Frönsk og rússnesk tónlist á minningartónleikum um Sigríði og Ragnar H.

Hinir árlegu minningartónleikar um hjónin Sigríði Jónsdóttur og Ragnar H. Ragnar verða haldnir í Hömrum laugardaginn 7.október kl. 16.

Flytjendur á tónleikunum er Tríó Sírajón, en það er skipað þeim Önnu Áslaugu píanóleikara, dóttur Sigríðar og Ragnars, Laufeyju Sigurðardóttur fiðluleikara og Einari Jóhannessyni klarinettleikara en þau eru bæði náskyld Sigríði Jónsdóttur. Öll eru þau í framvarðasveit íslenskra tónlistarmanna. Efnisskrá tónleikanna er sérlega áhugaverð, frönsk og rússnesk tónlist sem einkennist af ástríðum og fágun en ekki síst kátínu.

Sigríður Jónsdóttir (1922-1993) og Ragnar H. Ragnar (1898-1987) voru sannkallaðir brautryðjendur á sviði ísfirsks tónlistarlífs og þjóðþekkt fyrir störf sín í þágu vestfirskra mennta og menningar. Ragnar H. stýrði Tónlistarskóla Ísafjarðar í 36 ár meðfram því að stjórna kórum bæjarins, gegna organistastarfi, annast tónleikahald auk fjölda annarra verkefna á sviði menningarlífs bæjarins. Sigríður kona hans var geysivinsæll kennari við bæði Grunnskólann og Tónlistarskólann um margra áratuga skeið og var hún ekki síður en maður hennar virkur þátttakandi í menningar- og félagslífi bæjarbúa.

Minningartónleikar um Sigríði og Ragnar hafa verið nánast árviss viðburður í tónlistarlífi bæjarins frá árinu 1988 og er jafnan sérstaklega vandað til þeirra. Það eru Tónlistarfélag Ísafjarðar og Tónlistarskóli Ísafjarðar sem standa að tónleikunum, en auk þess styrkja ýmsir einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir tónleikana.

Miðasala er við innganginn, en aðgangseyrir er kr. 2.500, og 1.500 fyrir lífeyrisþega.

smari@bb.is

DEILA