Félagslegt jafnrétti í þjóðfélaginu okkar

Isabel Alejandra Díaz

Í æsku þráði ég ekkert heitar en að verða lögfræðingur þegar ég yxi úr grasi. Mig dreymdi um að geta hjálpað fjölskyldum og börnum í sömu eða sambærilegum aðstæðum og ég ólst upp við, það er að segja óttann við að verða vísað úr landi. Mínir kæru Ísfirðingar vita flest allir hvers vegna ég lifði í þessum ótta. Þetta virkaði eins og einhver formgalli, mér var ekki leyfilegt að vera hérna vegna þess að ég bjó hjá afa og ömmu en ekki blóðforeldrum mínum.

Í sumar fylgdist ég með málum innflytjenda, flóttamanna og hælisleitenda úr fjarlægð. Þau mál hafa verið mikið í kastljósinu og fór ég að fylgjast betur með þeim þegar mér var bent á mál tveggja stúlkna sem vísa átti úr landi ásamt fjölskyldum sínum. Þó að aðstæður mínar og stúlknanna voru ekki þær sömu gat ég undir eins fundið til með þeim þar sem ég hafði sjálf búið við óvissu. Ég átti ekki eitt aukatekið orð yfir þeirri staðreynd að þetta væri að enn að henda börn, 17 árum eftir að ég upplifði þessa ósanngirni.

Mér ofbauð er ég heyrði að það kæmi ekki til greina að endurskoða mál sem „tilviljanakennt“ skutust upp í umræðunni. Afstaða  stjórnvalda var skýr eins og svo oft áður og það hræddi úr mér líftóruna. Ef það var ekki hægt að taka á þessu á „réttum forsendum“, var þá í það minnsta ekki hægt að gera það af mannúð, samúð, góðvild og umhyggju? Það var löngu vitað að búið var að brjóta gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að Dyflinnarreglugerðin heimilaði en neyddi ekki stjórnvöld til þess að vísa fólki burt. Ástandið var komið fyrir neðan allar hellur og eitthvað þurfti að gerast til þess að breyta því.

Þá rakst ég á Unga jafnaðarmenn, ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar, sem mótmæltu á friðsælan hátt á þingpöllum Alþingis, með borða er á stóð „Virðið barnasáttmálann“. Þetta var nákvæmlega það sem þurfti að gerast. Þetta er það sem þarf að gerast í hvert skipti sem börn eru svipt framtíð sinni og fullorðnir lífi sínu. Okkur ber að taka þátt í samfélaginu sem við búum í og stuðla að samheldni og berjast gegn öllu mótlæti.

Kemur þá að því að Samfylkingin leggur fram frumvarp um að veita stúlkunum og fjölskyldum þeirra ríkisborgararétt og í kjölfarið eru 23 þingmenn Alþingis flutningsmenn frumvarpsins. Svo fer allt eins og oft áður þegar kemur að stjórnmálum hér á landi og við sitjum eftir í óvissu, eina ferðina enn. Þó var dauf vonarglæta í öllu sem gekk á því þessi mál voru ekki gleymd. Samfylkingin ætlaði að leggja kapp á að frumvarpið yrði samþykkt fyrir kosningar. Þarna sá ég að þetta var eini flokkurinn sem hafði frumkvæði og áræði til þess að leggja áherslu á þessi mál af alvöru og vildi tryggja börnum á flótta almennilega og sanngjarna meðferð.

Nú horfir svo við að það eru yfir 40 mál í Dyflinnarmeðferð og efnislegri meðferð. 27. september síðastliðinn voru breytingar á útlendingalögum samþykktar en ekki er vitað yfir hve mörg börn þau lög munu ná. Svo við þurfum að gera betur, þessari baráttu er hvergi nærri lokið.

Þegar ég flutti suður ákvað ég að kynna mér starf Ungra jafnaðarmanna og stefnumál Samfylkingarinnar. Æskudraumarnir mínir höfðu tekið á sig nýja mynd, ég stefndi annað en í lögfræðina en vissi að ég gæti samt lagt mitt af mörkum. Það starf sem fer fram hjá Ungum jafnaðarmönnum talaði til mín og varð ég sannfærð um að ég vildi vera hluti af þessari hreyfingu. Mín persónulega reynsla og upplifun sem einstaklingur af erlendu bergi brotinn hefur leitt mig til opinberrar umræðu um almenn mannréttindi og þau brot sem eiga sér stað, þá sérstaklega í garð barna sem eru ekki að leita að neinu öðru en öryggi. Ég komst að því að þetta væri rétti vettvangurinn fyrir mig og í raun allra sem eru hlynntir félagslegu jafnrétti í þjóðfélaginu og almennum mannréttindum.

Þetta var mín nálgun að flokk jafnaðarmanna; þeirra sem vilja jafnrétti fyrir alla óháð kyni, aldri, uppruna og efnahag. Flokkur sem ætlar í sókn af fullum krafti og einlægni, sem hefur nú þegar sýnt sig og sannast.

Isabel Alejandra Diaz

Háskólanemi, verkefnisstjóri Tungumálatöfra og ungur jafnaðarmaður.

 Greinin birtist fyrst í 24. tbl. Bæjarins besta

DEILA