Laugardagur 10. maí 2025
Heim Blogg Síða 2

Vikuviðtalið: Hrund Karlsdóttir

Formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur Hrund Karlsdóttir leiðir móðurömmu sína Bjarneyju Kristjánsdóttur, sem komin er á tíræðisaldur.

Ég heiti Hrund Karlsdóttir,er 48 ára gömul reyndar bráðum 49 og kem frá Bolungarvík – einu af fallegasta bæjarstæði landsins að mínu mati.

Hér á ég mínar rætur, hef alið upp barn og sinnt starfi sem ég brenn fyrir.

Ég er elst af 5 systkinum.

Ég á eina dóttur,Karólínu Mist, sem er nú á öðru ári í læknisfræði í Háskóla íslands.

Ég er gríðalega stolt af henni og þeirri miklu elju sem hún hefur sýnt.

Sjálf starfa ég sem formaður í Verkalýðs og sjómannafélagi Bolungarvíkur.

Réttindarmál launafólks eru mér hjartansmál og tel ég þau grundvöll að sanngjörnu og virðingarfullu samfélagi.

Ég fer alltaf glöð í vinnuna þar sem verkefnin eru fjölbreytt og krefjandi.

Fyrir utan verkalýðsstörfin hef ég einnig mikinn áhuga á sundi.

Ég hef þjálfað sund í 14 ár og það hefur gefið mér ómælda ánægju að vinna með börnum og sjá þau vaxa og dafna í íþróttinni.

Það er fátt jafn hvetjandi og að fylgjast með gleði og framförum ungra iðkenda.

Ég er þakklát fyrir að búa í litlu samfélagi þar sem nándin er sterk og fólk þekkir hvert annað.

Hér er best að vera að mínu mati.

Auglýsing

Hálka á heiðum

Vegagerðin segir hálku vera á flestum fjallvegum til dæmis Hálfdán, Kleifaheiði og Dynjandisheiði en krap er á Steingrímsfjarðarheiðiog Gemlufallsheiði. Eitthvað er um snjóþekju og hálkubletti.

Þá er í dag unnið að þrifum í Dýrafjarðargöngunum. Vegfarendur eru beðnir að aka varlega.

Auglýsing

Ný stjórn Byggðastofnunar: enginn Vestfirðingur

Halldór Gunnar Ólafsson, formaður stjórnar Byggðastofnunar.

Í gær var haldinn ársfundur Byggðastofnunar og var hann að þessu sinni í Breiðadalsvík á Austfjörðum.

Þar var tilkynnt um nýja stjórn stofnunarinnar, en það er Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra sem skipar hana. Skipt var um alla sex stjórnarmennina.

Nýr formaður er Halldór Gunnar Ólafsson, oddviti á Skagaströnd. Vigfús Þórarinn Ásbjörnsson, Hornafirði er varaformaður.

Aðrir stjórnarmenn eru:

Steindór R. Haraldsson, Skagaströnd

Heiða Ingimarsdóttir, Egilsstöðum

Heiðbrá Ólafsdóttir, Rangárþingi eystra

Margrét Sanders, Reykjanesbæ.

Heiða er varaþingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi og Heiðbrá er varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Vigfús Þórarinn var 6. maður á lista Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.

Í fráfarandi stjórn var einn Vestfirðingur, Guðný Hildur Magnúsdóttir, Bolungavík.

Uppfært kl 10:33. Tveir stjórnarmannanna eiga ættir að rekja til Vestfjarða. Margrét Sanders flutti ung frá Ísafirði til Njarðvíkur með foreldrum sínum, Albert Sanders og Sigríði Friðbertsdóttur, sem voru frá Ísafirði og Súgandafirði. Heiðbrá Ólafsdóttir er dóttir Ólafs þ. Þórðarsonar fyrrv. alþm. frá Stað í Súgandafirði og segist sannarlega vera Vestfirðingur í hjarta sínu.

Þá má bæta því við að Steindór Haraldsson er hálfbróðir Smára Haraldssonar, fyrrv. bæjarstjóra Ísafirði, en þeir eru samfeðra.

Auglýsing

Kjörstaður verður á Ísafirði í pólsku forsetakosningunum

Í fyrsta sinn verður unnt að kjósa á Ísafirði í komandi forsetakosningum í Póllandi. Að sögn Janina Magdalena Kryszewska, sem situr í kjörstjórn, þurfa þeir sem kosningarétt eiga, að skrá sig. Skráningu lýkur 13. mái næstkomandi. Um 500 Pólverjar á Vestfjörðum hafa kosningarétt og þegar hafa 109 þeirra skráð sig.

Á myndinni með fréttinni eru leiðbeiningar um það hvernig unnt er að skrá sig fyrir forsetakosningarnar.

Kosið verður í Vestrahúsinu 1. hæð á Ísafirði dagana 18. maí og 1. júní. Opið verður frá kl 7 að morgni til kl 9 að kvöldi báða þessa daga.

Auglýsing

Skönnun og varðveisla skipulagsuppdrátta

Nú í upphafi árs gerðu Þjóðskalasafnið og Skipulagsstofnun með sér samkomulag um afhendingu á hluta af skjalasafni Skipulagsstofnunar. Þar er meðal annars að finna frumrit af upphaflegum uppdráttum skipulagsnefndar ríkisins af helstu byggðarlögum á landinu. Verkefnið snýr að forvörslu, frágangi, skráningu og afhendingu elstu skipulagsuppdrátta í safni stofnunarinnar til Þjóðskjalasafns, til varanlegrar varðveislu.

Þjóðskalasafnið hefur nú tekið á móti tólf uppdráttum frá árunum 1927-1943 ásamt fleiri uppdráttum sem stofnunin átti í skjalasafni sínu. Safnið er hluti af okkar sameiginlega menningararfi og er einstakt fyrir margra hluta sakir. Þar má finna ýmsar gersemar sem gefa innsýn inn í íslenska skipulagssögu og hugmyndir um byggðaþróun og bæjarmyndun í upphafi 20. aldar.

Vinnu Þjóðskjalasafns við frágang og skráningu verður skipt á tvö ár, 2025-2026. Afurð skráningarinnar er skjalaskrá sem birt verður á vef Þjóðskjalasafnsins, þar sem uppdrættirnir verða aðgengilegir í stafrænu afriti ásamt helstu upplýsingum um hvern og einn.

Uppdrættirnir verða jafnframt gerðir aðgengilegir á vef Skipulagsstofnunar ásamt upplýsingum um framvindu verkefnisins og næstu skref en í skjalasafni stofnunarinnar er að finna ýmis önnur gögn sem einnig er fyrirhugað að gera aðgengilegri.

Auglýsing

Stóra upplestr­ar­keppnin á sunn­an­verðum Vest­fjörðum

Stóra upplestr­ar­keppni grunn­skól­anna á sunn­an­verðum Vest­fjörðum 2025 var haldin í gær, 7. maí, við hátíð­lega athöfn í Patreks­fjarð­ar­kirkju.

Mikil spenna ríkti í kirkjunni, enda höfðu keppendur lagt mikið á sig í undirbúningi sínum. Í fyrstu umferð fluttu þeir svipmyndir úr skáldsögunni Draumurinn eftir Hjalta Halldórsson. Í annarri umferð völdu þeir ljóð úr bókinni Allt fram streymir, sem inniheldur ljóð eftir fjölmarga höfunda. Í lokaumferðinni fluttu keppendur ljóð að eigin vali.

Allir upplesararnir fengu viðurkenningarskjal, blóm og bókina Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur að gjöf. Lionsklúbbur Patreksfjarðar styrkti keppnina með gjafabréfum frá Landsbankanum, sem voru veitt sem verðlaun fyrir þrjú efstu sætin.

Tónlistarskóli Vesturbyggðar tók einnig þátt í dagskránni. Íris Ásta Lárusdóttir flutti lagið Lunar Eclipse og Lara Alexandra Gomes flutti He’s a Pirate.

Dómnefndina skipuðu Birta Ósmann Þórhallsdóttir, Jónas Snæbjörnsson og Sandra Líf Pálsdóttir. Þau réðu ráðum sínum um stund en komust að lokum að niðurstöðu.

Eydís Hanna Bjarnadóttir úr Bíldudalsskóla hlaut þriðja sæti, Katrín Hugadóttir úr Tálknafjarðarskóla annað sæti og sigurvegari keppninnar var Alexander Nói Ásgeirsson úr Patreksskóla.

Auglýsing

Styrkir til kaupa á nytjahjólum

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur ákveðið að veita sérstaka styrki til kaupa á nytjahjólum (e. cargo bikes) gegnum Loftslags- og orkusjóð.

Styrkirnir verða allt að 200.000 kr. eða að hámarki 1/3 af kaupverði hvers hjóls.

Um er að ræða hjól sem eru sérstaklega hönnuð til þess að flytja farm og farþega, eru dýr í innkaupum en geta nýst með sams konar hætti og einkabílar og þannig dregið úr akstri og brennslu jarðefnaeldsneytis.

„Rafbílavæðingin skiptir máli, en til þess að ná alvöru árangri í loftslagsmálum þurfum við ekki síður að ýta undir breyttar ferðavenjur, vistvænni og fjölbreyttari ferðamáta sem gera líka samfélagið okkar skemmtilegra. Stuðningur við kaup á nytjahjólum er liður í þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Auglýsing

Gul veðurviðvörun – Hálku og krapi á fjallvegum

Í nótt kóln­ar tals­vert með suðvest­an átt og mun snjóa á fjall­vegi eins og Dynjandisheiði, Þröskulda og Stein­gríms­fjarðar­heiði.

Suðvestan 8-15 m/s og slyddu eða -snjóél, einkum á fjallvegum. Lítið skyggni í éljum, jafnvel krapi og hálkublettir og því æskilegt að bílar séu búnir til vetraraksturs.

Í til­kynn­ingu frá veður­fræðingi Vega­gerðar­inn­ar seg­ir að á morg­un sé spáð slyddu­hryðjum um vest­an­vert landið og það verður hvasst að auki. Við þess­ar aðstæður muni verða krapi á fjall­veg­um og sum staðar hálka. Það muni einkum eiga við þjóðveg­inn norður í land og eins vest­ur á firði.

Auglýsing

Vestfirðir: veruleg íbúafjölgun í apríl

Mikil íbúafjölgun varð á Vestfjörðum í aprílmánuði. Í byrjun mánaðarins voru 7.566 íbúar með lögheimili í fjórðungnum en þeim fjölgaði í 7.598 í byrjun maí. Fjölgunin er 32 íbúar.

Frá 1. desember sl. hefur íbúunum fjölgað um 54 sem gerir 0,7% fjölgun á þessum 5 mánuðum. Er það nærri tvöfalt meiri fjölgun en á landsvísu, sem var 0,4%, á sama tíma.

Á síðustu fimm mánuðum hefur mest fjölgun orðið í Ísafjarðarbæ. Íbúar eru nú 4.025 og hefur fjölgað um 28 manns. Bara í apríl fjölgaði íbúunum í Ísafjarðarbæ um 25.

Þá hefur síðustu fimm mánuði fjölgað um 11 manns í Vesturbyggð og um 10 manns í Súðavík.

Auglýsing

Vísindaportið: eitrun hreindýrahjarðar

09.05.2025 kl. 12:10 í Háskólasetrinu á Ísafirði.

Í vísindaporti vikunnar ætlar Kristine að leiða okkur í gegnum alvöru ráðgátu sem byggð er á sannri sögu, jafnvel glæpasögu! Hér er um að ræða eitrun hreindýrahjarðar sem leiddi til dauða 127 hreindýra.

Í þessum fyrirlestri mun Kristine Pedersen segja okkur frá því hvernig hægt er að beita þekkingu á mengun til að rekja uppruna eitrunarinnar og koma auga á sökudólginn. 

Þó að Kristine elski góða glæpasögu, tengir hún yfirleitt ekki vinnu sína við mengun við glæparannsóknir. Hún hefur yfir 20 ára reynslu af vinnu tengdri mengun – allt frá því að finna og rannsaka mengun til að meta umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir. 

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Fyrirlesturinn fer fram á ensku.

Auglýsing

Nýjustu fréttir