Útskriftarnemar G.Í. fóru í góða vorferð

Nemendur í 10.bekk Grunnskólans á Ísafirði sem innan fárra daga ljúka göngu sinni við skólann héldu á sunnudag í síðustu viku í vorferðalag sitt ásamt fríðu föruneyti foreldra og kennara. Farið var í Skagafjörð og gist að Bakkaflöt. Þar biðu hópsins alls konar ævintýri, byrjað var á að fara í þrautabraut þar sem færi gafst að gera sig bæði blautan og skítugan sem var vel þegið eftir langa keyrslu í rútunni. Eftir þrautabrautina skelltu margir sér til sunds í ánni og þótti heimamönnum það hraustlega gert, enda vatnið jökulkalt.
Næstu dagar einkenndust af miklu fjöri og þéttri dagskrá. Hópurinn fór í loftbolta og litbolta, sem og flúðasiglingu á Vestari Jökulsá. Þau heimsóttu Grettislaug, hittu Drangeyjarjarlinn Jón Eiríksson, heimsóttu Samgönguminjasafnið að Stóragerði í Óslandshlíð og fóru í sundlaugina á Hofsósi þar sem útsýni er með eindæmum fagurt. Er í þessu ótalið veitingastaðaheimsóknir, leikir og kvöldvökur sem nemendur framkvæmdu af stakri snilld.

Hópurinn kom til baka síðla dags á miðvikudag, þreyttur en sæll eftir vel heppnaða ferð.

DEILA