Flateyri: enginn styrkur til gamanmyndahátíðar

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar telur sér ekki fært að verða við beiðni Gamanmyndahátíðarinnar á Flateyri um langtímasamning en bendir hátíðinni á að sækja um menningarstyrk til atvinnu- og menningarmálanefndar. Haldnar hafa verið fimm hátíðir til þessa.

Atvinnu- og menningarmálanefndin afgreiddi styrkibeiðnir í mars síðastliðnum og var Gamanmyndahátíðin ekki á meðal þeirra erinda sem fengu styrk.

Eyþór Jóvinsson forsvarsmaður hátíðarinnar segir að atvinnu- og menningarmálanefnd hafi hafnað beiðni um samning við Ísafjarðarbæ vegna styrkveitinga til Gamanmyndahátíðar Flateyrar með þeim rökstuðningi að „Slíkir samningar eru ætlaðir til að efla hátíðir sem þegar hafa fest sig í sessi í sveitarfélaginu og sýnt fram á mikilvægi sitt í samfélagslegu og menningarlegu tilliti.“

Hátíðir sem hafa fengið langtímasamning eru m.a. Act alone, aldrei fór ég suður og tungumálatöfrar.

Markmið Gamanmyndahátíðarinnar eru þríþætt: að  styrkja samfélagið á
Flateyri og Vestfjörðum; að skapa skemmtilega og gamansama kvikmyndahátíð
á Íslandi og að efla gamanmyndagerð á Norðurslóðum.

Á síðustu gamanmyndahátíð voru sýndar 37 myndir, viðburðir voru 26 og 1.768 gestir mættu.

Kostnaður við hátíðina 2019 var um 8,9 milljónir króna og tekjur 6,1 milljón króna. Hallinn var jafnaður með því að aðstandendur lækkuðu launakröfur sínar.

Stærsti útgjaldaliðurinn var launakostnaður 5,1 milljón króna. Fengnir opinberir styrkir voru 3,8 milljónir króna. Þar var hæstur 1.200 þús kr strykur frá Barnamenningarsjóði og 800 þús kr. úr Grænlandssjóði. Ríkisstjórnin veitti 350 þús kr styrk, Ísafjarðarbær 200 þús kr og Uppbyggingarsjóður Vestfjarða 700 þúsund krónur. Loks veitti Íslandsstofa 150 þúsund króna styrk. Fyrirtæki styrktu hátíðina um 910 þúsund krónur. Þar var ölgerðin hæst með 250 þúsund krónur. Miðasala skilaði 1.380.000 kr í tekjur.

Kostnaðaráætlun fyrir hátíðina í ár er upp á 12,6 m.kr. og er gert ráð fyrir opinberum styrkjum að upphæð 7,3 milljónum króna, þar af 300 þúsund krónum frá Ísafjarðarbæ.