Miðvikudagur 21. maí 2025
Heim Blogg Síða 3

Laxeldi verði meira en í Færeyjum

Daníel Jakobsson á málstofunni í Súðavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á opnu málþingi Vestfjarðastofu um frumkvæði og fjárfestingar á Vestfjörðum sem haldið var í Súðavík í síðustu viku sagði Daníel Jakobsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Arctic Fish að þegar til framtíðar væri litið teldi hann að laxeldi á Íslandi yrði meira en í Færeyjum, en það var árið 2023 um 90 þúsund tonn. Á Vestfjörðum er möguleiki á um 80 þúsund tonna framleiðslu. Miklir vaxtamöguleikar væri í eldinu í fjórðungnum og hann sagðist vera sannfærður um að Arnarlax og Arctic Fish yrðu innan þriggja ára meira en 100 milljarða krónu virði.

Daníel benti á sem dæmi um áhrifin af laxeldinu að fjöldi starfsmanna Hampiðjunnar á Ísafirði hefði aukist úr 4 í 30 á skömmum tíma. Hann hvatti til þess að nýtt yrðu tækifærin sem felast í þjónustu við eldi og nefndi sem dæmi að það kostaði eldisfyrirtækin um 50 m.kr. á mánuði að leigja einn stóran brunnbát. Á brunnbátum og þjónustubátum á Vestfjörðum ynnu um 60 manns og útsvarstekjur væru um 5 m.kr. á mánuði.

Uppfært kl 16:32. Og áréttað að Daníel telur laxeldi á Íslandi verði meira en í Færeyjum, en stærstur hluti þess er á Vestfjörðum.

Auglýsing

Fljótagöng: rannsóknarholur í útboð

Vegagerðin auglýsti á föstudaginn útboð á rannsóknarborunum vegna Fljótaganga.

Verkið felst í borun á kjarnaholum á mögulegri jarðgangaleið Fljótaganga, milli Fljóta og Siglufjarðar á Tröllaskaga.

Áætlaður fjöldi er 3 kjarnaholur í áætlaðri veglínu ganga til þess að safna 45-55 mm borsýnum. Fyrirhugað er að bora eina holu í Fljótum og tvær í Hólsdal í Siglufirði.

Verkinu skal lokið eigi síðar en 1. október 2025.

Fljótagöng eru 5,2 km löng göng milli Siglufjarðar og Fljóta í Skagafirði og áætlaður kostnaður er liðlega 20 milljarðar króna. Siglufjörður er tengdur með Héðinsfjarðargöngum við Ólafsfjörð og þaðan með Múlagöngum í Eyjafjörð. Úr Fljótunum er láglendisvegur í Skagafjörð. Um 90 manns búa í Fljótunum. Með göngunum styttist leiðin milli Fljóta og Siglufjarðar um 10 km. Um áhrifin af göngunum segir í skýrslu Vegagerðarinnar að þau séu jákvæð á vetrarferðaþjónustu og komi á láglendishringtengingu á Tröllaskaga.

Vegagerðin setti Fljótagöng nr 2 í forgangsröð 10 jarðganga á áætlun sinni frá 2023, sem síðar var lögð fram á Alþingi sem tillaga þáverandi ríkisstjórnar, en hlaut ekki afgreiðslu.

Núverandi ríkisstjórn hefur boðað nýja tillögu að samgönguáætlun og þar með jarðgangaáætlun í haust. Auglýsing Vegagerðarinnar bendir til þess að Fljótagöng séu áfram í forgangi.

Auglýsing

Ferðafélag Ísfirðinga – gönguferð um Holtahverfi og nágrenni

Söguferð um Holtahverfi og nágrenni  — 1 skór —
Bæjarganga um úthverfi Ísafjarðar
Laugardaginn 24. maí

Fararstjórn: Ragnar Kristinsson (Raggi í Laufási).
Mæting kl. 10.00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið um Tunguhverfi, Holtahverfi og áleiðis inn Engidal. Sagt frá svæðinu eins og það var áður en þar reis þéttbýli og hvernig það tók að myndast.
Raggi er einn af frumbyggjum svæðisins og kann gnótt af sögum af fólkinu og landinu.
Göngutími: 2-3 klst.

Auglýsing

Sett verði upp fuglafæla á Suðureyri

Í minnisblaði verkefnastjóra á umhverfis- og eignasviði sem lagt var fyrir umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar kemur fram að kríuvörp í sveitarfélaginu eru sumum íbúum til ama, sérstaklega þar sem þau eru í og við byggð.

Á það fyrst og fremst við Tunguhverfi og byggðina innst á Suðureyri segir í minnisblaðinu.

„Sumarið 2023 var keypt kríufæla sem er staðsett í varpinu í Tunguhverfi. Fyrsta sumarið gekk erfiðlega að halda henni í gangi þar sem fælan var ítrekað tekin úr sambandi. Gerðar voru ráðstafanir til að hindra að fælan væri tekin úr sambandi og gekk rekstur hennar mun betur í fyrra. Erfitt er að meta árangur af fælunni. Íbúar í Tunguhverfi sögðu þó að minna hafi verið um kríu í fyrra en árið áður en aðrir þættir en fælan geta haft áhrif á það.“


Borist hefur ósk frá íbúum á Suðureyri að sambærileg fæla verði sett upp við neðanvert Sætún.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd leggur til að sett verði upp fuglafæla á Suðureyri, sambærileg þeirri sem er í Tunguhverfi.

Málið fer nú til bæjarstjórnar til afgreiðslu.

Auglýsing

OV: brenndi 3,6 milljónir lítra af olíu

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri rekur sögu orkukaupasamninga við Landsvirkjun vegna rafkyntra hitaveitna í ársskýrslu Orkubúsins fyrir 2024.

Orkubúið hefur um áratugaskeiðverið með orkukaupasamninga vegna rafkyntra hitaveitna sem byggst hafa á því að fá hagstætt orkuverð gegn því að orkusalinn, Landsvirkjun, hefði heimild til skerðingar á afhendingu raforku ef staða í uppistöðulónum væri lág. Undanfarna áratugi hefur sjaldan reynt á þessa heimild.
Slík staða kom þó upp árið 2014, þegar veruleg skerðing átti sér stað. Nær í tíma er talsverð skerðing árið 2022 og svo aftur á árinu 2024. Vegna skerðingarinnar þurfti að grípa til olíukatla til að kynda hitaveiturnar og var 3,6 milljónum lítra af olíu brennt á árinu vegna þessa. Til samanburðar var olíubrennslan 2,2 milljónir lítra vegna skerðingarinnar 2022. Nettó útgjöld OV urðu alls 680 m.kr. meiri en ella hefði orðið, þessi tvö ár.

„Í september 2024 var undirritaður nýr samningur við Landsvirkjun sem gjörbreytir þessari áhættu. Í nýjum samningi er skerðingarheimildin einungis 100 klst. í stað 120 sólarhringa. Ófyrirséð áföll líkt og 2022 og 2024 með tilheyrandi umhverfisáhrifum vegna olíubrennslu eru því að mestu úr sögunni. Á móti kemur að Orkubúið þarf að greiða hærra verð fyrir orkuna. Samningurinn er tímabundinn til 4 ára. Orkubúið hefur sett sér það markmið að á þeim tíma fáist niðurstaða í framtíðar rekstrarform rafkyntra hitaveitna á Ísafirði, í Bolungarvík, á Flateyri og á Patreksfirði.“

Elías segir að stór áfangi hafi náðist í fyrra þegar heitt vatn fannst loksins í Tungudal á Ísafirði og markaði sá fundur mikil kaflaskil í 60 ára jarðhitaleit Orkubúsins á svæðinu.

Fram kemur í ársskýrslunni að ekki hafi náðist að ljúka rannsóknarborunum vegna jarðhita á Patreksfirði og á Ísafirði á síðasta ári og verður borunum haldið áfram í vor og í sumar. Í vetur hefur verið unnið að forhönnun vegna nýtingar jarðhita á Ísafirði með notkun varmadælna.
Reiknað er með að það muni gerast í tveimur áföngum, fyrsti áfangi snýr að tengingu íbúabyggðarinnar í firðinum, en annar áfangi er svo tenging við byggðina utar í firðinum og á eyrinni.

Auglýsing

KPMG: hækkun veiðigjalda 377 m.kr. á Vestfjörðum

Glæra úr greiningu KPMG.

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga fékk KPMG til þess að gera greiningu á fyrirhugaðri hækkun veiðigjalda sundurliðað eftir sveitarfélögum. KPMG segir að greiningin byggi á opinberum gögnum úr frumvarpinu, frá Fiskistofu og Hagstofu Íslands og að ekki hafi verið framkvæmd sérstök könnun á áreiðanleika þeirra gagna sem byggt er á, en miðað er við að um traustar heimildir sé að ræða.

Niðurstaða KPMG er að vænt hækkun veiðigjalda m.t.t. frítekjumarka er um 7,9 ma.kr. Um 90% af hækkuninni falli á fyrirtæki með heimilisfesti í 8 sveitarfélögum.

Alls munu 141 fyrirtæki verða fyrir verulegum áhrifum af hækkun veiðigjalda.
Veruleg hækkun er skilgreind þannig að hækkun veiðigjalda vegi 80% eða meira af meðalhagnaði félaganna 2020-2023.

1,5 milljarður kr. í Vestmannaeyjum

Nærri einn og hálfur milljarður króna af hækkuninni fellur á fyrirtæki sem skráð eru í Vestmannaeyjum. Svipuð fjárhæð kemur frá Fjarðabyggð, 1.262 m.kr. af hækkuninni leggst á fyrirtæki í Reykjavík og 986 m.kr. á Akureyri. Nokkur fyrirtæki eru með starfsstöðvar í fleiri sveitarfélögum en öllu hækkunin er þá færð á skráningarsveitarfélagið. Þetta á einkum við um Vestmannaeyjar, Akureyri og Reykjavík.

377 m.kr. á Vestfjörðum

Af hækkuninni sem er 7,9 milljarðar króna leggst 377 m.kr. á fyrirtæki á Vestfjörðum skv. greiningu KPMG. Nær öll upphæðin er á fyrirtæki í Ísafjarðarbæ, Bolungavík og Vesturbyggð.

Ísafjarðarbær 202,8 m.kr. og hækkar hjá 11 fyrirtækjum

Vesturbyggð 67,0 m.kr. og 15 fyrirtæki verða fyrir hækkun

Bolungavík 100,3 m.kr. og 6 fyrirtæki fá hækkun

Drangsnes 1,1 m.kr.

Súðavík 3,7 m.kr.

Strandabyggð 1,0 m.kr.

Árneshreppur 0,9 m.kr.

Reykhólahreppur 0 m.kr.

Ekki kemur fram í greiningunni hve veiðigjöldin voru há á síðasta ári.

Auglýsing

Umfangsmikil æfing á Ísafjarðardjúpi

Umfangsmikil fjöldabjörgunaræfing fór fram á Ísafjarðardjúpi í dag. Landhelgisgæsla Íslands stóð að æfingunni í samvinnu við almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, lögregluna á Vestfjörðum, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauða krossinn, Neyðarlínuna, slökkviliðin á Vestfjörðum og aðra viðbragðsaðila.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni egir að afar mikilvægt sé að æfa með reglubundnum hætti þær krefjandi aðstæður sem upp kunna að koma og samhæfa viðbrögð íslenskra viðbragðsaðila.

Varðskipið Þór var í hlutverki farþegaskips á æfingunni í dag og kom það í  hlut þeirra viðbragðsaðila sem tóku þátt í æfingunni að vinna saman að því að koma farþegum frá borði og samræma aðgerðir.

Á undanförnum mánuðum hefur Landhelgisgæslan unnið að viðbragðsáætlun vegna fjöldabjörgunar á hafinu en henni er ætlað að ná yfir hópslys sem verða á leitar- og björgunarsvæði Íslands umhverfis landið. 

Landhelgisgæslan hefur það að markmiði að æfa viðbrögð sem þessi víða um land. Viðbrögð viðbragðsaðila og samvinna þeirra var til fyrirmyndar á æfingunni í dag sem heppnaðist sérlega vel.

Kobbi Láka á siglingu.

Þjörgunarþyrlan æfir hífingu.

Ljósmyndir: Halldór Sveinbjörnsson.

Auglýsing

Vísur úr Djúpi og víðar að II

Guðbrandur Baldursson frá Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi hefur tekið saman nokkrar vísur. Vonast hann til þess að slíkt megi verða til auðgunar íslensks máls og meðferðar í rituðu máli og einkum gamans aflestrar þeirra er leggja slíkt sér til.

Guðbrandur hefur þann formála að tilurð og „ástæður/vísna eru mismunandi eins og efni gefa til og oft er gott að rifja upp ástæður/aðstæður við birtingu, að mínu viti gefur það meiri sjarma og lyftingu svona eins og skrautborði í blómasal minninga og mannlegrar sögu.“

Hér kemur seinni hlutinn af vísnabréfi hans:

Ótal vísur á ég í gestabókum hér og þar og viðskilnaður oft með þeim hætti að niðurskrif voru með bágbornari hætti og verður því minnið að duga.

Hringhendur eru vísur mið innrími eða miðrími og eru nokkrar slíkar til.

Birtingarleyfi fær þessi :

Að vori einu hafði andinn lítt sótt mig heim um veturinn og varð þessi þá til.

Sólin getur sigrað hyl

sálartetur glæðist

af er vetur um það bil

ekkert letur frá mér læðist.

Birtingarleyfi fær þessi :

Stoltastur er ég þó af þessari sem hugsuð var til húsmæðra þessa lands og er hún tileinkuð þeim öllum. Þó einkum móður minnar Ólafíu Salvarsdóttur frá Reykjarfirði.

Ræktað hefur rætur garðs

úr rótum lífsins spunnið

Nýtur þessa nytjaarðs

nú sem til er unnið.

Birtingarleyfi fá þessar :

Þorvaldur Baldursson frá Vatnsfirði bróðir höfundar lést 4 janúar 2022 úr Covid sýkingu og er hann lá banalegu sína á Landsspítala er tók um 6 vikur tengdur öndunarvél komu þessar til mín skömmu fyrir andlát og náði hann því aldrei að lesa þessa brottfarargjöf. Áður birtar á samfélagsmiðli.

Biðin lamar hug og hönd

hægt þá tíminn líður

Kraftaverka bið um bönd

bærist andinn þíður.

Bróðir knár þú stríðin strjál

staðið hefur af þér

Hefur ætíð heimsins prjál

haldið burtu frá þér.

Sendum bænir bróður til

er berst nú fyrir lífi

Megi englar Guðs nú þekja þil

þrótt og styrk upp hífi.

Læt ég nú staðar numið í bili og legg ég þetta í þínar hendur. Gef ég þér leyfi til að koma með inngang og umorðun ef þurfa þykir ekki síst prófarkalestur. Meira er til í skríni mínu en það bíður betri tíma þetta er þó eitthvað til að vinna úr.

Auglýsing

OV : milljarður kr. í framkvæmdir

Halldór V. Magnússon, Elías Jónatansson, Sölvi R. Sólbergsson ásamt Elenu Dís Víðisdóttur á verkstað við borun TD-09. Mynd: O.V. ársskýrsla 2024.

Í ársskýrslu Orkubús Vestfjarða sem lögð var fram á ársfundi fyrirtækisins í gær kemur fram að lítilsháttar hagnaður varð af rekstrinum 43,6 m.kr. af 4.298 m.kr. tekjum.

EBITDA lækkaði hins vegar um 271 millj. kr. á milli ára en hreinn kostnaðarauki við olíubrennslu í
kjölfar skerðinga á árinu nam 480 millj. kr. Rekja má aukningu rekstrartekna annars vegar til aukinna umsvifa í samfélaginu og hins vegar til verðhækkana á gjaldskrám fyrirtækisins.
Launakostnaður félagsins hækkaði um 5% á milli ára, en að teknu tilliti til breytinga lífeyrisskuldbindinga og eignfærslu launa við framkvæmdaverkefni þá lækka laun samkvæmt
rekstrarreikningi um 4,4%. Stöðugildum fjölgaði um eitt frá fyrra ári.

Tekjur raforkusölu jukust um 10,3% á milli ára og námu 1.038 millj. kr., en tekjur af dreifingu voru 1.839 millj. kr. og hækkuðu um 12,9%. Þá jukust tekjur af sölu á heitu vatni um 11,4% og voru samtals 1.035 millj. kr. og aðrar tekjur voru 386 millj. kr.


Eignir Orkubúsins námu í lok árs kr. 14.943 millj. kr. en skuldir voru 3.932 millj. kr. þannig að eigið fé félagsins nam 11.011 millj. kr.

Framkvæmdir 1.069 m.kr.

Heildarfjárfesting ársins 2024 nam 1.069 millj. kr. og voru stærstu verkefnin á sviði virkjanarannsókna og jarðhitaleitar. Allt bendir til að fram undan séu enn stærri framkvæmdaár hjá Orkubúinu, hvort sem litið er til framkvæmda við virkjanir eða jarðhita.

Þá er rétt að taka fram að í desember var undirritaður samningur um tengingu kalkþörungaverksmiðju í Súðavík, sem jafnframt mun auka afhendingaröryggi raforku til annarra notenda í Súðavík og í Álftafirði til muna, enda hefur Súðavíkurlína verið einn veikasti hlekkurinn í dreifikerfi Orkubús Vestfjarða. Þar er um að ræða framkvæmd sem áætlað er að kosti talsvert á annan milljarð króna.

Auglýsing

Bíldudalsvegur: þungatakmörkunum aflétt

Bíldudalsvegur í Arnarfirði eftir óveður.

Þeim sérstöku ásþungatakmörkunum, sem hafa verið í gildi á Bíldudalsvegi (63) á milli Bíldudals flugvallar og Helluskarðs, var aflétt í gær föstudaginn 16. maí kl. 17:00.

Auglýsing

Nýjustu fréttir