Vítamínsprauta hinnar duglegu þjóðar

Inga Björk Bjarnadóttir

„Það er erfitt að eiga peninga á Íslandi“ var eitt sinn sagt og eflaust er það veruleiki duglegu strákanna. Sigurvegaranna. Þeirra sem gengu beinu brautina; fóru í góðan menntaskóla, beint í háskóla og lönduðu svo vel launuðum störfum. Á frjálshyggjueyjunni uppskera hin duglegu ríkulega. Af hverju ættu þau ekki að gera það? Þau gerðu allt rétt — en hunsa reyndar algjörlega þá stökkpalla sem gerðu þeim kleift að komast í þá stöðu sem þau eru í: efnahagslegan stuðning, fjölskyldutengsl, aðgengi að góðri menntun o.s.frv. Þau sannfæra sig um að þau eigi allan sinn auð skilið. Vegna þessara foréttinda spretta svo upp ranghugmyndir um að öryrkjar séu upp til hópa latir, að hærri bætur séu letjandi, að félagsleg vandamál séu blásin upp í fjölmiðlum, að hinir lötu kennarar þurfi árangurstengd laun — að það sem letingjarnir þurfi sé duglegt spark í rassinn. Mennta sig. Vinna meira.

Almenningi er talin trú um að yfirburðum sé hægt að ná í samfélaginu ef fólki takist aðeins að rífa sig upp úr volæði og sjálfsvorkunn. Stöðugleikinn er talinn mikilvægari en að hlúa að fólki af holdi og blóði. Hagvöxtur eina vítamínsprautan sem hin harðduglega þjóð þarf.

Allar tilraunir til þess að temja markaðinn og setja á reglugerðir eru álitnar skerðing á frelsi — en frelsi hverra? Þeirra duglegu. Sigurvegaranna. Þeirra sem vilja geta selt vín í verslunum sínum, sem vilja geta selt þér tóbak og boðið þér síðan krabbameinsmeðferð á klíník sinni síðar meir. Þetta er land nýfrjálshyggjunnar. Þar sem verkalýðshreyfingin er ekkert annað en bákn og byrði á launþegum. Þar sem venjulegt fjölskyldufólk þarf að skrimta.

Ímyndum okkur nú aðra stefnu, annað hugarfar. Samfélag þar sem fólk, um allt land, fær gjaldfrjálsa geðheilbrigðisþjónustu og þarf ekki að bíða milli heims og helju eftir aðstoð. Samfélag þar sem þú getur leigt af sanngjörnum leigufélögum sem hafa ekki það markmið eitt að skila arði, þar sem þú bíður ekki vikum saman eftir læknisþjónustu búir þú úti á landi. Samfélag þar sem menntun er gjaldfrjáls og hlúð er að barnafjölskyldum, þar sem greiðfærir og öruggir vegir liggja til allra átta.

Svona samfélag er hægt að skapa — en ekki á meðan duglegu strákarnir ráða för.

Inga Björk Bjarnadóttir
Höfundur er varaþingmaður Samfylkingarinnar — jafnaðarmannaflokks Íslands.

DEILA