Eldklárir Víkarar

Félag slökkviliðsmanna í Bolungarvík og Bolungarvíkurkaupstaður efna til árlegs brunavarnarátaks í Bolungarvík nú þegar skammdegið er að skella á og ljósa-, rafmagns- og kertanotkun er hvað mest. Í kvöld og á morgun laugardag munu slökkviliðsmenn í Bolungarvík ganga í hús og aðstoða við hvaðeina er varðar eldvarnir heimila sé þess óskað, ásamt því að hafa til sölu á kostnaðarverði rafhlöður í reykskynjara og minna á að að skipta þarf um rafhlöður í reykskynjurum einu sinni á ári og er góður siður að gera það fyrir upphaf jólaaðventu, einnig hafa þeir til sölu eldvarnarteppi og handslökkvitæki. Bjóðast þeir til að skipta um rafhlöður í reykskynjurum, setja upp nýja, sem og handslökkvitæki og eldvarnarteppi fyrir eldri borgara og þá sem erfitt eiga um vik.

Á laugardag verður slökkvitækjahleðsla staðsett á slökkvistöðinni og geta allir farið með slökkvitæki sín og látið yfirfara þau þar frá kl. 10. Handslökkvitæki þarf að yfirfara á tveggja ára fresti. Þeir sem ekki komast með handslökkvitæki sín til skoðunar á laugardag verða einnig aðstoðaðir og eru þeir beðnir um að hafa samband við slökkviliðsstjóra í síma 897 1482.

Algengustu brunar á Íslandi eru af völdum rafmagns og raftækja og oft hefur kviknað í út frá kertaskreytingum. Hættulegustu eldsvoðar verða að nóttu til þegar heimilisfólk er sofandi. Eldurinn magnast ótrúlega fljótt og reykurinn verður banvænn á fáeinum mínútum. Reykskynjarar sem vara heimilisfólkið við hættunni, ættu því að vera í hverju herbergi þar sem raftæki eru staðsett, einnig í bílskúrum. Prófa þarf reykskynjarana reglulega og skipta þarf um rafhlöður árlega. Reykskynjurum þarf að skipta út ef minnsti vafi leikur á að þeir séu í lagi og reykskynjarar eiga ekki að vera eldri en 10 ára. Einnig minna slökkviliðsmennirnir á að eldvarnarteppi og handslökkvitæki eigi að vera til á öllum heimilum og allir þurfi að kunna að nota þau.

annska@bb.is

DEILA