Ásrós Helga og Katla Vigdís sungu til sigurs

Katla Vigdís og Ásrós Helga sungu til sigurs. Mynd af heimasíðu Grunnskólans á Ísafirði.

Samvest undankeppnin fyrir söngkeppni félagsmiðstöðva, fór fram í Grunnskólanum á Ísafirði í síðustu viku. Tólf atriði frá norðanverðum Vestfjörðum kepptu þar um að komast í söngkeppni Samfés sem fram fer í Reykjavík helgina 24. – 26. mars. Sigur úr býtum báru þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir úr Grunnskólunum á Suðureyri og Þingeyri, en þær fluttu lagið Big Jet Plane eftir Angus og Julie Stone. Þessi reynsla, frumsamið rapplag þeirra Dagbjartar Óskar Jóhannsdóttur, Rakelar Damilola Adeleye og Helenu Haraldsdóttur í flutningi þeirra varð í öðru sæti. Í 3. sæti urðu Ólöf Einarsdóttir, Hlynur Ingi Árnason, Árný Margrét Sævarsdóttir og Ísabella Rut Benediktsdóttir úr G.Í. með lagið Little Talks eftir hljómsveitina Of Monsters and Men. Dómarar í keppninni voru Dagný Hermannsdóttir, Málfríður Hjaltadóttir og Benedikt Sigurðsson.

Söngkeppni Samfés hefur verið mikilvægur viðburður í starfi Samfés allt frá stofnun samtakanna árið 1985. Á Söngkeppninni gefst unglingum kostur á að koma fram og syngja fyrir framan jafnaldra sína af landinu öllu og hafa fjölmargir í gegnum tíðina þar stigið sínu fyrstu skref á söngsviðinu. Í núverandi skipulagi komast þrjátíu atriði í lokakeppnina að undangengnum forkeppnum í hverjum landshluta. Veitt eru verðlaun fyrir efstu sætin en sérstök aukaverðlaun eru veitt fyrir besta íslenska textann sem saminn er af unglingi.

annska@bb.is

DEILA