Tækifærin sem felast í fiskeldinu

Daníel Jakobsson.

Við fiskeldi á Vestfjörðum starfa um 300 manns og fiskeldistengd starfsemi er hafin í flestum af byggðarlögum á Vestfjörðum. Umræðan um fiskeldið er hins vegar enn á þeim nótum, hvort hér verði fiskeldi eða ekki. Slík umræða hljómar ábyggilega undarlega í eyrum þeirra sem vinna og selja hundruð tonna af eldisfiski í hverri viku og starfsmönnum sem þjónusta kvíar, stunda rannsóknir, hreinsa nætur eða sinna yfirstjórn eldisfyrirtækjanna.

Hugsanlega er umræðan á þessum stað vegna þeirra miklu áforma um aukna uppbyggingu sem enn er í pípunum og sótt er um leyfi fyrir. En það breytir ekki þeirri staðreynd að fiskeldi er nú þegar stór atvinnugrein á Vestfjörðum og hefur nú þegar haft marktækar breytingar, til hins betra fyrir Vestfirði sem búsetukost. Ef fyrirætlanir ganga eftir, sem er vel raunhæft munu á annað þúsund manns hafa vinnu af fiskeldi á Vestfjörðum innan fárra ára.

 Störf í fiskeldi í flestum byggðarlögum á Vestfjörðum

Fiskeldi er hentug atvinnugrein til að byggja upp á Vestfjörðum. Starfsemin er þess eðlis að flestir byggðakjarnar á Vestfjörðum njóta góðs af því nú þegar. Sem dæmi má nefna að ein stærsta og fullkomnasta seiðaeldisstöð heims er risin í Tálknafirði. Í Patreksfirði eru eldiskvíar og ýmis stoðþjónusta. Slátrun og vinnsla er á Bíldudal ásamt höfuðstöðvum Arnarlax og þar eru þjónustubátar við kvíar í Arnarfirði. Kvíar eru í Dýrafirði og á Þingeyri eru staðsettir þjónustubátar og ýmis önnur stoðþjónusta. Nótaþvottastöð, kvíar og vinnsla  eru á Flateyri og við Önundarfjörð og afskurður er unnin á Suðureyri. Vinnsla og höfuðstöðvar Artic Fish eru á Ísafirði auk ýmissa stoðstarfa s.s. í eftirliti og rannsóknum. Í Hnífsdal eru höfuðstöðvar Háafells og þar er líka Sjávareldi ehf sem elur og vinnur silung. Í Bolungarvík er Arnarlax að koma sér upp starfstöð og í Súðavíkurhreppi er slátrun og þar eru kvíar eins og í Strandabyggð.

Í öllum þessum byggðarlögum er því fiskeldið orðið að veruleika. Tekjur af því eru nú þegar verulegar og störf myndast í hverri viku. Það gefur því augaleið að þetta er mikilvæg atvinnugrein, ekki bara fyrir Vestfirðinga heldur líka landið allt.

Hver ræður og hver dregur lappirnar?

Öll sveitarfélög á Vestfjörðum hafa fagnað þessari uppbyggingu og hafa kvatt til þess að uppbyggingin gangi hratt og vel fyrir sig án þess þó að anað sé að neinu eða afsláttur gefin í umhverfislegu tilliti. En staðreyndin er að sveitarfélög hafa lítið um eldi að segja. Þeirra aðkoma er í raun aðeins sem umsagnaraðilar að leyfisumsóknum eða ef úthluta á lóðum. Ríkið og stofnanir hafa miklu meira um uppbygginguna að segja og þar hefur algjörlega skort frumkvæði og kraft til að koma með Vestfirðingum og landsmönnum öllum í að byggja upp atvinnuveg sem innan fárra ára gæti skilað ríkissjóði marga milljarða árlega í skatttekjur beint og óbeint.

Það er því sérstakt fyrir okkur Vestfirðinga að finna ekki meiri stuðning og frumkvæði frá hinu opinbera í að byggja þessa atvinnugrein upp. Um langt árabil hefur íbúum fækkað hérna en nú þegar fyrirtæki eru að hasla sér völl hér sem vilja byggja upp atvinnulífið og skapa störf virðist algjörlega skorta kraft til að koma með okkur í þetta verkefni.

Þar ber helst að nefna getuleysi stofnana til að afgreiða leyfi, setningu reglna um umhverfi fiskeldisfyrirtækja og þá augljósu aðgerð að setja landinu stefnu í fiskeldismálum og fylgja henni eftir. Nýir ráðherrar byrja alltaf á byrjunarreit og alltaf þarf að skoða og skoða og skoða, þegar aðgerða er þörf. Í dag virðist manni hið opinbera að mörgu leiti vera áhorfandi á þessa gríðarlegu uppbyggingu sem nú þegar hefur átt sér stað, mun eiga sér stað og hreinlega verður að eiga sér stað. Það er vond nálgun.

Nútíma fiskirækt. Hvað þarf til?

Sumir virðast efast um að fiskeldi geti gengið á Íslandi. Þær áhyggjur ættu að vera óþarfar. Mikið hefur áunnist á síðast liðnum árum í þróun þessarar atvinnugreinar og önnur lönd og fyrirtækin hér hafa náð að yfirstíga hindranir sem hér voru. Í Færeyjum er fiskeldi orðið stærsta útflutningsgreinin og í norður Noregi er sama upp á teningnum. Þar gengur fiskeldi vel. Það er því ekkert sem ætti að vefjast fyrir okkur í þessu það eru ágætar forsendur fyrir því að hér skapist arðbært fiskeldissamfélag sem fyrirtækin, íbúar og ríkissjóður geti notið góðs af. En til þess þarf ríkið að taka forystu og tryggja að greinin byggist upp á  forsendum samfélagsins og aðila sem þar starfa.

En þetta mun ekki gerast að sjálfu sér. Ef ríkissjóður vill koma með sveitarfélögum á Vestfjörðum í atvinnuuppbyggingu þarf að vinna hratt. Mikilvægast í því er að  tryggja að stofnanir  afgreiði umsóknir innan eðlilegra tímamarka. Það að sum eldisfyrirtækin séu mörg ár að fá niðurstöðu í umsóknir sínar er ótækt. Einnig þarf að styrkja laga og reglugerðaumhverfi fyrirtækjanna. Það á bæði við út frá umhverfissjónarmiðum, skattaumhverfi og leyfismálum.  Leggja þarf fé í rannsóknir svo að hægt sé að taka faglega á þeim umsóknum sem berast. Svo eigum við að læra af nágrannaþjóðum okkar um hvað er gott og hvað má betur fara og í því þarf að fjárfesta.

En meira þarf til. Til að eldisuppbyggingin nýtist sem flestum byggðarlögum þarf að hraða uppbyggingu innviða. Það er skynsamlegt vegna þess að með uppbyggingu greinarinnar munu skatttekjur stóraukast. A.m.k. fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum geta t.d. ekki farið í nauðsynlegar hafnarframkvæmdir af því að ríkisjóður er ekki tilbúinn að koma með lögbundin mótframlög sem eru nauðsynlegar til að eldisfyrirtækin geti haldið áfram að vaxa.

Samgöngur, sérstaklega að vetrarlagi eru þannig að þær anna ekki því álagi sem aukið eldi hefur í för með sér og nútímasamfélag kallar á. Ekki heldur er nægjanlegur kraftur settur í að ljúka þeim samgöngubótum sem beðið hefur verið eftir í áratugi. Þ.e. að hægt sé að keyra á bundnu slitlagi á milli allra byggðarlaga á Vestfjörðum og inn á þjóðveg 1. Það er lykilatriði í uppbyggingu Vestfjarða að samgöngur innan svæðisins séu þannig að það verði í raun og veru eitt atvinnusvæði. Það mun styrkja búsetuskilyrði hér meira en nokkur önnur aðgerð. Allar þessar samgöngubætur eru nauðsynlegar og skynsamlegt er að fara í þær strax til að ávinningurinn af þeim skili sér strax.

Vestfirðir eru Fiskeldisfjórðungurinn

Fiskeldi er nú þegar orðin stór atvinnugrein á Vestfjörðum. Hún getur vaxið verulega og breytt búsetuskilyrðum á Vestfjörðum varanlega. Stjórnvöld bera mikla ábyrgð og þurfa að taka forystu í að gera umhverfi greinarinnar skilvirkt og þannig að allir geti við unað. Enginn gerir kröfur um afslátt í umhverfismálum  en það hlýtur að vera sanngjörn krafa að niðurstaða fáist í umsóknir og að þær séu ekki að þvælast á milli stofnanna í mörg ár. Við þurfum að vinna þetta saman og setja kraft í að byggja upp innviði og grípa tækifærið sem felst í fiskeldinu þjóðinni til hagsbóta.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar.

DEILA