Ísafjörður: bæjarstjórinn með nærri 1,6 m.kr. á mán.

Laun og fastar greiðslur Guðmundar Gunnarssonar, fráfarandi bæjarstjóra eru sléttar 1,5 milljónir króna á mánuði samkvæmt ráðningarsamningi sem gerður var 22. ágúst 2018.

Föst mánaðaraun eru 887.643 kr á mánuði. Til viðbótar er greidd föst yfirvinna 60 klst sem gerir 557.357 kr. á mánuði. Þá er samið um að greiddar séu 500 km á mánuði í bifreiðastyrk þar sem greiddar eru 110 kr fyrir hvern km. Samtals nema þessar greiðslur 1,5 milljónum króna á mánuði. Innifalið í greiðslunum eru greiðslur fyrir setu á fundum bæjarráðs og bæjarstjórnar.

Þá greiðir Ísafjarðarbær afnotagjöld og föst gjöld af farsíma.

Ráðningartími er út kjörtímabil núverandi bæjarstjórnar sem kjörin var vorið 2018. Samningurinn er uppsegjanlegur með 6 mánaða fyrirvara miðað við mánaðamót. Bæjarstjóri á rétt til launa í 6 mánuði frá þeim degi sem hann hættir störfum vinni hann út allt kjörtímabilið. Það ákvæði á þó ekki við komi til endurráðningar að loknum bæjarstjórnarkosningum 2022.

Launatölur eru endurreiknaðar 1. janúar ár hvert miðað við launavísitölu í desember. Grunnur er vísitala í júní 2018, sem var 660,9 stig. Launavísitala er nú 700,7 stig. Hækkunin er 6%. Fjárhæð launa og bifreiðastyrks er því nú 1.586.000 kr. á mánuði.

Ráðning Guðmundar og ráðningarsamningurinn voru borin upp og staðfest í bæjarstjórn 30. ágúst 2018 með 5 atkvæðum gegn 2. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks greiddu atkvæði með en Arna Lára Jónsdóttir og Aron Guðmundsson greiddu atkvæði á móti. Tveir fulltrúar Í listans sátu hjá.

Laun Gísla Halldórs Halldórssonar, forvera Guðmundar í starfi bæjarstjóra á Ísafirði voru 1.614 þúsund krónur á mánuði að öllu meðtöldu í maí 2018 samkvæmt úttekt í blaðinu Vestfirðir.

Facebook Notice for EU! You need to login to view and post FB Comments!