Lífshlaup Karítasar og fleira í bókaspjalli

Í næsta bókaspjalli Bókasafnsins á Ísafirði verða tvö athyglisverð erindi að vanda. Jóna Símonía Bjarnadóttir, sagnfræðingur og forstöðumaður Safnahússins á Ísafirði, fjallar um sínar uppáhaldsbækur í fyrra erindi spjallsins. Í seinna erindinu segir Helga Þórsdóttir, safnvörður á Byggðasafni Vestfjarða frá Karítas Skarphéðinsdóttur (1890 – 1972) verkakonu á Ísafirði, en hún er viðfang nýrrar sýningar safnsins. Karítas var fædd í Æðey en ólst upp á ýmsum bæjum við Ísafjarðardjúp. „Karítas er má segja táknmynd staðar og hugmyndafræðilegs samtíma, hún er líkami konu sem ekki var ætlað sjálfsyfirráð. Þannig var hún seld fyrir húsbyggingu aðeins 16 ára gömul, smábóndinn Skarphéðinn ekki svo aumur að hann gæti ekki selt stúlkuna. Karítas átti þó eftir að verða áberandi í samfélaginu, kona sem markaði spor í samtímann og þar af leiðandi hefur töluvert verið um hana skrifað sem og sagðar um hana sögur í margvíslegu samhengi,“ segir í kynningu.

Bókaspjallið verður á laugardaginn 4. mars og hefst kl. 14.

smari@bb.is

DEILA