Hjörtur flutti eigið lag í úrslitaþætti The Voice

Hjörtur á The Voice Ísland sviðinu, skjáskot af mbl.is

Úrslitaþáttur The Voice Ísland fór fram í Atlantic studios á föstudagskvöldið og fylgdust margir með því á skjánum í Sjónvarpi Símans er Karitas Harpa Davíðsdóttir fór með sigur af hólmi í þessari annarri þáttarröð söngkeppninnar. Fyrstu þáttaröðina vann Bolvíkingurinn Hjörtur Traustason og kom hann fram í úrslitaþættinum og söng lag og texta úr eigin smiðju, What a feeling.

Hjörtur segir að hann sé búinn að gera tuttugu útgáfur af laginu sem byrjaði að taka á sig mynd með laglínu árið 2009, er áföll dundu á í lífi Hjartar og segir hann lagið persónulegt og það fjalli um missi og söknuð. Textinn leit svo dagsins ljós á síðasta ári og var lagið frumflutt opinberlega á sviði Atlantic Studios.

Lagið má heyra og sjá flutninginn á því inn á mbl.is. Þar segir Hjörtur jafnframt:  „Þetta lag var það sem ég vildi koma fyrst út. Þetta er búið að vera í hausnum á mér í öll þessi ár og búið að trufla mig að það væri ekki komið út. Svo fór þessi svaðalega vinna af stað, ég vissi ekki að það væri svona mikil vinna að koma út einu lagi!“

annska@bb.is

DEILA