Samskip flytja tónlist á Aldrei fór ég suður

Aldrei fór ég suður tónlistarhátiðin er dæmi um menningarverkefni sem hefur notið góðs af uppbyggingarsjóðnum.

Samskip hafa um langt skeið stutt við bakið á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður sem verður haldin á Ísafirði um páskana. Ekki verður brugðið út af vananum í þetta sinn og verða Samskip einn af aðalstyrktaraðilum hátíðarinnar. Samskip sjá um flutninga á tækjum og tólum fyrir hátíðina og veita henni jafnframt styrk í formi peningaframlags.

Einar Pétursson rekstrarstjóri Samskipa á Ísafirði ber hitann og þungann af samstarfinu og skipulagningu flutninganna en hann segir að gaman sé að snúast í kringum þetta verkefni sem setji svo mikinn svip á bæinn og sé kærkomin upplyfting í byrjun vors.

Hátíðin er um páskana, 13. til 16. apríl næstkomandi, og fer fram á hafnarsvæðinu á Ísafirði í nýbyggðri skemmu sem Rækjuverksmiðjan Kampi leggur til á gatnamótum Ásgeirsgötu og Suðurgötu. Sem fyrr kostar ekkert inn á hátíðina, sem nýtur stuðnings bæjarfélagsins og fjölda fyrirtækja.

Á Aldrei fór ég suður 2017 koma fram: Emmsjé Gauti, Hildur, Kött Grá Pje, HAM, Soffía Björg, KK Band, sigurvegarar Músiktilrauna, Karó, Mugison, Börn, Valdimar, Vök, Rythmatik og Lúðrasveit Tónlistarskólans á Ísafirði.

smari@bb.is

DEILA