Ársreikningur síðasta árs fyrir Ísafjarðarbæ var lagður fram á bæjarstjórnarfundi í gær. Í bókun Í listans, sem hefur meirihluta, segir að rekstur Ísafjarðarbæjar hafi gengið einstaklega vel árið 2024 og haldi því áfram að styrkjast. Reksturinn skilaði afgangi sem nemur 1.167 milljónum króna. Tekjur voru hærri og gjöld lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Þá segir að allar kennitölur vísi í sömu átt. „Skuldahlutfall lækkar; árið 2023 var það 134% en var 116% árið 2024, þegar áætlun gerði ráð fyrir að það færi í 125%. Skuldahlutfallið hjá A hluta er 114% en var 122% árið 2023. Skuldaviðmið A og B hluta er 95% og 72% fyrir A hluta. Veltufé frá rekstri var tæp 15% og handbært fé jókst mikið.“
Framkvæmt fyrir milljarð króna
Á síðasta ári var framkvæmt og fjárfest fyrir tæpan milljarð. Umfangsmestu fjárfestingarnar voru gatnagerð, hafnarframkvæmdir, umbætur í fráveitu og vatnsveitu og snjóflóðavörnum á Flateyri.
„Áfram er auðvitað nauðsyn að sýna aðgæslu í rekstrinum. Það er krefjandi að reka sveitarfélag og má lítið útaf bera. Ársreikningur ársins 2024 er þó til marks um að vel hafi tekist og með ráðdeild og skynsemi horfum við bjartsýn fram á veginn.“
Fjárhagsleg markmið hafa nær öll náðst
Bókuninni lýkur með þessum orðum: „Í upphafi kjörtímabilsins ákvað Í-listinn að setja sér metnaðarfull fjárhagsleg markmið. Skemmst er frá því að segja að þau hafa nær öll náðst. Það er auðvitað ekki einungis góðum rekstri sveitarfélagsins að þakka heldur umsvifum í fjölbreyttu atvinnulífi og góðum tekjum hafnarinnar og að því þarf að hlúa.“