FUBAR á Patreksfirði

Jónas Sen og Sigríður Soffía í hlutverkum sínum.

Dansarinn og danshöfundurinn Sigga Soffía hefur verið á sunnanverðum Vestfjörðum í tengslum við verkefnið List fyrir alla. Í gær og í dag hafa ungmenni á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði tekið þátt í danssmiðju og þegar allir hafa lært, spunnið og dansað verður síðar í dag haldið í félagsheimilið á Patreksfirði þar sem Sigga Soffía og tónlistarmaðurinn Jónas Sen hafa komið sér fyrir og þar verður þeim boðið að sjá sýninguna FUBAR, sem hefur fengið mikið lof, en fyrr á þessu ári kom tvíeykið einnig á Ísafjörð þar sem boðið var upp á eina sýningu á verkinu. Í kvöld gefst síðan almenningi á svæðinu kostur á að bera verkið augum þar sem önnur sýning verður í félagsheimilinu á Patreksfirði klukkan 20.

Í umfjöllun um verkið segir að FUBAR sé egósentrískt verk skandínavískrar stúlku. Textarnir í verkinu innihalda fyrsta heims vandamál, hugleiðingar og vandamál íslenskrar konu sem hefur lifibrauð sitt af því að dansa á sviði almenningi til skemmtunar. Síðastliðin ár hefur danshöfundurinn Sigga Soffía unnið nokkur stór verk sem hlotið hafa verðskuldaða athygli, þar má nefna flugeldasýningarnar á Menningarnótt, opnunarsviðsverk Listahátíðar í Reykjavík, Svartar Fjaðrir, sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu og verkið Og himinninn kristallast, sem hún gerði fyrir Íslenska dansflokkinn.

FUBAR var frumsýnt í Gamla bíó í októbermánuði og hefur síðan verið sýnt á Ísafirði, Akureyri, Borgarnesi, Ólafsfirði og Egilsstöðum. Sýningin saman stendur af hreyfiefni, söng og texta eftir Siggu Soffíu og Jónas Sen kemur fram og flytur lifandi tónlist. Leikmyndin er eftir myndlistarmanninn Helga Má Kristinsson og búningar eftir Hildi Yeoman.

annska@bb.is

 

DEILA