Ritstjórnarstefna

Ritstjórn vefmiðilsins BB útgáfufélag ehf. hefur sett sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði starfsmanna BB, eins og kveðið er á um í gr. 24 í lögum nr. 38 frá 2011 um fjölmiðla. Við stofnun miðilsins var ákveðið af eigendum að BB skyldi vera óháður fréttamiðill sem skuli fjalla um atburði á Vestfjörðum. Það er álit ritstjórnar að sjálfstæði starfsmanna sé hornsteinn til þess að svo verði.

Eigendur og sérhagsmunir

Vefmiðillinn BB er ópólitískur fréttamiðill sem skal fjalla um málefni líðandi stundar á Vestfjörðum. Ritstjóri skal hafa frelsi til að ritstýra og taka ákvarðanir án afskipta frá eigendum og stjórnendum miðilsins enda er ritstjórinn ráðinn til að framfylgja almennt störfum sínum, grundvallarsjónarmiðum og markmiðum eigenda og stjórnenda fyrirtækisins. Það er stefna ritstjórnar að í umboði ritstjóra skulu starfsmenn hafa fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði og þurfa því ekki að taka tillit til skoðana eða hagsmuna eigenda og/eða viðskiptamanna miðilsins ef siðareglur Blaðamannafélags Íslands, samviska þeirra og sannfæring segir þeim að það sé ekki rétt. Ritstjóri skal hafa það að leiðarljósi að BB er frjáls og óháður vefmiðill og skal því ekki taka afstöðu með eða á móti málefnum, heldur skýra frá hinum ýmsu afstöðum sem eru í fjórðungnum. Blaðamenn skulu ekki taka við verkefnum frá öðrum en ritstjóra. Eigendur BB skulu ekki hafa afskipti af einstökum fréttaskrifum eða ræða þau beint við viðkomandi blaðamenn, heldur skulu mál af því tagi vera tekin upp við ritstjóra. Einnig er hægt að leita til ritstjórnar ef talið er að ritstjóri brjóti í bága við þessar reglur.

Ritstjórnarstefna

Ritstjórnarlegt sjálfstæði tekur mið af og takmarkast af ritstjórnarstefnu miðilsins. Ritstjóri hefur leyfi til að hafna greinum er hann telur ganga á ritstjórnarstefnu, forgangsröðun á verkefnum eða almennri skynsemi. Skulu því þau verkefni sem blaðamanni er falið að vinna vera innan ramma yfirlýstrar ritstjórnarstefnu. Ritstjóri er ábyrgur fyrir túlkun og framkvæmd ritstjórnarstefnu og forgangsröðun á verkefnum sem falla til í daglegu starfi.

Starfsskilyrði ritstjórnar

Blaðamenn skulu fá aðstöðu og tíma til að setja sig vel inn í þau mál sem þeir eiga að fjalla um. Þó skal vera skýrt að vefmiðillinn sinnir ekki rannsóknarblaðamennsku á meðan starfsmenn eru svo fáir, en skulu þeir jafnan fá tækifæri til að vinna mál á þann hátt sem þeir telja réttast og nota þau efnistök sem þeir telja best án sérstakrar leiðsagnar ritstjóra, nema þess sé óskað. Ritstjóri skal hins vegar á endanum ráða því hvernig og hvar fréttin muni birtast. Blaðamenn BB hafa fullan tillögurétt þegar kemur að því að velja efni til úrvinnslu. Sé frétt og nálgun blaðamanns í tilteknu máli breytt í veigamiklum atriðum á viðkomandi blaðamaður rétt á skýringu ritstjóra á breytingunum.

Skilyrði uppsagnar 

Ekki er hægt að segja upp starfsmanni án skriflegrar skýringar. Gildir það undantekningarlaust hver svo sem ástæða uppsagnarinnar er og eru slíkar skýringar ekki einkamál blaðamanns og útgefanda BB útgáfufélags ehf. nema blaðamaður eða útgefandi óski þess sérstaklega.

Ísafirði 1. maí 2018
Fyrir hönd ritstjórnar

Lína Björg Tryggvadóttir

Ari Hafliðason

Inga María Guðmundsdóttir