Gísli fær fjórar stjörnur

Gísli á Uppsölum í meðförum Elfars Loga Hannessonar. Mynd: Davíð Davíðsson

Gísli á Uppsölum, nýjasta verk Kómedíuleikhússins, er nú sýnt í Þjóðleikhúsinu, nánar tiltekið í Kúlunni. Upphaflega stóð til að bjóða þar upp á tvær sýningar á verkinu en hafa undirtektir verið með slíkum hætti að nú eru sex sýningar auglýstar og má Elfar Logi Hannesson, einleikarinn knái, líklega búa sig undir lengri dvöl í borginni hafi dómar gangrýnenda áhrif. Í dag birtist í Morgunblaðinu dómur Þorgeirs Tryggvasonar leikhúsrýnis um sýninguna, sem hann fer um fögrum orðum, jafnframt segir Þorgeir þar framlag Elfars Loga til íslenskrar leiklistar næsta einstakt og verðskuldi alla okkar virðingu, og að sjálfsögðu mun meiri opinberan fjárhagsstuðning en raunin er. Í sýningunni segir Þorgeir meðal annars rétt að staldra við yfirvegaðan og úthugsaðan samleik Elfars Loga við leikmynd og leikmuni. Hægar hreyfingar, varfærnisleg handbrögð og ástúðleg meðhöndlun Gísla á öllu sem hann snertir á sviðinu undirstrika bæði hrumleika hans þegar það á við, en líka afstöðu sjálfsþurftaröreigans til nytjahlutanna og síns þrönga heims. Mjög fallegt, og eiginlega það eina sem hægt er að kalla „rómantískt“ í sýningunni.

Á öðrum stað segir: Þriðja atriðið sem má nefna snýr að færni leikarans sem einleikara; nákvæmni hans með augnaráð og fókus. Trúðleikur er að sönnu í kennsluskrá Kómedíuskólans og Elfar Logi nær áreynslulaust sambandi við salinn þegar hann kærir sig um. En að sjá hann horfa inn á við og teikna upp umhverfi og viðmælendur með augunum er fallegt dæmi um list leikarans.

Það er óhætt að fullyrða að gagnrýnandi Morgunblaðsins hafi verið yfir sig hrifin af Gísla á Uppsölum í meðförum Elfars Loga í leikstjórn Þrastar Leós Gunnarssonar og gefur hann sýningunni fjórar stjörnur. Dóminn í heild sinni má lesa hér. Þar má lesa í niðurlagi:

Það er hlýja og heiðarleiki í túlkun Kómedíuleikhússins á lífi þessa fræga nærsveitunga. Leikhúsaðferðir eru valdar af kostgæfni og þeim beitt af öryggi. Útkoman er falleg og snertir mann. Þannig á það að vera. Við bíðum svo öll spennt eftir að sjá Elfar Loga bregða sér í hlutverk Eiríks Arnar Norðdahl og Helga Björns.

Tvær sýningar verða á Gísla á Uppsölum á miðvikudag og er uppselt á þær báðar. Sýningar verða svo föstudag og sunnudag og eru örfáir miðar eftir á þær.

annska@bb.is

DEILA