Veisla fyrir harmonikuunnendur

Um helgina verður sannkölluð veisla fyrir unnendur ástsælasta hljóðfæris landsmanna þegar 13. landsmót Sambands íslenskra harmonikuunnenda verður haldið á Ísafirði. Fjöldi dansleikja og tónleika verða í boði og á fimmtudagskvöld byrja harmonikkuleikarar að þenja nikkur sínar á dansleikjum á Húsinu, í Krúsinni og í Edinborg. Dansleikirnir hefjast kl. 21 og standa til kl. 01. Á föstudaginn kl. 14 verður mótið sett við íþróttahúsið á Torfnesi og í beinu framhaldi, eða kl. 15, verða tónleikar harmonikufélaga í íþróttahúsinu og um kvöldið verða dansleikir á skemmtistöðunum þremur á Ísafirði.

Á laugardag hefst mótið með tónleikum í íþróttahúsinu og hefjast þeir kl. 14. Harmonikutríóið Í-Tríó spilar á tónleikum í íþróttahúsinu kl. 17 en tríóið skipa þau Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir, Jón Þorsteinn Reynisson og Jónas Ásgeir Ásgeirsson.

Að kvöldi laugardags verður svo stórdansleikur í íþróttahúsinu og hefst hann kl. 21 og stendur til 02.

Miðasala verður í íþróttahúsinu frá fimmtudegi til laugardags frá kl.13:00.

DEILA