Hátt í hálfa milljón króna hefur nú þegar safnast á listaverkauppboði Krabbameinsfélagsins Sigurvonar, en því lýkur á miðnætti þann 31. mars. „Uppboðið hefur farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Tinna Hrund Hlynsdóttir, gjaldkeri Sigurvonar og umsjónarmaður uppboðsins og bætir við: „Það er þó enn tími til að skoða verkin og freista þess að eignast fallega, tímalausa list eftir vestfirska listamenn og –konur.“ Níu verk hafa verið gefin á uppboðið og allur ágóði rennur til Sigurvonar. Listamennirnir að baki þeim eru Pétur Guðmundsson, Berglind Halla Elíasdóttir, Marsibil Kristjánsdóttir, Guðrún Sigríður Matthíasdóttir, Ólafía Kristjánsdóttir og Reynir Torfason ásamt ljósmyndaranum Ágústi G. Atlasyni.

Þá eru einnig til sölu bindisherðatré sem er hönnun eftir Odd Andra Thomasson undir merkjum O design en hann rekur hönnunarstofu í gamla líkhúsinu í Bolungarvík auk verslunar undir sama nafni.

Listaverkauppboðið er nýjung í fjáröflun hjá félaginu og mikil breidd er í þeim verkum sem boðin eru upp. Uppboðið fer fram á netinu og getur fólk tekið þátt með því að senda tölvupóst á netfangið sigurvon@snerpa.is eða í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook. Í lok hvers dags eru svo hámarksboð í hvert verk upplýst á Facebook-síðu félagsins. Það getur því enn margt breyst á þessum dögum sem eftir eru.

Opið hús var haldið fyrr í mánuðinum þar sem fólk bauðst að koma og skoða verkin, og heppnaðist það mjög vel, enn má koma og bera verkin augum á opnunartíma þjónustumiðstöðvarinnar að Pollgötu 4, á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 16-18.

annska@bb.is

DEILA