Umhverfisráðherra vísiterar Vestfirði

Umhverfisráðherra (t.v.) og Kristian B. Matthíasson bera saman bækur sínar á Bíldudal í gær.

Guðmund­ur Ingi Guðbrands­son um­hverf­is­ráðherra hóf í dag þriggja daga ferð um Vest­f­irði þar sem hann mun meðal ann­ars hitta full­trúa sveit­ar­stjórna, at­vinnu­lífs, um­hverf­is­vernd­ar­sam­taka, starfs­menn stofn­ana og heima­fólk sam­kvæmt frétta­til­kynn­ingu.

„Ráðherra vill með heim­sókn­inni kynna sér þau mál sem eru í deigl­unni á lands­svæðinu er tengj­ast mál­efna­sviðum um­hverf­is- og auðlindaráðuneyt­is. Má þar nefna skipu­lags­mál, raf­orku­ör­ygg­is­mál, nátt­úru­vernd, sam­göngu­mál, fisk­eldi og fleira,“ seg­ir enn frem­ur.

Ferðin hófst á Bíldu­dal þar sem hann kynnti sér fisk­eld­is­mál áður en hann fundaði á Pat­reks­firði með sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­um frá Vest­ur­byggð og Tálknafirði. Ráðherr­ann mun einnig heim­sækja Reyk­hóla­sveit, Ísa­fjörð og Bol­ung­ar­vík þar sem hann mun funda með fólki víðar af Vest­fjörðum. Þá mun hann eiga fjar­fund með sveit­ar­stjórn­ar­fólki í Árnes­hreppi.

DEILA