Á opnu málþingi Vestfjarðastofu um frumkvæði og fjárfestingar á Vestfjörðum sem haldið var í Súðavík í síðustu viku sagði Daníel Jakobsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Arctic Fish að þegar til framtíðar væri litið teldi hann að laxeldi á Íslandi yrði meira en í Færeyjum, en það var árið 2023 um 90 þúsund tonn. Á Vestfjörðum er möguleiki á um 80 þúsund tonna framleiðslu. Miklir vaxtamöguleikar væri í eldinu í fjórðungnum og hann sagðist vera sannfærður um að Arnarlax og Arctic Fish yrðu innan þriggja ára meira en 100 milljarða krónu virði.
Daníel benti á sem dæmi um áhrifin af laxeldinu að fjöldi starfsmanna Hampiðjunnar á Ísafirði hefði aukist úr 4 í 30 á skömmum tíma. Hann hvatti til þess að nýtt yrðu tækifærin sem felast í þjónustu við eldi og nefndi sem dæmi að það kostaði eldisfyrirtækin um 50 m.kr. á mánuði að leigja einn stóran brunnbát. Á brunnbátum og þjónustubátum á Vestfjörðum ynnu um 60 manns og útsvarstekjur væru um 5 m.kr. á mánuði.
Uppfært kl 16:32. Og áréttað að Daníel telur laxeldi á Íslandi verði meira en í Færeyjum, en stærstur hluti þess er á Vestfjörðum.