„Það komu fleiri að plottinu“

Gísli Halldór Halldórsson.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, ætlar ekki að draga til baka orð sem hann lét fjalla um störf starfshóps um stefnumótun í fiskeldi. Þrír nefndarmenn, þeir Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax, Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða og Óðinn Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga hafa farið fram á opinbera afsökunarbeiðni frá Ísafjarðarbæ vegna orða Gísla Halldórs. Að öðrum kosti áskilja þeir sér allan rétt til að leita annarra ráða til að fá ummælin dæmd ómerkt. Þeir saka Gísla Halldór um væna nefndarmennina um óheilindi og óheiðarleika og í bréfi til bæjarstjórnar er vakin athygli á orðalagi Gísla Halldórs þar sem hann talar um „plott“ og „hrossakaup“ í störfum nefndarinnar.

„Ég sagði ekkert um óheilindi og óheiðarleika í ræðunni og ég gerði mér ekki grein fyrir að þetta færi svona fyrir brjóstið á þessum þremur fulltrúum einum. Það voru fleiri í nefndinni sem komu að því að stýra plottinu,“ segir Gísli Halldór sem sér enga ástæðu til að biðjast afsökunar á ummælunum.

„Þó ég noti orð eins og hrossakaup þá veit ég alveg að það voru ekki seldir neinar hestar. Það er augljóst að menn komust að samkomulagi, enda rauk fulltrúi veiðiréttarhafa af fundi þegar fulltrúar fiskeldisfyrirtækjanna ætluðu að leggja fram bókun. Samkvæmt fjölmiðlum sagði hann bókunina ganga gegn samkomulagi í nefndinni. Ég veit ekkert hver stýrði plottinu og hvernig hrossakaupin fóru fram og ekki heldur hvort að óheilindi og óheiðarleiki hafi ráðið för,“ segir Gísli Halldór.

Hann gerir verulegar athugasemdir við að bréfinu sé beint til bæjarstjórnar og bæjarstjórn krafin um afsökunarbeiðni fyrir orð sem hann lætur falla í ræðustól.

smari@bb.is

DEILA