Bókakvöld á Bryggjukaffi

Það er ekki ofsögum sagt að hér á landi búi bókaþjóð og ansi margt sem verpist um þá iðju að skrifa bækur og lesa þær og má nú segja að sé háannatími á hjá báðum hópum. Rithöfundar flengjast um allar koppagrundir til að kynna nýjasta sköpunarverkið og lestrarhestarnir margir hverjir geta ómögulega beðið fram að jólum með að byrja að lesa eitthvað af þeim fjölmörgu titlum sem finna má í hafsjó jólabókaflóðsins.

Flateyringar ætla að taka forskot á sæluna á föstudagskvöldið og bjóða gestum og gangandi að taka þátt í viðburði sem kallast „Jól um bækur.“ Þar verður gluggað í nokkrar af jólabókunum, skrafað og skeggrætt. Kristján Torfi Einarsson segir frá Verjandanum eftir Óskar Magnússon, Sigurður Hafberg fjallar um Passíusálma eftir Einar Kárason, Ágústa Guðmundsdóttir veltir fyrir sér Utan þjónustusvæðis eftir Ásdísi Thoroddsen, Fjölnir Ásbjörnsson deilir reynslu sinni af Drunga eftir Ragnar Jónasson og Jóhanna G. Kristjánsdóttir segir frá bók sinni Þorp verður til og einnig tekur hún til umfjöllunar nýjustu bók Vigdísar Grímsdóttur Elsku Drauma mín.

Bókakvöldið verður á Bryggjukaffi og hefst klukkan 20.

annska@bb.is

DEILA