Mánudagur 19. maí 2025
Heim Blogg Síða 2

Atvinnufrelsi !

Ég hef nú mælt fyrir mikilvægu frumvarpi á Alþingi um veiðistjórn á grásleppu sem færir veiðistjórnina í fyrra horf með dagakerfi sem tryggir sjómönnum aftur rétt sinn til veiða og afnemur þau ólög sem sett voru á 2024 með kvótasetningu og framsal.

Frumkvæðismá atvinnuveganefndar.

Meirihluti atvinnuveganefndar flytur þetta frumkvæðismál en annar meirihluti atvinnuveganefndar í fyrra vor flutti einnig það lagafrumvarp sem nú eru í gildi og hefur svipt fjölda sjómanna atvinnurétti sínum til grásleppuveiða og gert fjárfestingar þeirra verðlausar í kjölfarið sem er í raun eignaupptaka fyrir fjölmargar minni útgerðir og fjölskyldufyrirtæki. Núverandi lög  þjóna hvorki hagsmunum atvinnugreinarinnar né nytjastofnum og þar með ekki hagsmunum sjávarbyggðanna né almennings.

Veiðistýring með dögum tekin upp aftur.

Með frumvarpinu verði aftur tekin upp veiðistýring með útgáfu leyfa og fjölda veiðidaga  sem tekur mið af leyfilegum heildarafla ,þátttöku í veiðunum og þróun veiða á fyrstu vikum vertíðar. Frumvarpið hefur það markmið að tryggja aftur þeim sjómönnum rétt til veiða sem stundað hafa þessar veiðar um árabil og einnig nýliðum sem hafa verið að fjárfesta í greininni og fengu enga eða það litla úthlutun kvóta með núverandi lögum að þeir eiga enga möguleika á að stunda veiðar að óbreyttu.

Stærðarmörk báta.

Veiðarnar myndu með þessu laga frumvarpi takmarkast við ákveðna stærð báta sem tryggir tilveru smærri útgerða og hinna dreifðu sjávarbyggða.  Í núverandi ólögum eru engin stærðarmörk á bátum sem þýðir áframhaldandi samþjöppun í sjávarútvegi í þágu stórútgerða og kvótaeigenda með því framsali sem sett var á og er strax farið að sýna á sér klærnar.

Ef ekkert verður að gert má reikna með að grásleppuréttindi færist yfir á stór skip og farið er að ræða um veiðar á grásleppu í botnvörpu á úthafinu sem er algjörlega á skjön við aðvaranir hins þekkta vísindamanns Davids Attenborough gegn botnvörpuveiðum sem fara illa með lífríki sjávar og hvetur hann til eflingar umhverfisvænna veiða smábáta með umhverfisvæn veiðarfæri eins og netaveiðar og krókaveiðar eru við strendur landsins.

Veiðiráðgjöf Hafró áhyggjuefni.

Það er áhyggjuefni hve Hafró hefur í raun litlar rannsóknir til að byggja á varðandi veiði ráðgjöf um stofnstærð grásleppunnar og eingöngu sé byggt á togararalli en ekki á sama hátt og aðrar uppsjávartegundir.  Mikilvægt er að taka fleiri þætti inn í rannsóknir svo byggja megi á traustri ráðgjöf.

Ég treysti því að með því að færa veiðistjórnina í fyrra horf og lagfæra það sem þarf til hagsbóta fyrir greinina séum við að treysta smábátaútgerð og atvinnu í landsbyggðunum með samspili grásleppu og strandveiða.

Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður Flokks fólksins.

Auglýsing

Tveir leikir í fótboltanum í dag

Tveir leikir fara fram í meistaraflokki hjá Vestra og Herði á í dag.

Vestri mætir Dalvík/Reyni í 2. deild kvenna kl 14:00 á Kerecisvellinum. Þetta er fyrsti heimaleikur stelpnanna í sumar en þær lögðu Smára að velli, 1-0, á síðustu helgi.

Strákarnir í Herði mæta Knattspyrnufélaginu Miðbæ (KM) í Kórnum í Kópavogi kl 14:00 en það er fyrsti leikur beggja liða í A-riðli 5. deildarinnar í sumar.

Auglýsing

Logi heimsækir Vestfirði

Logi Einarsson, menningar,- nýsköpunar og háskólaráðherra, mun á kjörtímabilinu reglulega heimsækja sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins. Með þessu vill ráðherra styrkja beint samtal við íbúa, fyrirtæki, stofnanir og sveitarstjórnarfólk um allt land og um leið tryggja að sjónarmið fólks víðs vegar að fái að heyrast beint inn í stefnumótun ráðuneytisins.

Fyrsta heimsóknin verður á Ísafjörð 21. maí nk. og í haust verður haldið áfram með ferðir í fleiri landshluta. Fundadagskrá næsta vetrar verður auglýst sérstaklega í september.

Í hverri heimsókn verða opnir viðtalstímar þar sem almenningi gefst tækifæri til að ræða við ráðherra um málefni sem heyra undir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið. Þá mun ráðherra einnig heimsækja fyrirtæki og stofnanir á svæðinu og funda með kjörnum fulltrúum.

Auglýsing

Unnur Valborg nýr stjórnarformaður OV

Á ársfundi Orkubús Vestfjarða í dag var tilkynnt um nýja stjórn Orkubúsins. Unnur Valborg Hilmarsdóttir Hvammstanga er nýr stjórnarformaður. Aðrir í stjórn eru Ástvaldur Jóhannsson, Seltjarnarnesi, Sigríður Kristjánsdóttir, Ísafirði, Þröstur Söring Hafnarfirði og Viktoría Rán Ólafsdóttir, Hólmavík.

Í varastjórn eru Magnús Björnsson, Reykjavík, Vaka Óttarsdóttir, Akureyri, Eiríkur Valdimarsson, Hólmavík, Kjartan Már Kjartansson, Keflavík og Erla Jónsdóttir, Blönduósi.

Það er fjármálaráðherra sem skipar stjórnina enda OV að fullu í eigu ríkisins.

Auglýsing

Enginn frá Túrkimenistan, Kómoreyjum, Dóminiku og Belís skráður með búsetu hér á landi

Alls voru 81.277 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. maí sl. og fjölgaði þeim um 731 einstaklinga frá 1. desember 2024 eða um 0,9%. Þetta kemur fram í tölum frá Þjóðskrá

Ríkisborgurum frá Úkraínu og Palestínu heldur áfram að fjölga. Úkraínskum ríkisborgurum fjölgaði um 153 eða 3,2% og ríkisborgurum frá Palestínu fjölgaði um 31 eða 3,8% frá 1. desember sl. Pólskum ríkisborgurum fækkaði um 123 og eru nú 26.416 pólskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi.

Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 685 einstaklinga eða um 0,2%.

Hér á Íslandi er fólk frá flestum löndum heims þó er enginn frá Túrkimenistan, Kómoreyjum, Dóminiku og Belís.

Samtals eru ríkisborgarar frá 165 þjóðríkjum búsettir á Íslandi.

Auglýsing

Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlýtur Eyrarrósina 2025

Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins og voru verðlaunin afhent í nítjánda sinn í gær við hátíðlega athöfn í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Hr. Björn Skúlason maki forseta og verndari Eyrarrósarinnar veitti verðlaunin. Sköpunarmiðstöðin á Stöðvarfirði hlýtur verðlaunin að þessu sinni og skipar sér í hóp framúrskarandi verkefna sem hlotið hafa verðlaunin á síðustu 20 árum.

Una B. Sigurðardóttir, stjórnarmaður og fyrrum framkvæmdastjóri Sköpunarmiðstöðvarinnar tók á móti viðurkenningunni og verðlaunafé að fjárhæð 2,5 m.kr. Nýjum Eyrarrósarhafa er jafnframt boðið að standa að viðburði á Listahátíð 2026 og framleitt verður heimildamyndband um verkefnið.

Alls bárust 34 umsóknir um Eyrarrósina og hvatningarverðlaunin hvaðanæva af landinu.

Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar voru nú veitt í þriðja sinn. Viðurkenningin er veitt þremur metnaðarfullum verkefnum sem þykja hafa listrænan slagkraft, jákvæð áhrif á nærsamfélagið og alla burði til að festa sig í sessi. Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2025 hlutu Gletta á Borgarfirði Eystri, Afhverju Ekki á Laugum, Þingeyjarsveit og Tankarnir á Raufarhöfn. Hljóta þau hvert um sig verðlaunafé að fjárhæð 750.000 auk gjafakorts frá Icelandair að fjárhæð 100.000.

Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Icelandair.

Auglýsing

Evrópusambandið styrkir Háskólasetur Strandabyggð og Fine Foods til sjálfbærrar þararæktunar

Háskólasetur Vestfjarða (HV), Strandabyggð og Fine Foods Íslandica ehf á Hólmavík hafa hlotið styrk frá Evrópusambandinu sem nemur 70 þúsund evrum eða rúmum 10.3 milljónir krónum til að styðja við framkvæmd IceKelp verkefnisins á tímabilinu 2024-2026.

Markmiðið er að hanna líkan fyrir sjálfbæra þararækt og blátt hagkerfi í dreifbýli.

IceKelp verkefnið er hluti af mun stærra verkefni Atlantic-Arctic AGORA sem styður við markmið framkvæmdarstjórnar Evrópu um verndum og uppbyggingu haf- og vatnasvæða fyrir árið 2030 og er þar heildar fjárhæðin rúmur 1.4 milljarður íslenskra króna.

Þar er markmiðið hjá A-AAGORA að þróa nýstárlegar lausnir til að virkja bláa hagkerfið í sjávarbyggðum. Í ferlinu er lögð áhersla á þátttöku nærsamfélagsins og hagsmunaaðila á sama tíma og tryggja þarf umhverfisvernd og stuðla að félagslegri seiglu.

Helstu samstarfsaðilar A-AAGORA eru sveitarfélög í Noregi, Írlandi, Portúgal og á Íslandi tekur Strandabyggð þátt, eins og fyrr segir. Allir þessir aðilar eru í samstarfi við rannsóknarhópa og sérstaklega Trøms-sveitarfélagið í Noregi, sem prófar og metur lausnir fyrir sveitarfélög á Norður-Íshafssvæðinu.

Verkefnaáætlunin var kynnt af Fine Foods Íslandica ehf fyrir sveitarstjórn Strandabyggðar í nóvember 2024 sem samþykkti að styðja við verkefnið. Meðal markmiða verkefnisins eru:

  • Að eiga samskipti við hagsmunaaðila á staðnum með upplýsingafundum og opnum vinnustofum um þararækt.
  • Að miðla fræðslu og þekkingu varðandi þararækt í Strandabyggð.
  • Að stunda rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika í tengslum við þararæktun.
Auglýsing

Veiðigjaldið: fjögur stærstu fyrirtækin á Vestfjörðum greiddu 605 m.kr. í fyrra

HG í Hnífsdal.

Samkvæmt upplýsingum á vef Fiskistofu greiddu fjögur stærstu útgerðarfyrirtækin á Vestfjörðum samtals 605 m.kr. í veiðigjald í fyrra.

HG í Hnífsdal greiddi mest eða 293 m.kr. Jakob Valgeir ehf í Bolungavík 191 m.kr., Oddi hf á Patreksfirði 73 m.kr. og Norðureyri ehf á Suðureyri greiddi 48 m.kr.

Í aðsendri grein Örnu Láru Jónsdóttur, alþm. á Bæjarins besta frá 13. maí sl. segir að þessi félög hafi greitt „442.884.990 krónur í veiðigjöld árið 2024 en samkvæmt nýju frumvarpi þar sem búið er að leiðrétta veiðigjöldin verða þau 678.035.169 krónur, og er þetta því hækkun um 235.150.169, eða 53%“.

Þarna munar nokkur um greidd veiðigjöld ársins 2024. Samkvæmt upplýsingum Fiskistofu er fjárhæðin 605 m.kr. en Arna Lára segir þau hafi greitt 443 m.kr.

Auglýsing

Edinborg: sýningin Tilfinningaleg staðartengsl – Söfn fólks á Vestfjörðum

Velkomin á opnun sýningarinnar „Tilfinningaleg staðartengsl – Söfn fólks á Vestfjörðum“ kl. 15:00 sunnudaginn 18. maí í Bryggjusal.

Sýningin stendur frá 18. maí til 7. júní, 2025


Opnunartímar eftir opnun: Mánudaga til fimmtudaga 15:00-17:30 – listamaðurinn er viðstaddur og tekur á móti gestum.

Hvernig tvinnast hversdagurinn og landslagið saman í sameiginlega sögu? Hvaða tilfinningar eru bundnar stöðum og hvernig eru þær skrásettar í hversdagslegum ljósmyndun almennings?

Þetta er meðal spurninga sem danski listamaðurinn og rannsakandinn Peter Kærgaard Andersen spyr sig í vettvangsrannsókn sinni á Vestfjörðum. Í tengslum við rannsóknina setur hann upp sýninguna „Tilfinningaleg staðartengsl“ og er hún hluti af nýdoktorsrannsókn hans í alþjóðlega verkefninu Hversdagssögur (e. Everyday Histories) sem er unnið við mannfræðideild Árósaháskóla í Danmörku. Í verkefninu er kannað hvernig hversdagslegar minningar eru samtvinnaðar landslaginu og hvernig þær eru tjáðar í gegnum ljósmyndir úr einkasöfnum. Auk þess fjallar verkefnið um það hvernig unnt er að varðveita slíkar óopinberar sögur og hvernig hægt er að endursegja þær og miðla.

„Hér í Edinborgarhúsinu er ég að setja upp lifandi sýningu sem vonandi vex á sýningartímanum. Sýningin er samansafn af efni úr einkasöfnum sem hafa verið gefin til varðveislu á söfnin hér á svæðinu. Ég vonast til að eiga samtal við gesti sýningarinnar um þessar ljósmyndir og hluti sem hér verður að finna, og sjá hvort það veki tilfinningatengsl við landslagið. Ef fólk býr yfir myndum sem það tengir mikilvægum minningum eða sögum úr hverdagslífinu væri mjög gaman að fá fólk í heimsókn hingað til að deila því. Það væri því einstaklega gaman að heyra frá fólki sem hefur áhuga á að deila ljósmyndum og sögum þeim tengdum,“ segir Peter og bætir því við að hann bjóðist einnig til að færa fjölskyldualbúm fólks yfir á stafrænt form og myndir þátttakenda yrðu hluti af varðveittu safni.

Sýningin opnar sunnudaginn 18. maí í Bryggjusal og stendur til 7. júní. Peter verður á staðnum mánudaga til fimmtudags allan tímann frá kl. 15:00 til 17:30.

Sýningin er hluti af vettvangsrannsókn og skapar því einnig rými til að velta fyrir sér sögum, lífi og hversdegi og hvernig megi miðla þessu áfram.

Verkefnið er tilkomið í samstarfi við Byggðasafn Vestfjarða og Safnahúsið á Ísafirði með aðstoð frá Háskólasetri Vestfjarða. Stefnt er að því að setja sýninguna upp í Moesgaard safninu í Danmörku í kjölfarið.

Auglýsing

Ísafjarðarbær í Bestu deild

Gylfi Ólafsson og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir.

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2024, sem samþykktur var í bæjarstjórn 15. maí, er sá besti í áraraðir.

Metnaðarfull markmið hafa öll náðst með bravúr

Í upphafi kjörtímabilsins setti bæjarstjórn sér skýr og metnaðarfull markmið um að taka til í rekstrinum, borga niður skuldir og endurskipuleggja í rekstrinum en halda áfram fjárfestingum. 

Skemmst er frá því að segja að í fyrra náðust nær öll markmið. Veltufé frá rekstri, skuldahlutfall, skuldaviðmið, þriggja ára rekstrarafgangur, handbært fé og allt annað er yfir markmiðum og sum mjög hressilega.

Rekstrarafgangur A- og B-hluta var um 1.174 m.kr. en ef A-hlutinn er tekinn sér var afgangurinn 487 m.kr. Fyrir hvert mannsbarn í sveitarfélaginu er þetta um 300 þ.kr. afgangur. 

Þau tvö markmið sem ekki náðust eru smávægileg. Hjúkrunarheimilið Eyri kostar bæinn enn meira en tekjur og Byggðasafn Vestfjarða fær meðgjöf til að standa undir safnhluta rekstrarins en sýningarhald í Neðstakaupstað skilar vissulega tekjum á móti.

Skuldaniðurgreiðslur og skattalækkanir

Skuldahlutfall lækkar. Fyrir A-hluta var hlutfallið um áramótin síðustu 109% en stefnir í að fara undir 100% í lok þessa árs. Þegar B-hlutinn er tekinn með er hlutfallið hærra, sem skýrist að stærstu leyti af skuldum af hjúkrunarheimilinu Eyri og Fasteignum Ísafjarðarbæjar. Það á að taka á þessu. Við erum langt komin með að selja Eyri og Fasteignir Ísafjarðarbæjar, sem hafa lengi verið of umfangsmiklar í rekstri á íbúðarhúsnæði, seldu eignir fyrir 174 m.kr. í fyrra. Áfram eru félagsleg sjónarmið hátt á lofti til að tryggja aðgengi að húsnæði fyrir þá sem mest þurfa á að halda. 

Á sama tíma hafa skattar verið lækkaðir. Í öruggum skrefum hefur álagningarhlutfall fasteignagjalda verið lækkað, og er nú komið í 0,5% í ár. Einnig var gjaldskrá fyrir vatn og fráveitu endurskoðuð í réttlætisátt og heildargjöld lækkuð. 

Markmiðssetningin hjálpar til við að sýna festu þegar vel gengur. Það má ekki slaka á. Skuldir þurfa helst að lækka enn frekar svo hægt sé að taka áföllum eins og gerðist á covid-árunum. Lægri skuldir lækka afborganir af lánum, en fjármagnsgjöld voru um 100 þúsund á hvern íbúa í fyrra.

Höfnin skilar miklu 

Afgangurinn af rekstri hafna Ísafjarðarbæjar var 474 m.kr. Það eru 125 þúsund á hvert mannsbarn í sveitarfélaginu. Vissulega eru hafnirnar í B-hluta, sem þýðir að afgangurinn nýtist ekki til að niðurgreiða skólastarf eða önnur kjarnaverkefni sveitarfélagsins. Það er hinsvegar alveg ljóst að sterk höfn styður samfélagið mikið, getur staðið undir fjárfestingum og endurspeglar þann ábata sem móttaka skemmtiferðaskipa hefur fyrir bæjarfélagið. Styrktarsjóður hafnanna hefur einnig stækkað og styður með myndarlegum hætti við Aldrei fór ég suður og fjöldamörg önnur samfélagsverkefni. 

Hvernig gerðist þetta?

Afgangur af rekstri og lækkun skuldahlutfalls endurspegla ábyrga fjármálastjórn og samstillt átak starfsfólks og bæjarstjórnar. Á síðasta ári var framkvæmt og fjárfest fyrir tæpan milljarð. Umfangsmestu fjárfestingarnar voru gatnagerð, hafnarframkvæmdir, umbætur í fráveitu og vatnsveitu og í snjóflóðavörnum á Flateyri. Þá hafa verið gerðar breytingar á rekstri málefna fatlaðra og ýmsum öðrum velferðarmálum, sem hafa orðið til mikils sparnaðar með sömu eða betri þjónustu. 

En styrk fjármálastjórn er ein og sér ekki ástæða góðs árangurs. Aðstæður í ytra umhverfi eru okkur hagfelld. Fasteignaverð hækkar, það er gott gengi í rekstri fyrirtækja og aukin umsvif í ferðaþjónustu. Það er efnahagsævintýri hér fyrir vestan.

Markmið og lykiltölur úr ársreikningum síðustu ára. Allar fjárhæðir eru í milljónum króna. 

Uppbygging heldur áfram

Rekstur sveitarfélags snýr að stærstum hluta að því að uppfylla lagalegar skyldur eins og að reka skóla, sinna gatnakerfinu og—haltu í hattinn—halda húsum myglulausum. Þar erum við í innviðaskuld. Við höfum verið að stíga stór skref í fráveitumálum, fyrst í minni byggðakjörnunum og einnig nú í Skutulsfirði. Þá fara fram endurbætur á skólahúsnæði jafnt og þétt. Bygging slökkvistöðvar er stórt verkefni sem er að hefjast. Einnig er gatnagerð á Suðurtanga og vinna við ný deiliskipulög í gangi.

Það er nauðsynlegt að sýna áfram aðgæslu í rekstri sveitarfélagsins en við horfum bjartsýn fram á veginn með metnað fyrir þjónustu og uppbyggingu. 

Ísafjarðarbær í Bestu deild

Ársreikningurinn er aðgengilegur á vef bæjarins, en við vekjum sérstaka athygli á ársskýrslu sem fylgir, en þar er umfangsmiklum rekstri bæjarins lýst á aðgengilegan hátt. 

Í fyrra lauk stórum áföngum í uppbyggingu fótboltamannvirkja á Torfnesi og var nýr völlur vígður á vormánuðum. Mikið af þeirri uppbyggingu var unnið í sjálfboðavinnu og með stuðningi atvinnulífsins, en kjölfestan í framkvæmdunum var peningur úr sjóðum bæjarins. Karlalið Vestra sýndi að það var ekki til einskis: þeir héldu sér uppi í Bestu deildinni og eru nú í toppbaráttu annað árið sitt í deildinni. 

Ársreikningur Ísafjarðarbæjar kemur sveitarfélaginu líka í Bestu deildina.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, bæjarstjóri

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs

Auglýsing

Nýjustu fréttir