Um þessar mundir eru lögð drög að bókmennta– og menningarverkefninu Lesið í sköpunarkraft Vestfjarða. Tilurð þess má rekja til Akurskóla Íslenskudeildar Manitóbaháskóla; sumarnámskeiðs á Vestfjörðum árin 2007–2015 sem haldið var í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og Hrafnseyri. Bókmenntafræðingarnir Birna Bjarnadóttir og Ingi Björn Guðnason munu kynna verkefnið, útlínur þess og velunnara.

Í tilefni af kynningu verkefnisins mun Viðar Hreinsson halda erindi um Jón lærða og skapandi náttúru. Ungi bassasöngvarinn Aron Ottó Jóhannsson mun einnig syngja fáein lög. Undirleikari er Pétur Ernir Svavarsson.

Kynningin fer fram á Hrafnseyri laugardaginn 29. júlí og hefst kl. 14:00

Verkefnisstjórar:

Dr. Birna Bjarnadóttir er fyrrum forstöðumaður Íslenskudeildar Manitóbaháskóla. Hún starfar nú sem sérfræðingur við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands, og vinnur meðal annars að ritstjórn bókarinnar Heiman og heim, greinasafns eftir innlenda og erlenda rithöfunda og fræðimenn um skáldskap og þýðingar Guðbergs Bergssonar. Hún leiðir jafnframt samstarfsverkefni lista– og fræðimanna sem ber heitið Leiðangurinn á Töfrafjallið. Hún er höfundur bóka og greina um íslenskar nútímabókmenntir sem birst hafa beggja vegna hafs.

Ingi Björn Guðnason er bókmenntafræðingur búsettur á Ísafirði. Hann hefur fjallað um íslenskar nútímabókmenntir í útvarpi, tímaritum og á vefsíðum. Ingi Björn er verkefnastjóri við Háskólasetur Vestfjarða en hefur einnig starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpsþættinum Víðsjá á Rás 1 og á Gljúfrasteini – húsi skáldsins í Mosfellsdal.

Fyrirlesari:

Viðar Hreinsson er sjálfstætt starfandi bókmenntafræðingur í ReykjavíkurAkademíunni með starfsaðstöðu á á Náttúruminjasafni Íslands. Hann hefur lengi unnið að rannsóknum á íslenskri bókmennta- og menningarsögu, birt fjölda fræðigreina og ritað þrjár ævisögur. Ævisaga hans um Stephan G. Stephansson, sem einnig er til í enskri gerð, hlaut tilnefningar og verðlaun á Íslandi og vestanhafs. Undanfarin ár hefur hann rannsakað handritamenningu og starfað á sviði umhverfishugvísinda. Ný bók hans um Jón lærða, Jón lærði og náttúrur náttúrunnar er viðamesti afraksturinn af þeirri vinnu, í senn ævisaga, hugmyndasaga, vísindasaga og aldarfarslýsing.

 

DEILA