Zontaklúbburinn Fjörgyn fagnaði 20 ára afmæli

Frá afmælisfagnaðinum á föstudagskvöld

Zontaklúbburinn Fjörgyn á Ísafirði fagnaði 20 ára afmæli síðasta föstudag og komu Zontakonur saman af því tilefni og gerðu sér glaðan dag, ásamt gestum.

Dagskráin hófst í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði með myndasýningu þar sem stiklað var á stóru í starfi klúbbsins undanfarna tvo áratugi. Þá var hlýtt á tónlistarflutning Péturs Ernis Svavarssonar og Önnu Annikku J. Guðmundsdóttur áður en haldið var á veitingastaðinn Við Pollinn í hátíðarkvöldverð.

Zonta eru heimssamtök kvenna með það fremst að leiðarljósi að bæta laga- og stjórnmálalega stöðu kvenna og auka réttindi þeim til handa á sviði menntunar og heilbrigðis og til að standa vörð um starfsréttindi þeirra hvar sem er í heiminum. Samtökin voru stofnuð í borginni Buffalo í New York fylki árið 1919, en hvatinn að stofnun þeirra var aukin þátttaka kvenna á atvinnumarkaðnum að lokinni fyrri heimsstyrjöldinni. Fyrirmyndin voru karlasambönd eins og Rotaryhreyfingin, en markmiðið með Zonta var þó fyrst og fremst það að styrkja samstöðu kvenna sem og stöðu þeirra á atvinnumarkaðnum.

Frá upphafi hafa Zontasamtökin stutt hjálparstarf til handa konum og börnum bæði á heimavelli en ekki síður á alþjóðlegum vettvangi, í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og hjálparsamtök. Árlega beina Zontasamtökin sjónum sínum að sérstökum verkefnum og í ár styrkja þau fræðslu og meðferð gegn Endómetróíósis (legslímuflakk) sem er krónískur móðurlífssjúkdómur.

Ísland var sjöunda landið til að ganga í hreyfinguna en í dag eru um 70 lönd í hreyfingunni með um 1200 klúbba þar af eru átta klúbbar á Íslandi. Klúbburinn Fjörgyn sem starfar á norðanverðum Vestfjörðum hefur styrkt margar ungar konur úr heimabyggð til náms eða starfa auk þess að koma að ýmsum alþjóðlegum verkefnum. Þá hefur klúbburinn einnig styrkt samtök og hjálparstörf í heimabyggð.

Stjórn Fjörgynjar 2016-2017 skipa Una Þóra Magnúsdóttir formaður, Jóhanna Hafsteinsdóttir varaformaður, Helga Þ. Magnúsdóttir gjaldkeri, Thelma Hjaltadóttir ritari og Áslaug Jóhanna Jensdóttir stallari.

annska@bb.is

DEILA