Mánudagur 19. maí 2025
Heim Blogg Síða 3

Edinborg: sýningin Tilfinningaleg staðartengsl – Söfn fólks á Vestfjörðum

Velkomin á opnun sýningarinnar „Tilfinningaleg staðartengsl – Söfn fólks á Vestfjörðum“ kl. 15:00 sunnudaginn 18. maí í Bryggjusal.

Sýningin stendur frá 18. maí til 7. júní, 2025


Opnunartímar eftir opnun: Mánudaga til fimmtudaga 15:00-17:30 – listamaðurinn er viðstaddur og tekur á móti gestum.

Hvernig tvinnast hversdagurinn og landslagið saman í sameiginlega sögu? Hvaða tilfinningar eru bundnar stöðum og hvernig eru þær skrásettar í hversdagslegum ljósmyndun almennings?

Þetta er meðal spurninga sem danski listamaðurinn og rannsakandinn Peter Kærgaard Andersen spyr sig í vettvangsrannsókn sinni á Vestfjörðum. Í tengslum við rannsóknina setur hann upp sýninguna „Tilfinningaleg staðartengsl“ og er hún hluti af nýdoktorsrannsókn hans í alþjóðlega verkefninu Hversdagssögur (e. Everyday Histories) sem er unnið við mannfræðideild Árósaháskóla í Danmörku. Í verkefninu er kannað hvernig hversdagslegar minningar eru samtvinnaðar landslaginu og hvernig þær eru tjáðar í gegnum ljósmyndir úr einkasöfnum. Auk þess fjallar verkefnið um það hvernig unnt er að varðveita slíkar óopinberar sögur og hvernig hægt er að endursegja þær og miðla.

„Hér í Edinborgarhúsinu er ég að setja upp lifandi sýningu sem vonandi vex á sýningartímanum. Sýningin er samansafn af efni úr einkasöfnum sem hafa verið gefin til varðveislu á söfnin hér á svæðinu. Ég vonast til að eiga samtal við gesti sýningarinnar um þessar ljósmyndir og hluti sem hér verður að finna, og sjá hvort það veki tilfinningatengsl við landslagið. Ef fólk býr yfir myndum sem það tengir mikilvægum minningum eða sögum úr hverdagslífinu væri mjög gaman að fá fólk í heimsókn hingað til að deila því. Það væri því einstaklega gaman að heyra frá fólki sem hefur áhuga á að deila ljósmyndum og sögum þeim tengdum,“ segir Peter og bætir því við að hann bjóðist einnig til að færa fjölskyldualbúm fólks yfir á stafrænt form og myndir þátttakenda yrðu hluti af varðveittu safni.

Sýningin opnar sunnudaginn 18. maí í Bryggjusal og stendur til 7. júní. Peter verður á staðnum mánudaga til fimmtudags allan tímann frá kl. 15:00 til 17:30.

Sýningin er hluti af vettvangsrannsókn og skapar því einnig rými til að velta fyrir sér sögum, lífi og hversdegi og hvernig megi miðla þessu áfram.

Verkefnið er tilkomið í samstarfi við Byggðasafn Vestfjarða og Safnahúsið á Ísafirði með aðstoð frá Háskólasetri Vestfjarða. Stefnt er að því að setja sýninguna upp í Moesgaard safninu í Danmörku í kjölfarið.

Auglýsing

Ísafjarðarbær í Bestu deild

Gylfi Ólafsson og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2024, sem samþykktur var í bæjarstjórn 15. maí, er sá besti í áraraðir.

Metnaðarfull markmið hafa öll náðst með bravúr

Í upphafi kjörtímabilsins setti bæjarstjórn sér skýr og metnaðarfull markmið um að taka til í rekstrinum, borga niður skuldir og endurskipuleggja í rekstrinum en halda áfram fjárfestingum. 

Skemmst er frá því að segja að í fyrra náðust nær öll markmið. Veltufé frá rekstri, skuldahlutfall, skuldaviðmið, þriggja ára rekstrarafgangur, handbært fé og allt annað er yfir markmiðum og sum mjög hressilega.

Rekstrarafgangur A- og B-hluta var um 1.174 m.kr. en ef A-hlutinn er tekinn sér var afgangurinn 487 m.kr. Fyrir hvert mannsbarn í sveitarfélaginu er þetta um 300 þ.kr. afgangur. 

Þau tvö markmið sem ekki náðust eru smávægileg. Hjúkrunarheimilið Eyri kostar bæinn enn meira en tekjur og Byggðasafn Vestfjarða fær meðgjöf til að standa undir safnhluta rekstrarins en sýningarhald í Neðstakaupstað skilar vissulega tekjum á móti.

Skuldaniðurgreiðslur og skattalækkanir

Skuldahlutfall lækkar. Fyrir A-hluta var hlutfallið um áramótin síðustu 109% en stefnir í að fara undir 100% í lok þessa árs. Þegar B-hlutinn er tekinn með er hlutfallið hærra, sem skýrist að stærstu leyti af skuldum af hjúkrunarheimilinu Eyri og Fasteignum Ísafjarðarbæjar. Það á að taka á þessu. Við erum langt komin með að selja Eyri og Fasteignir Ísafjarðarbæjar, sem hafa lengi verið of umfangsmiklar í rekstri á íbúðarhúsnæði, seldu eignir fyrir 174 m.kr. í fyrra. Áfram eru félagsleg sjónarmið hátt á lofti til að tryggja aðgengi að húsnæði fyrir þá sem mest þurfa á að halda. 

Á sama tíma hafa skattar verið lækkaðir. Í öruggum skrefum hefur álagningarhlutfall fasteignagjalda verið lækkað, og er nú komið í 0,5% í ár. Einnig var gjaldskrá fyrir vatn og fráveitu endurskoðuð í réttlætisátt og heildargjöld lækkuð. 

Markmiðssetningin hjálpar til við að sýna festu þegar vel gengur. Það má ekki slaka á. Skuldir þurfa helst að lækka enn frekar svo hægt sé að taka áföllum eins og gerðist á covid-árunum. Lægri skuldir lækka afborganir af lánum, en fjármagnsgjöld voru um 100 þúsund á hvern íbúa í fyrra.

Höfnin skilar miklu 

Afgangurinn af rekstri hafna Ísafjarðarbæjar var 474 m.kr. Það eru 125 þúsund á hvert mannsbarn í sveitarfélaginu. Vissulega eru hafnirnar í B-hluta, sem þýðir að afgangurinn nýtist ekki til að niðurgreiða skólastarf eða önnur kjarnaverkefni sveitarfélagsins. Það er hinsvegar alveg ljóst að sterk höfn styður samfélagið mikið, getur staðið undir fjárfestingum og endurspeglar þann ábata sem móttaka skemmtiferðaskipa hefur fyrir bæjarfélagið. Styrktarsjóður hafnanna hefur einnig stækkað og styður með myndarlegum hætti við Aldrei fór ég suður og fjöldamörg önnur samfélagsverkefni. 

Hvernig gerðist þetta?

Afgangur af rekstri og lækkun skuldahlutfalls endurspegla ábyrga fjármálastjórn og samstillt átak starfsfólks og bæjarstjórnar. Á síðasta ári var framkvæmt og fjárfest fyrir tæpan milljarð. Umfangsmestu fjárfestingarnar voru gatnagerð, hafnarframkvæmdir, umbætur í fráveitu og vatnsveitu og í snjóflóðavörnum á Flateyri. Þá hafa verið gerðar breytingar á rekstri málefna fatlaðra og ýmsum öðrum velferðarmálum, sem hafa orðið til mikils sparnaðar með sömu eða betri þjónustu. 

En styrk fjármálastjórn er ein og sér ekki ástæða góðs árangurs. Aðstæður í ytra umhverfi eru okkur hagfelld. Fasteignaverð hækkar, það er gott gengi í rekstri fyrirtækja og aukin umsvif í ferðaþjónustu. Það er efnahagsævintýri hér fyrir vestan.

Markmið og lykiltölur úr ársreikningum síðustu ára. Allar fjárhæðir eru í milljónum króna. 

Uppbygging heldur áfram

Rekstur sveitarfélags snýr að stærstum hluta að því að uppfylla lagalegar skyldur eins og að reka skóla, sinna gatnakerfinu og—haltu í hattinn—halda húsum myglulausum. Þar erum við í innviðaskuld. Við höfum verið að stíga stór skref í fráveitumálum, fyrst í minni byggðakjörnunum og einnig nú í Skutulsfirði. Þá fara fram endurbætur á skólahúsnæði jafnt og þétt. Bygging slökkvistöðvar er stórt verkefni sem er að hefjast. Einnig er gatnagerð á Suðurtanga og vinna við ný deiliskipulög í gangi.

Það er nauðsynlegt að sýna áfram aðgæslu í rekstri sveitarfélagsins en við horfum bjartsýn fram á veginn með metnað fyrir þjónustu og uppbyggingu. 

Ísafjarðarbær í Bestu deild

Ársreikningurinn er aðgengilegur á vef bæjarins, en við vekjum sérstaka athygli á ársskýrslu sem fylgir, en þar er umfangsmiklum rekstri bæjarins lýst á aðgengilegan hátt. 

Í fyrra lauk stórum áföngum í uppbyggingu fótboltamannvirkja á Torfnesi og var nýr völlur vígður á vormánuðum. Mikið af þeirri uppbyggingu var unnið í sjálfboðavinnu og með stuðningi atvinnulífsins, en kjölfestan í framkvæmdunum var peningur úr sjóðum bæjarins. Karlalið Vestra sýndi að það var ekki til einskis: þeir héldu sér uppi í Bestu deildinni og eru nú í toppbaráttu annað árið sitt í deildinni. 

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar kemur sveitarfélaginu líka í Bestu deildina.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs

Auglýsing

Múlaþing: óvíst að dómur Landsréttar hafi áhrif

Laxeldi Arctic Fish í Arnarfirði.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, bæjarstjóri í Múlaþingi segir það sé í skoðun hjá sveitarfélaginu hvaða áhrif dómur Landsréttar um ólögmæti aflagjalds af eldisfiski hafi fyrir Múlaþing. Ekki sé um skriflegan samning að ræða við eldisfyrirtækin um gjöldin en sami skilningur hefur verið milli aðila um greiðslur og fjárhæð þeirra. Vísað sé í gjaldskrá hafnarinnar og ekki hafi verið gerðar athugasemdir.

Hún segir að breyta þurfi orðalagi í gjaldskránni, þar sem talað er um aflagjald en nú hafi verið lögfest heimild til þess að taka eldisgjald, en taldi óvíst að nokkuð frekar þurfi að gera.

Dagmar Ýr kvast ekki hafa neinar fréttir af því að eldisfyrirtækin á Austurlandi myndu krefast endurgreiðslu á greiddu aflagjaldi og það kæmi sér verulega á óvart ef það gerðist.

Eldisfiski er að langmestu leyti landað til slátrunar í þremur höfnum landsins, á Bíldudal, í Bolungavík og á Djúpavogi.

Hafnasambandið tekur ekki afstöðu

Lúðvík Geirsson, formaður stjórnar Hafnasambands Íslands segir að stjórnin hafi ekki tekið afstöðu til fullyrðinga Gerðar B. Sveinsdóttur bæjarstjóra Vesturbyggðar um að dómurinn geti haft víðtæk áhrif á aðrar hafnir og almenna gjaldtöku. Gerður kynnti fyrir stjórninni dóm Landsréttar í máli Vesturbyggðar gegn Arnarlax með ofangreindum hætti.

Bolungavík: engin áhrif

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri hefur sagt að ekki sé tilefni fyrir bæjarfélagið til þess að bregðast við dómi Landsréttar, þar sem skriflegur samningur liggi fyrir við eldisfyrirtækin og að enginn ágreiningur sé um greiðslurnar.

Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð hefur ekki svarað fyrirspurn Bæjarins besta þar sem hún er innt eftir nánari skýringum á þeim ummælum sínum “að dómurinn geti haft víðtæk áhrif á aðrar hafnir og almenna gjaldtöku hafna.”

Auglýsing

Orkubú Vestfjarða: ársfundur í dag

Höfuðstöðvar Orkubúsins eru á Stakkanesi á Ísafirði.

Í dag verður haldinn ársfundur Orkubús Vestfjarða og hefst fundurinn kl 12 í Edinborgarhúsinu.

Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður setur fundinn og síðan mun Elías Jónatansson, orkubússtjóri
kynna ársreikning OV og gera grein fyrir starfseminni síðasta á síðasta ári.

Tvö fróðleg erindi verða flutt.
Halldór V. Magnússon, framkvæmdastjóri veitusviðs segir frá fyrirhugðum framkvæmdum við jarðstreng til Súðavíkur og Sölvi R. Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs segir frá Kvíslartunguvirkjun í Steingrímsfirði sem er í burðarliðnum.
Fundurinn er öllum opinn.
Fundargestum verður boðið upp á kaffi og súpu á staðnum.

Orkubúið hvetur alla til þess að mæta og hlusta á fróðleg erindi um framþróun í
samfélaginu hér á Vestfjörðum.


Áætlað er að fundurinn standi til kl. 13:30.

Auglýsing

Vikuviðtalið: Anna Lind Ragnarsdóttir

Ég heiti Anna Lind Ragnarsdóttir og er 61 árs, fædd og uppalin í Súðavík. Æskan mín var yndisleg, mikið frelsi til þess að nota ímyndunaraflið til leiks og skemmtunar. Ég er yngst sex systkina en tvö þeirra eru látin, aðeins 54 ára og 44 ára. Móðir mín Guðrún Jónasdóttir var frá Súðavík og lést aðeins sextug, árið 1990. Faðir minn Ragnar Þorbergsson fæddur í Miðvík (Aðalvík) kom til Súðavíkur um fermingaraldur eftir að amma og afi hættu störfum á Galtarvita. Hann er 97 ára og er ný fluttur á Eyri Ísafirði eftir að hafa búið á Bergi í Bolungarvík undanfarin ár.

Ég var í grunnskólanum í Súðavík út 7.bekk en fór þá í héraðsskólann í Reykjanesi og kláraði 8.-9.bekk þar, eða grunnskólann, eins og hann var þá. Eftir að grunnskóla lauk fór ég norður á Sauðárkrók og tók eitt ár í framhaldsskólanum þar. Að því loknu hætti ég námi og fór að vinna og ferðaðist um heiminn. Fór til Evrópu, suðaustur Asíu, Singapoor, Bali, Ástralíu og Nýja Sjálands og vann þar um tíma, gríðarlega þroskandi að sjá hvað heimurinn hefur uppá að bjóða, bæði það góða og það slæma.

Ég hef unnið hin ýmsu störf m.a. í frystihúsi, verslunarstörf, og að setja upp og reka fyrstu eiginlegu sjoppuna í Súðavík.  Ég fór í kvöldskóla til þess að klára stúdentsprófið, sem ég lauk við MÍ 1991. Þá var ég byrjuð að kenna í Súðavíkurskóla sem leiðbeinandi og sótti um í fjarnám við Kennaraháskóla Íslands. Lauk B.ed kennaraprófi 1996. Tók leikskóladiplómu 2004 og kláraði M.ed /meistarprófi 2015, allt í fjarnámi. Hef unnið í Súðavíkurskóla síðan 1990, tók við sem skólastjóri 1998 og er enn að😊

Það hlýtur að vera gaman í vinnunni þegar maður er búin að vera í sama starfinu í 35 ár og það er það svo sannarlega.  Þetta er ákaflega gefandi starf, þar sem enginn dagur er eins. Að vinna með börnum er oftar enn ekki gríðarlega skemmtilegt og býður upp á allskonar áskoranir. Uppeldi til ábyrgðar er einhver besta uppeldisstefna sem ég hef komist í kynni við en þar erum við að kenna okkur og börnunum m.a. um grunnþarfir okkar allra og að allir verði að læra að bera ábyrgð á sjálfum sér í stað þess að kenna öðrum um. Þegar við þekkjum og viðurkennum eigin tilfinningar þá erum við færari um að setja okkur í spor annarra og sýna samkennd. Þetta þýðir þó ekki að manni líði aldrei illa eða er laus við öll vandamál, heldur að vera betur undir það búinn þegar eitthvað bjátar á. Lífið er ekki eilífur dans á rósum, það er eðlilegt að eiga stundum slæma daga. Það tilheyrir því að vera manneskja. Við lærum og mætum erfiðleikum af þrautseigju og gefumst ekki upp þótt á móti blási. Við erum færari um að njóta lífsins og finna gleði í því sem lífið hefur upp á að bjóða. En að sjálfsöguðu hefur margt breyst í skólahaldi á þessum árum. Sumt til hins betra en ég verð líka að segja að sumt er ekki eins gott að mínu mati, án þess að fara nánar út í það hérna.

Maðurinn minn heitir Garðar Sigurgeirsson og rekur fyrirtækið Vestfirskir Verktakar á Ísafirði. Við eigum 3 börn, Sigurgeir 1995. Elmar Atli 1997 og Birtu Lind 2000. Við eigum orðið tvö afa og ömmu börn og erum svo heppin að þau búa líka í Súðavík.

Það er oftar en ekki að maður horfir yfir líf sitt þegar eitthvað bjátar á hjá manni. Ég man eftir þegar snjóflóðið í Súðavík féll 16. janúar 1995 þá var ég þrítug og varð 31 árs tveimur dögum síðar eða 18.janúar. það kvöld fór ég einmitt aðeins yfir lífið mitt. Það eina sem mér fannst vanta þá voru börn, við höfðum lengi reynt að eignast barn en ekki tekist. Sú ósk rættist í nóvember sama ár og mér fannst líf mitt fullkomið. Það er ekki fyrr en árið 2009 eftir að hafa fundið mjög litla bólu á öðru brjóstinu að ég fór til læknis og við nánari skoðanir, reyndist þetta vera illkynja karabbamein.  

Maður verður einhvern veginn dofinn og þar sem mikið er af krabbameini í minni ætt, þá varð maður hræddur og hugsaði ,,jæja það er þá komið að mér,, Ég ræddi mikið við guð og bað mikið, ég vildi meina að guð gæti nýtt mig og mína krafta lengur og ég væri til í hvað sem væri, ef ég fengi annað tækifæri. Maður lifnar við og telur í sig kjark til að hefja baráttuna. Ég var ótrúlega heppin allt gekk upp hjá mér, en að sama skapi verður maður viðkvæmur og meyr því ég hef horft á eftir svo mörgum sem töpuðu sinni baráttu við krabbamein.

Þetta var vakning hvað varðar lífið. Ég ákvað að ég skyldi reyna að gera allt sem í mínu valdi væri til að verða betri manneskja, ekki bara fyrir mig og mína heldur líka fyrir samfélagið og aðra.

Ég las mikið um sjúkdóminn og hvað væri ráðlegt að gera í framhaldinu og eitt af því var hreyfing. Þannig varð hreyfing eitt af mínum aðal áhugamálum. Ég tók þetta allt inn og byrjaði að fara í fjallgöngur og það hefur að mínu mati breytt öllu mínu lífi til batnaðar.

Fyrir mig eru fjallgöngur ekki bara líkamleg áreynsla og vellíðan heldur ekki síst fyrir andlegu hliðina. Það að ganga ein hefur gefið mér hvað mest hvað varðar andlega heilsu, það er ekkert sem getur toppað það að vera einn út í náttúrinni, njóta og fara yfir hin ýmsu mál í huganum og leysa úr því sem þarf að leysa. Þetta er eins og snerta ,,hið ósnertanlega,, fegurðin og friðurinn verður hvergi meiri og betri. Maður fyllist lotningu og þakklæti, að fá að upplifa þetta því maður þarf alltaf að muna að það eru margir sem komast aldrei á fjöll, ekki af því að þeir vilji það ekki, heldur komast ekki af ýmsum ástæðum eins og veikindi og fleira.

Áhugamálin eru allskonar en fyrst og síðast að vera sáttur við sjálfan sig og umhverfið sitt, upplifa jafnvægi, öryggi og ánægju af lífi og starfi, upplifa og njóta.

Auglýsing

Bolungarvík gerir samning við Kómedíuleikhúsið

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri og Elfar Logi Hannesson í Bolungavík.

Bolungarvíkurkaupstaður hefur gert samning við Elfar Loga Hannesson, leikara og stofnanda Kómedíuleikhússins, fyrir árið 2025. Samstarfið felur í sér fjölbreytta skemmtun fyrir íbúa á öllum aldri.

Á árinu mun Elfar Logi standa fyrir eftirfarandi viðburðum:

  • Leiksýning/framkoma í Grunnskóla Bolungarvíkur
  • Leiksýning/framkoma fyrir börnin í Leikskólanum Glaðheima
  • Leiksýning/framkoma fyrir eldri borgara
  • Framkoma á hátíðarhöldum Sjómannadagsins í Bolungarvík

Að auki mun Elfar Logi hafa samband við jólasveinana, til þess að fá þá til byggða fyrsta sunnudag í aðventu, sem hefur orðið fastur og vinsæll liður í aðventuhátíð bæjarins.

Í tilkynningu segir að Bolungarvíkurkaupstaður hlakki til samstarfsins sem muni auðga menningarlíf bæjarins enn frekar.

Auglýsing

CCU samtökin í Neista á Ísafirði í dag

Í dag kl 15:00 mun CCU samtökin verða með vitundarvakningar viðburð í Neista. CCU samtökin eru fyrir fólk með bólgusjúkdóma í meltingarfærum, Cronh’s og Colitis Ulcerosa (sáraristilbólga). Það koma félagar úr stjórn samtakanna að sunnan og munu ásamt félögum hér fyrir vestan afhenda gestum og gangandi poka sem inniheldur glaðning ásamt fræðslu um sjúkdómana og samtökin. 

Sigríður Júlía bæjarstjóri mun mæta og taka við poka ca kl 15.15 – 15.30!

Þekking útrýmir fordómum og maí er alþjóðlegur vitundarvakningar mánuður sem nær hámarki 19. maí. Samtökin á Íslandi eiga 30 ára afmæli í ár og fara því út á landsbyggðina með þennan viðburð (Akureyri og nú Ísafjörð) en voru í Smáralind fyrir ári síðan.

Heimasíða samtakanna er ccu.is fyrir fleiri upplýsingar.

Auglýsing

Bikarkeppnin: Vestri lagði Breiðablik

Boltinn liggur í neti marks Breiðabliks og Vestri hefur skorað seinna mark sitt.

Vestri gerði sér lítið fyrir og sendi Íslandsmeistara Breiðablik út úr bikarkeppni KSÍ í knattspyrnu í 16 liða úrslitum sem lauk í gær. Leikið var í Kópavoginum á heimavelli Breiðabliks. Vestri komst yfir í fyrri hálfleik og leiddi í hálfleik. Snemma í síðari hálfleik jafnaði Breiðablik en fáum mínútum síðar átti Vestri snögga sókn upp hægri vænginn og Arnar Borg Guðjohnsen sendi góða sendi fyrir markið á Daða Berg Jónsson sem skoraði örugglega og kom Vestra aftur yfir.

Þegar komið var fram í uppbótartíma átti Breiðablik stórhættulegt færi en markvörður Vestra Benjamin Schubert varði hörkuskalla frá markteig.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og heldur því Vestri áfram í 8 liða úrslit keppninnar en Breiðablik er úr leik.

Auglýsing

Móttaka íbúa af erlendum uppruna á Vestfjörðum

Það er ekki bara hitastigið sem er á uppleið þessa dagana  á Vestfjörðum heldur hefur íbúatalan risið einnig. Við teljum rétt um 7600 íbúa en árið 2014 vorum við um 6900. Atvinnulíf blómstrar, samgöngur batna og  samfélögin sveiflast með. Það er gömul saga og ný.

Við búum í fjölmenningarsamfélagi og hlutfall íbúa af erlendum uppruna er um fjórðungur af heildaríbúatölu. Þessa þróun þekkja Vestfirðingar vel enda hefur það verið staðreynd frá aldamótum.

Samfélagsþáttaka

Hvernig stöndum við okkur í inngildingu íbúa af erlendum uppruna? Ef maður lítur yfir sveitastjórnir eða nefndir og ráð hjá sveitarfélögunum þá endurspeglar sú staðreynd ekki að íbúar af erlendum uppruna eru 24% af íbúum fjórðungsins. Hvernig er með félagssamtök, þorrablót og kóra?

Við þekkjum öll hvað björgunarsveitir skipta miklu máli í okkar samfélagi. Endurspegla björgunarsveitir þessa íbúasamsetningu?

Þátttaka allra hópa í samfélögum er mjög mikilvæg. Hún stuðlar að jafnvægi, réttlæti og virkri þátttöku í ákvarðanatöku. Með því að allir hópar taki þátt er líklegt að samfélagið verði samfélag þar sem ólík sjónarmið og þörf eru virt, og þar með aukist réttlæti, samvinna og framfarir. Samfélagsleg þátttaka er grundvallarþáttur í lýðræði og samfélagslegri ábyrgð. Hérna eru sveitarfélögin lykillinn.

Samræmd móttaka og inngilding

Fjórðungssamband Vestfjarða fékk styrk í verkefni úr byggðaáætlun með vísan í aðgerð C.1 Sértæk verkefni sóknaráætlanasvæða. Vestfjarðastofa ber ábyrgð á verkefninu og markmiðið er að vinna að því að þróa samræmda móttökuferla fyrir öll sveitarfélögin á Vestfjörðum til að veita nýjum íbúum betri yfirsýn yfir þjónustu, félagsstarf, menningu og samfélögin sem þau eru að flytja til.

Þetta er í samræmi við gildandi framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem samþykkt var á Alþingi árið 2022.

Það er mikilvægt að við hugum að því að nýta allan þann mannauð sem býr hér á Vestfjörðum. Þannig höldum við áfram að vaxa og dafna til framtíðar.

Halla Signý Kristjánsdóttir

Verkefnastjóri

Auglýsing

Saltkassi úr tré

Saltkassi úr tré. Merktur Djúpavík með stensli. Kassarnir voru notaðir til að mæla gróft salt og áttu að taka stærsta skammt, 34 kíló,
sléttfullir (Magnús Vagnsson. Handbók síldarvekunarmanna, bls. 16).

Í Djúpuvík var byggð síldarverksmiðja veturinn 1934-35 og var rekstur hennar, sem og söltunarstöðvar undir nafninu Djúpavík h/f eitt kostulegasta dæmi um stórbrotin umsvif og velgengni í síldarútveginum.

Svoítið þorp varð til við Djúpuvík og fjöldi fólks sótti þangað atvinnu á sumrin. Lítið sem ekkert var brætt í verksmiðjunni eftir 1950 en síðast var söltuð þar síld árið 1959.

Af vefsíðunni sarpur.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir