Mugison toppar sig enn og aftur

Mugison og hljómsveit. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson

Okkar eini sanni Mugison hélt útgáfutónleika sína í Edinborgarhúsinu á föstudagskvöld. Þar steig hann á stokk ásamt hljómsveit sinni sem margir vilja meina að aldrei hafi hljómað betur, þó ekki hafi hún nú hljómað illa fram til þessa. Tónleikarnir voru sannkallað töfratónamaraþon, dagskráin löng og þétt og ekki gefin tomma eftir í að gera kvöldið sem eftirminnilegast í hugum þeirra rúmlega 200 gesta sem mættu á staðinn og senda þá út í skammdegisnóttina með sálarfóður til að moða úr framundir vetrarsólstöður eða lengur þar sem allir fengu fóður í föstu formi með sér heim, nýja diskinn, Enjoy!

Á tónleikunum var spilað efni af hinum nýútkomna diski, ásamt því sem eldra efni fékk einnig að njóta sín, en líkt og Mugison sagði sjálfur í spjalli við Bæjarins besta fyrir skömmu, ekki hægt að leggja það á tónleikagesti að heyra of mikið af nýju efni í einu. Svo bróðurlega var skipt á milli þess nýja og gamla, og hélt tónlistarmaðurinn gestunum vel upplýstum um framvindu mála á meðan á tónleikunum stóð. Allt hljómaði þetta stórkostlega. Gamla efnið lá líkt og amerískur dreki og nýja efnið var eins og það hefði alltaf verið til.

Það var þétt setinn bekkurinn í Edinborgarsal. Mynd: Matthildur Helgadóttir Jónudóttir
Það var þétt setinn bekkurinn í Edinborgarsal. Mynd: Matthildur Helgadóttir Jónudóttir

Það kvað við nýjan tón á tónleikunum, þó svo að bæði kraftmikil og undurþýð rödd Mugison, ásamt þéttasta og svipmesta trommuleik norðan Alpafjalla sé enn í fyrirrúmi. Lögunum fjölgar, ekki bara í eiginlegri merkingu, að tónlistarmaðurinn sé stöðugt að bæta í sarp sinn. Heldur er tónlistin lagskiptari, útfærðari, dýpri og með fleiri ásjónur en áður. Nýr meðlimur hefur gengið til liðs við hljómsveitina, Rósa Sveinsdóttir, sem spilar á barítónsaxófón og þverflautu og hefur verið lagt mikið upp úr því að bæta við röddun, sem heppnaðist afar vel. Það má eiginlega segja að á tónleikunum hafi bara verið einn hængur, að þurfa að sitja kyrr.

Þessi tvö eru alltaf dásamleg saman á sviði. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson
Þessi tvö eru alltaf dásamleg saman á sviði. Mynd: Þorsteinn Haukur Þorsteinsson

Mugison, líkt og Handboltalandsliðið, sem Íslendingar gjarnan eigna sér á tyllidögum, er löngu orðinn yfirlýst þjóðareign Vestfirðinga, þrátt fyrir að hafa stundum reynt að klóra í bakkann og greina frá raunverulegum uppruna sínum. En við þráumst við að heyra slík óþarfa rök – hver vill annars ekki slíkt óskabarn?!

Hljómsveitin mun á næstu vikum deila gleðinni með fleirum og verða um næstu helgi tónleikar á Akranesi og í Reykjanesbæ. 7. og 8. desember verða svo tvennir tónleikar í Hörpu sem seldist upp á á methraða. 9. desember verða aftur tvennir tónleikar á Græna hattinum á Akureyri og næsta dag lokatónleikarnir í þessari hrinu í Valaskjálf á Egilsstöðum.

annska@bb.is

DEILA