fátæktargildru með þeim afleiðingum að mörg börn búa við fátækt og skort. Ungt fólk kemst ekki úr foreldrahúsum. Næsta ríkisstjórn verður að taka afgerandi skref til þess að bæta kjör þessa fólks.

Okkar ásetningur er að auka verulega stuðning við barnafjölskyldur með tvöfalt hærri barnabótum og auknum húsnæðisstuðningi. Við ætlum að stuðla að byggingu þúsunda leiguíbúða á vegum félaga sem starfa án hagnaðarsjónarmiða.Við ætlum að færa skattabyrði frá milli- og lágtekjufólki til þeirra sem hana geta borið.Við viljum tryggja að þjóðin fái réttlátan arð af sameiginlegum auðlindum og við leggjum höfuðáherslu á að bæta  lífsgæði aldraðra og öryrkja, hækka lífeyri og draga verulega úr tekjuskerðingu lífeyris.

Reisum flaggið

Stórauknum framlögum var lofað til heilbrigðisþjónustu, vegagerðar og löggæslu í síðustu kosningabaráttu. Um 86 þúsund manns skrifuðu undir áskorun um að endurreisa heilbrigðiskerfið. Fráfarandi stjórnarflokkar lofuðu að setja þessi mál í algjöran forgang en ekkert hefur verið gert með þennan vilja þjóðarinnar. Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er þjónusta við sjúklinga á spítölum skorin niður en útgjöld aukast vegna starfsemi einkafyrirtækja.

Við höfnum einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og leggjum alla áherslu á að bæta heilbrigðisþjónustu í opinberri eigu.  Við ætlum að draga verulega úr  heilbrigðiskostnaði fólks, ekki síst fjölskyldna á landsbyggðinni og auðvelda aðgengi að sálfræðiþjónustu. Við munum ráðast í átak í geðheilbrigðismálum og heilsueflingu almennt.

Lykill að framtíðinni

Menntun er lykillinn að aukinni verðmætasköpun og betri lífskjörum. Við stöndum á þröskuldi tæknibyltingar þar sem starfshættir eiga eftir að gjörbreytast. Miklar breytingar verða á vinnumarkaði og skólarnir  þurfa að búa nemendur undir þær með því að leggja áherslu á grunnþætti á borð við félagsfærni, sköpun og gagnrýna hugsun.

Við viljum gefa nemendum tækifæri til þess að þroska hæfileika sína í skapandi greinum, listum, rannsóknum og nýsköpun til að mæta nýjum áskorunum í lífi og starfi.  Við leggjum áherslu á að auka virðingu fyrir kennarastarfinu, hvort sem er á leikskólastigi eða framhaldsskólastigi. Við leggjum áherslu á að fjármagna háskólana sómasamlega og við munum styðja betur við fjölbreytta framhaldsskóla, ekki síst verknámsbrautir og vinna gegn brottfalli nemenda með markvissum aðgerðum.

 Mannúð

Við höfum kynnt átak gegn ofbeldi, hvort sem það er af kynbundnum toga eða því beitt með öðrum hætti í samfélaginu.  Við viljum líka sýna flóttafólki mannúð og taka aukinn þátt í þessu fjölþjóðlega viðfangsefni og vanda móttöku hælisleitenda, sérstaklega barna.

Bætum lífsgæði – treystum byggðir

Við viljum stórauka fjárfestingu í vegagerð með fjármögnun samgönguáætlunar og hrinda í framkvæmd kröftugri byggðastefnu.  Við þurfum að taka markviss skref til þess að standa við skuldbindingar okkar í baráttunni gegn hlýnun jarðar og súrnun sjávar.  Nauðsynlegt er að flýta orkuskiptum í samgöngum með skipulagi og hleðslustöðvum um allt land.

Hverjum er treystandi?
Traust er einn mikilvægasti þáttur stjórnmálanna. Til að vinna sér traust meðal þjóðarinnar verða alþingismenn að treysta þjóðinni sem gaf þeim umboð, hlusta á hana og virða. Við óttumst ekki afstöðu þjóðarinnar, hvorki í stjórnarskrármálum né Evrópumálum.  Við ætlum að vinna af krafti á nýju kjörtímabili að nýrri stjórnarskrá á grunni vandaðrar vinnu stjórnlagaráðs.

Hjartað á réttum stað

Við fáum að nota okkar dýrmæta lýðræðislega rétt eftir fáa daga í kosningum til Alþingis.  Baráttumál okkar jafnaðarmanna eru enn á sömu lund, vörn og sókn fyrir venjulegt fólk en ekki þrönga sérhagsmuni.   Er ekki tækifærið einmitt núna, að taka nýja ákvörðun, ferska og djarfa – já, og láta hjartað ráða för.

Guðjón Brjánsson

DEILA