Ljóðaball í Tjöruhúsinu

Tjöruhúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði.

Það er ekki ofsögum sagt að á páskum blómstri menningarlíf Ísafjarðarbæjar einsog marglitt túlípanabeð og margfeldisáhrif hinnar rómuðu Skíðaviku láti fyrir sér finna víða. Þegar Skírdagskvöld stendur sem hæst blæs Lista- og menningarfélag Skúrarinnar til veislu margra ljóða, mikilla tóna og trallandi stuðs í Tjöruhúsinu, þar sem fram koma meðal annars alræmdi rapparinn og rithöfundurinn Kött Grá Pje, hið myrka borgarskáld Björk Þorgrímsdóttir, stafræna gjörningaskáldið Lommi (Jón ÖrnLoðmfjörð) auk heimamanna á við rokk-og-rólstjörnurnar Skúla Mennska og Hauk SM – sem leikur með Kisum – hattaskáldið Eirík Örn Norðdahl og bókmenntafræðinginn Inga Björn Guðnason. Stuðið hefst klukkan 21.30; tilboð verður á plokkfiski og diskar, varningur og bækur til sölu – meðal annars sérstök forsala á ljóðabók Eiríks Arnar, Óratorrek, sem kemur út í næstu viku.

DEILA