„Við höfum farið yfir þetta með bæjarlögmanni sveitarfélagsins og það er okkar mat að ekki sé tilefni til að bregðast við þessum dómi sérstaklega“ segir Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík aðspurður um áhrif dóms Landsréttar frá 27.2. 2025 í máli Vesturbyggðar gegn Arnarlax á tekjur hafnasjóðs kaupstaðarins af eldisfiski. Í dómnum var innheimt aflagjald Vesturbyggðar af eldisfiski dæmt ólögmætt.
samningur í gildi og enginn ágreiningur
„Það er í gildi samningur um greiðslu hafnargjalda vegna löndunar á laxi í Bolungarvíkurhöfn. Öll fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum hafa greitt samkvæmt þeim samning og er ekki til staðar neinn ágreiningur um þær greiðslur.“
Jón Páll bætir því við að ánægja sé með samninginn og við „teljum hann endurspegla sanngjarnt gjald fyrir Bolungarvíkurhöfn og fiskeldisfyrirtækin. Það stendur ekki til að gera neinar breytingar á innheimtu gjalda í Bolungarvíkurhöfn eða forsendur þeirra.“
ánægð með samstarf við fiskeldisfyrirtækin
„Við erum mjög ánægð með það samstarf sem við höfum átt við fiskeldisfyrirtæki vegna þeirra starfsemi í Bolungarvík og teljum hann vera hagfeldan fyrir alla aðila. Rekstur hafnarinnar hefur gengið vel undanfarin ár og er höfnin hryggjarstykki í atvinnulífi Bolungarvíkur. Undanfarið ár hefur verið unnið að nýrri framtíðarsýn fyrir hafnarsvæðið þar sem verið er að skilgreina stækkunarmöguleika til næstu áratuga. Það er mikilvægt að Bolungarvíkurhöfn sé vel rekin og hafi fjárhagslegan styrkleika til að standa undir slíkri framtíðarsýn og haldi áfram að vera nauðsynlegir innviðir fyrir verðmætasköpun á svæðinu.“