Landvernd harmar ábyrgðarlaust tal

Í yfirlýsingu sem stjórn Landverndar hefur sent frá sér segir meðal annars:

Í erfiðu ástandi sem skapaðist víða um land vegna fárviðris og langvarandi rafmagnsleysis virðist sem stjórnendur helstu orkufyrirtækja landsins varpi ábyrgð á landeigendur og náttúruverndarfólk. Fáeinir stjórnmálamenn hafa í fljótfærni tekið undir þennan málflutning og kalla eftir aðgerðum sem auðvelda fyrirtækjum að ráðast í umdeildar framkvæmdir. Þessi upphlaup eru óheppileg svo vægt sé til orða tekið.

Allt tal um að umdeildar virkjanir sem stórskaða náttúruarf þjóðarinnar séu nauðsynlegar fyrir orkuöryggi landsins er því villandi málflutningur. Orka til almennra nota er nægjanleg enda fara liðlega 80 % raforkuframleiðslu í dag til stóriðju og í bit-coin gröft sem ekki skapar samfélagsleg verðmæti.

Landvernd lýsir eftir að ástæður fyrir þeim vanda sem skapaðist vegna rafmagnsleysis í undanfarna daga verði grandskoðaðar. Þegar öll kurl koma til grafar verði leitað að hagkvæmum lausnum sem ekki valda skaða á náttúru landsins til að styrkja flutning á rafmagni til almennra nota til framtíðar, þar sem hætta á ofsaveðri fer vaxandi. Þar til þetta liggur fyrir er heppilegast að staldra við frekar enn að leita að sökudólgum.