Á annað þúsund störf innan örfárra ára

Sjókvíar í Tálknafirði.

„Við fiskeldi á Vestfjörðum starfa um 300 manns og fiskeldistengd starfsemi er hafin í flestum af byggðarlögum á Vestfjörðum. Umræðan um fiskeldið er hins vegar enn á þeim nótum, hvort hér verði fiskeldi eða ekki. Slík umræða hljómar ábyggilega undarlega í eyrum þeirra sem vinna og selja hundruð tonna af eldisfiski í hverri viku og starfsmönnum sem þjónusta kvíar, stunda rannsóknir, hreinsa nætur eða sinna yfirstjórn eldisfyrirtækjanna.“ Svo hefst grein um fiskeldi á Vestfjörðum eftir Daníel Jakobsson, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.

Daníel Jakobsson.

Daníel telur að gangi fyrirætlanir eftir, sem hann segir vel raunhæft, munu á annað þúsund manns starfa við fiskeldi á Vestfjörðum innan örfárra ára.

Hann átelur stjórnvöld og stofnanir ríkisins fyrir að sýna algjöran skort á frumkvæði og krafti til að koma með Vestfirðingum og landsmönnum öllum í að byggja upp atvinnuveg sem innan fárra ára gæti skilað ríkissjóði mörgum milljörðum árlega í skatttekjur.

„Þar ber helst að nefna getuleysi stofnana til að afgreiða leyfi, setningu reglna um umhverfi fiskeldisfyrirtækja og þá augljósu aðgerð að setja landinu stefnu í fiskeldismálum og fylgja henni eftir. Nýir ráðherrar byrja alltaf á byrjunarreit og alltaf þarf að skoða og skoða og skoða, þegar aðgerða er þörf. Í dag virðist manni hið opinbera að mörgu leiti vera áhorfandi á þessa gríðarlegu uppbyggingu sem nú þegar hefur átt sér stað, mun eiga sér stað og hreinlega verður að eiga sér stað. Það er vond nálgun,“ segir Daníel í greininni sem má lesa í heild sinni hér.

DEILA