Gef kost á mér í 2.- 3. sæti

Lilja Sigurðardóttir

Ég heiti Lilja Sigurðardóttir, er sjávarútvegsfræðingur frá Patreksfirði og gef kost á mér í 2.-3.sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar þann 28.október 2017. Ég er núna 2.varaþingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.

Ég er fædd og uppalin á Patreksfirði og býr þar núna ásamt unnusta mínum og tveimur börnum. Ég hef lokið BS gráðu í Sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri og MS gráðu í Forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Einnig lauk ég grunnnámi í flugumferðarstjórn frá Keili. Ég starfa núna sem verslunarstjóri í matvöruversluninni Fjölval á Patreksfirði en hef m.a. verið gæðastjóri hjá fiskeldisfyrirtækinu Arnarlax, og verk- og gæðastjóri í fiskvinnslunni Odda hf á Patreksfirði. Ég var formaður Héraðssambandsins Hrafna-Flóka frá 2011-2017, sat í stjórn Byggðastofnunar 2016-2017, var varaformaður Slysavarnadeildarinnar Unnar á Patreksfirði frá 2015-2017 og er núna formaður deildarinnar.

Í jómfrúarræðu minni á Alþingi vakti ég athygli á því hversu mikill kostnaður og aukaálag leggst á fólk sem þarf að sækja fæðingarþjónustu fjarri heimilum sínum, en skerðing á fæðingarþjónustu um allt land hefur valdið því að fjölskyldur þurfa að standa undir gríðarlegum aukakostnaði á meðan beðið er eftir fæðingu barns, sem geta verið nokkrir dagar allt upp í nokkra mánuði. Oftar en ekki þurfa fjölskyldur að halda tvö heimili, missa úr vinnu áður en mögulegt er að hefja fæðingarorlof og vera fjarri fjölskyldu og vinum í lengri tíma. Þegar fæðingarþjónusta var skert þá gleymdist algjörlega að huga að þessum þáttum og í dag er engin aðstoð veitt, eini styrkurinn er í formi endurgreiðslu á ferðakostnaði frá heimili að fæðingarstað og tilbaka. (sjá meira hér http://www.ruv.is/frett/ekkert-i-stadinn-fyrir-skerta-faedingarthjonustu ) Þessu þarf að breyta og auka þarf stuðning við fólk í þessum aðstæðum sem fyrst.

Helstu baráttumál:

Styðja þarf betur við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni og sérstaklega þarf að huga að fiskeldi, landbúnaði og ferðaþjónustu á þessu landsvæði.

Mikilvægt er að halda áfram með hugmyndir um heilstæða stefnu í heilbrigðismálum um allt land. Geðheilbrigðismál þarf sérstaklega að skoða og móta stefnu til að auka þjónustu, andleg heilsa er gríðarlega mikilvæg og þarf að huga mun betur að en hefur verið gert. Einnig þarf að endurskoða styrki til þeirra sem þurfa að sækja fæðingarþjónustu langt frá heimili sínu, í dag er nánast enginn styrkur á meðan útgjöld fólks tvöfaldast á þeim tíma sem beðið er, sem geta verið nokkrir dagar allt upp í nokkra mánuði.

Samgöngur þarf að bæta, uppbyggingin þarf að ganga hraðar fyrir sig og klára þarf málin hratt og örugglega, ekki láta þau hanga í kerfinu til lengri tíma.

Auðlindagjöld þarf að innheimta frá öllum nýttum auðlindum, ekki bara sjávarútvegi.

Lilja Sigurðardóttir

DEILA