Baráttukonan Karitas

Karitas Skarphéðinsdóttir. Mynd: RUV.is

Í sarpi RÚV má nú nálgast þátt um vestfirsku baráttukonuna Karitas Skarphéðinsdóttur.

Þátturinn er hluti af þáttaröðinni „Útvarp sem skapandi miðill, þættir af mannabyggð og snortinni náttúru“. Í þessum þætti er fjallað um vestfirsku verkalýðsbaráttukonuna Karítas Skarphéðinsdóttur. Rætt er við Sigurð Pétursson sagnfræðing, Jón Ólaf Bjarnason, systurson Karítasar og Helgu Þórsdóttur, safnvörð og sérfræðing á Byggðasafni  Vestfjarða. Leiknar eru upptökur af viðtölum sem Hallfreður Örn Eiríksson þjóðháttafræðingur tók við Karítas á árunum 1966-1969. Spilað er brot úr „Internationale“, baráttusöng verkalýðsins og laginu „Í fögrum dal“, úr leikritinu Pilti og stúlku, í flutningi Gunnars Guðbjörnssonar og Jónasar Ingimundarsonar. Umsjónarmaður er Margrét Sveinbjörnsdóttir og lesari er Þórður Kristjánsson.

Sýning um Karítas hefur nú verið opnuð á Byggðasafni Vestfjarða í Neðstakaupstað á Ísafirði. Yfirskrift sýningarinnar er „Ég var aldrei barn“ og er hún hluti af nýrri grunnsýningu safnsins.

Karitas er mörgum hugleikin en í bókaspjalli Bókasafnsins á Ísafirði var í byrjun mars fjallað um Karitas. Í frétt um spjallið á bb.is segir:

„Karítas var fædd í Æðey en ólst upp á ýmsum bæjum við Ísafjarðardjúp. „Karítas er má segja táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma, hún er líkami konu sem ekki var ætlað sjálfsyfirráð. Þannig var hún seld fyrir húsbyggingu aðeins 16 ára gömul, smábóndinn Skarphéðinn ekki svo aumur að hann gæti ekki selt stúlkuna. Karítas átti þó eftir að verða áberandi í samfélaginu, kona sem markaði spor í samtímann og þar af leiðandi hefur töluvert verið um hana skrifað sem og sagðar um hana sögur í margvíslegu samhengi.“

bryndis@bb.is

DEILA