Djassveisla á Húsinu

Tríóin sem troða upp á Húsinu í kvöld.

Það verður sannkölluð djassveisla á Húsinu á Ísafirði í kvöld þegar hljómsveitirnar Equally Stupid og Tríó Alex Jønsson troða upp. Hljómsveitin Equally Stupid er tríó stofnað af Sigurði Rögnvaldssyni gítarleikara og saxófónleikaranum Pauli Lyytinen. Tónlist þeirra er kraftmikil og oft hröð en jafnframt melódísk.

Equally Stupid gáfu út sína aðra plötu, Escape from the Unhappy Society, núna í janúarog fylgdu plötunni eftir með tveggja vikna tónleikaferð um Finnland. Núna eru þeir á ferð um Norðurlöndin til að kynna nýju plötuna. Hljómsveitina skipa Sigurður Rögnvaldsson á gítar, Pauli Lyytinen á saxófón og David Meier á trommur og hafa þeir verið virkir bæði í norrænu djasssenunni og víðar í Evrópu.

Ár 2013 var Alex Jønsson tilnefndur sem „besti nýliði í djassi“á dönsku tónlistarverðlaununum. Nýlega stofnaði hann sitt eigið tríó ásamt bassaleikaranum Jens Mikkel og trommuleikaranum Andreas Skamby. Alex skapar ljúft andrúmsloft með tónlist sinni sem byggir á fallegum laglínum og spuna. Eftir að hafa gefið út plötuna „Spy on Your Friends“ ár 2015 þá hefur tríóið spilað víða um Danmörku, í Norðurlöndunum og Eystrarsaltsríkjunum.

Tónleikarnir hefjast kl. 21.

smari@bb.is

DEILA