Skorar á Pawel og félaga að falla frá frumvarpinu

Lögreglufélag Vestfjarða hefur áhyggjur af umræðu í þjóðfélaginu um lögleiðingu fíkniefna. Í ályktun aðalfundar félagsins er skorað á þá þingmenn sem hafa lagt fram frumvarp um lögleiðingu kannabisefna að falla frá frumvarpinu. Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og þau Sigrún Ingibjörg Gísladóttir frá Viðreisn og Píratarnir Gunnar Hrafn Jónsson og Jón Þór Ólafsson eru meðflutningamenn.

Í ályktun aðalfundar eru fyrri ályktanir félagsins ítrekaðar og skorað á stjórnvöld að efla og styrkja lögregluna í landinu með auknum fjárheimildum og fjölgun lögreglumanna. Fundurinn minnir á þverpólitíska skýrslu innanríkisráðuneytisins um löggæsluþörf, sem gefin var út árið 2014 þar sem kom fram að lögreglumenn á Vestfjörðum skyldu vera 27 árið 2017.  Fjárheimildir í dag leyfa aðeins 21 lögreglumann.

Fundurinn skorar á stjórnvöld að ganga frá kjarasamningi sem gerður var við lögreglumenn haustið 2015. Enn er ekki búið að ganga frá svokallaðri bókun 7 um álagsgreiðslur til lögreglumanna. Samkvæmt samningi átti bókunin að vera afgreidd 10.desember 2015.

smari@bb.is

DEILA