Segir Gísla setja bæjafélagið niður

Gísli Halldór er ómyrkur í máli um vegagerð á Dynjandisheiði.

„Mér sýnist að bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar sé kominn út á afar hálar brautir,“ segir Óðinn Sigþórsson um orð Gísla Halldórs Halldórssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, í gær þar sem hann tók fyrir að biðjast afsökunar á ummælum sínum á bæjarstjórnarfundi í lok ágúst. Gísli Halldór sagði að hann hafi ekki sakað fulltrúa veiðiréttarhafa og fiskeldisfyrirtækja um að hafa starfað af óheilindum og óheiðarleika. Óðinn segir í samtali við bb.is að Gísli Halldór hafi í ræðu sinni ásakað fulltrúa veiðiréttarhafa og fiskeldismanna um að hafa gert samkomulag um skiptingu eldissvæða til handa fyrirtæjum fulltrúa í nefndinni og skilið Ísafjörð útundan.

„Nú telur hann að um eitthvað allsherjarplott sé að ræða en þorir ekki að tilgreina hverjir aðrir áttu þar hlut að máli,“ segir Óðinn og vísar í orð Gísla Halldórs frá því í gær þegar hann sagði að fleiri en fulltrúar veiðiréttahafa og fiskeldisfyrirtækja hafi komið að „plottinu“.

„Það vekur óneitanlega undrun að bæjarstjórn grípi ekki í taumana áður en bæjarstjórinn setur bæjarfélagið frekar niður með framgöngu sinni,“ segir Óðinn.

Óðinn Sigþórsson.

Óðinn sat sem fulltrúi fyrir Landssamband veiðifélaga í starfshópi um endurskoðun á fiskeldi. Hann ásamt öðrum nefndarmönnum, þeim Kjartani Ólafssyni stjórnarformanni Arnarlax og Guðmundi Gíslasyni stjórnarformanni Fiskeldis Austfjarða, hafa farið fram á afsökunarbeiðni frá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar vegna orða Gísla Halldórs. Því hefur verið hafnað af Örnu Láru Jónsdóttur formanni bæjarráðs, en bréf þremenninganna til bæjarstjórnar verður tekið fyrir á bæjarráðsfundi á mánudag.

„Það kemur mér undarlega fyrir sjónir að þessi ásökun hans sem finna má á Facebooksíðu sveitarfélagsins og svörum hans í gær teljist ekki til ávirðinga um óheilindi og óheiðarleika.  Við sendum þetta bréf í trausti þess að bæjarfulltrúar haldi í heiðri siðareglur kjörinna fulltrúa Ísafjarðarbæjar. Ég fæ ekki séð hvernig þessi framkoma, að bera ósannindi á menn samræmist þeim. Ég verð einnig að segja að viðbrögð formanns bæjarráðs valda vonbrigðum og hljóta að vera Ísfirðingum íhugarefni,“ segir Óðinn Sigþórsson.

DEILA