Miðvikudagur 21. maí 2025
Heim Blogg Síða 2

Súðavíkurgöng: engar rannsóknarholur boraðar

Frá grjóthruni á Súðavíkurhlíð í síðasta mánuði. Mynd: Hafþór Ingi Haraldsson.

Í svörum Vegagerðarinnar við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að undirbúingur að Súðavíkurgöngum sé í gangi en ekki er reiknað með að það verði boraðar rannsóknarholur í ár.

Á föstudaginn auglýsti Vegagerðin eftir tilboðum í borun á þremur rannsóknarholur fyrir Fljótagöng við Siglufjörð. Fyrirhugað er að bora eina holu í Fljótum og tvær í Hólsdal í Siglufirði.

Verkinu skal lokið eigi síðar en 1. október 2025.

Í röðun Vegagerðarinnar að næstu 10 jarðgöngum eru þrenn göng tekin fram fyrir, Fjarðaheiðagöng við Seyðisfjörð, Fljótagöng og ný Hvalfjarðargöng.

Á eftir þeim komi svo ný göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur (Múlagöng) og þá loks Súðavíkurgöng.

Vegagerðin leggur til að undirbúningur að þeim hefjist 2032, eða eftir sjö ár og að framkvæmdir hefjist 2036 og verði lokið þremur árum síðar eða eftir 14 ár.

Auglýsing

Hólmavík: aukinn opnunartími í Krambúðinni

Á sunnudaginn tók gildi breyttur opnunartími í Krambúðinni á Hólmavík. Er hún nú opin frá kl 9 til kl 19 alla daga.

Auk þess verður grillið opið alla daga frá kl 12 til kl 18:30. En í vetur var það aðeins opið tvisvar í viku.

Nýi opnunartíminn sýnir að ferðamannatímabilið er greinilega hafið í Strandasýslu.

Kaffi Galdur

Veitingarstaðurinn í Galdrasafninu á Hólmavík breytti einnig opnunartíma sínum um miðjan mánuðinn. Kaffi Galdur er nú opinn alla daga kl. 10-17:30 og verður svo út september.

Cafe Riis

Þriðji veitingastaðurinn á Hólmavík er Café Riis. Þar hófst sumaropnun 24. apríl og er nú opið alla daga vikunnar frá kl.12:00 – kl.23:00. Eldhúsið lokar klukkustund fyrir lokun.

 

Auglýsing

Drangsnes: meiri hækkun veiðigjalda

Óskar Torfason, framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Drangs og útgerðarfélagsins Skúla ehf.

Óskar Torfason, framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Skúla ehf á Drangsnesi sem gerir út tvo báta á línu segir að samkvæmt þeirra eigin athugun muni veiðigjaldið á útgerðina hækka um 4 m.kr. eða úr 13 m.kr. upp í 17 m.kr.

Það er mun meira en greining KPMG sýnir sem unnin var fyrir samtök sjávarútvegssveitarfélaga. Þar kemur fram að hækkun veiðigjaldsins á fjórar útgerðir í Kaldrananeshreppi verði 1,1 m.kr.

Óskar sagði að beðið væri útreikninga frá SFS sem eru væntanlegir, en hann taldi víst að hækkunin væri mun meiri en skýrsla KPMG sýnir.

Þá sagði Óskar að fiskverðið sem ríkisstjórnin miði við í frumvarpi sínu sé of hátt fyrir fiskvinnsluna á Drangsnesi sem rekin er í samstarfi við útgerðarfélagið. Fyrirsjáanlegt sé að fiskvinnslan geti ekki greitt það verð.

Auglýsing

Hversu lítill fiskur yrðum við?

Kæmi til þess að Ísland gengi í Evrópusambandið tækju möguleikar okkar Íslendinga á að hafa áhrif á ákvarðanatöku innan þess einkum mið af íbúafjölda landsins. Þannig virkar einfaldlega kerfið innan sambandsins og hefur gert í vaxandi mæli til þessa. Þannig myndum við hafa sex þingmenn á þingi Evrópusambandsins af yfir 700 sem væri á við hálfan þingmann á Alþingi. Staðan yrði enn verri í ráðherraráðinu, valdamestu stofnun þess. Þar yrði vægi Íslands allajafna einungis á við 5% hlutdeild í alþingismanni. Um þetta er einfaldlega hægt að fræðast á vef sambandsins. Þetta yrði sætið okkar við borðið.

Fullyrðingar um að staðan innan Evrópusambandsins sé sambærileg við til dæmis NATO eða EFTA í þessum efnum, eins og fram komu í grein á Vísi á dögunum eftir Grím Grímsson, þingmann Viðreisnar, standast enga skoðun. Þannig eru ákvarðanir bæði á vettvangi NATO og EFTA teknar með einróma samþykki sem heyrir hins vegar í dag til algerra undantekninga innan sambandsins en var eitt sinn reglan. Allajafna er það svo að ríki sitja við sama borð þegar alþjóða- og milliríkjasamstarf er annars vegar. Eitt ríki, eitt atkvæði óháð stærð. Sú er hins vegar almennt ekki raunin innan Evrópusambandsins.

Mörg dæmi eru enda um það að margfalt fjölmennari ríki en Ísland hafi orðið undir í atkvæðagreiðslum í ráðherraráði Evrópusambandsins og það jafnvel þegar mikilvæg hagsmunamál þeirra hafa verið annars vegar. Mjög lýsandi dæmi er þegar sambandið ákvað um árið að beita Færeyjar, hluta danska konungdæmisins, refsiaðgerðum vegna síldveiða Færeyinga í eigin lögsögu og Danir neyddust til þess að taka þátt í þeim. Eða þegar Írar, ein mesta makrílveiðiþjóð Evrópusambandsins, beittu sér gegn samþykkt samnings við Færeyjar um makrílveiðar sem fór í bága við hagsmuni þeirra en urðu undir í ráðinu.

„Ríkisstjórn okkar og [Simon] Coveney sjávarútvegsráðherra börðust af hörku gegn þessu en þetta snýst allt um atkvæði á vettvangi Evrópusambandsins. Þýzkaland hafði ekki áhuga á þessu og Bretland vildi aðeins binda endi á bannið á innflutningi á fiski frá Færeyjum. Írland er aðeins lítill fiskur í þessari tjörn. Við áttum aldrei möguleika,“ sagði Martin Howley, formaður Samtaka sjómanna í Killybegs, stærsta útgerðarbæ Írlands, við dagblaðið Irish Examiner í kjölfar undirritunar samningsins. Írar eru um 5,4 milljónir. Meira en 13 sinnum fleiri en við Íslendingar. Hversu lítill fiskur yrðum við innan sambandsins?

Hér er ekki um metnaðarleysi fyrir hönd okkar Íslendinga að ræða sem er stundum viðkvæðið í röðum Evrópusambandssinna í rökþrotinu sem þeir lenda í þegar einfaldlega er bent á það hvernig kaupin gerast á eyrinni innan Evrópusambandsins og þær reglur sem gilda þar á bæ um möguleika einstakra ríkja til þess að hafa áhrif þegar ákvarðanir eru teknar. Nokkuð sem þeir ættu að vera ágætlega meðvitaðir um. Ólíkt þeim tel ég okkur þvert á móti fullfær um það að stjórna okkar eigin málum áfram utan sambandsins en rök þeirra fyrir inngöngu í það eru einmitt gjarnan þau að við séum of lítil og fámenn til þess.

Hitt er annað mál að um er að ræða mjög eðlilega þróun innan Evrópusambandsins í ljósi lokamarkmiðs samrunaþróunarinnar innan þess allt frá upphafi. Grímur minntist í grein sinni á Schuman-ávarpið frá 1950 sem markar upphaf samrunans innan sambandsins en gat þess ekki að þar kemur einmitt fram að lokamarkmiðið sé evrópskt sambandsríki. Innan sambandsríkja er jú velþekkt að íbúafjöldi ráði vægi einstakra ríkja eins og í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Mikilvægur hluti umræðunnar um Evrópusambandið er vitanlega ekki sízt hver þróunin hefur verið innan sambandsins til þessa og hvert hún stefnir.

Hjörtur J. Guðmundsson
sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur

Auglýsing

Öryggi sjómanna í strandveiðum

Strandveiðitímabilið er hafið og öryggi sjómanna í forgrunni. Margvíslegur undirbúningur hefur farið fram svo tryggja megi sem best slysavarnir á sjó segir í frétt frá Samgöngustofu.

Samgöngustofa og skoðunarstöðvar leggja í sameiningu áherslu á að öryggisbúnaður sé í samræmi við reglur.

Í aðdraganda vertíðarinnar gerði Samgöngustofa skyndiskoðanir á yfir 150 smábátum, sérstaklega gúmmíbjörgunarbátum þeirra. Staðsetning og frágangur björgunarbáta skiptir miklu, svo auðvelt sé að grípa til þeirra og tryggt að þeir losni og komist á flot í neyð.

Í sumar mun Samgöngustofa, í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg og Landsamband smábátaeigenda, taka þátt í fræðsluherferð með áherslu á öryggisbúnað og viðbrögð.

Leikarinn og sjómaðurinn Þröstur Leó Gunnarsson fer yfir notkun á björgunarvestum, fjarskiptum, neyðarstigum, staðsetningu neyðarbúnaðar, björgunarhringjum og björgunarbátum.

Öryggisappið Aggan hefur verið tekið í notkun opnuð hefur verið samræmd öryggissíða hjá Samgöngustofu og gefið út nýtt fræðslurit um VHF fjarskipti,

Auglýsing

Svekjandi tap hjá Vestrastelpum

Kvennalið Vestra á æfingu. Mynd: Vestri.

Vestri fékk Dalvík/Reynir í heimsókn á laugardaginn og lauk leiknum með 2-3 tapi.

Vestri náði forustu strax á 6 mínútu með marki frá Alyssa Yana Daily Hafdís Nína Elmarsdóttir jafnaði fyrir gestina með marki á 38 mínútu.

Alyssa var aftur á skotskónum á 48 mínútu og kom Vestra í 2-1.

Arna Kristinsdóttir jafnaði leikinn fyrir Dalvík/Reyni á 61 mínútu og Emilía Eir Pálsdóttir bætti svo við þriðja marki þeirra sjö mínútum seinna og reyndist það loka markið.

Vestri er eftir leikinn í sjöunda sæti og mætir næst ÍH á útivelli á laugardaginn.

Staðan í deildinni

Auglýsing

5. deild – Hörður með jafntefli

Hörður mætti KM í 5. deild karla á laugardaginn og lauk leiknum með 2-2 jafntefli.

Rúben Filipe Vasques Narciso kom KM yfir á 21. mínútu en Pétur Guðni Einarsson jafnaði fyrir Hörð um mínútu seinna.

Sigurður Arnar Hannesson kom Herði yfir með marki á 27. mínútu og stóðu leikar 2-1 fyrir Hörð í hálfleik.

Rúben var hins vegar aftur á ferðinni fyrir KM á 59 mínútu og jafnaði leikinn 2-2 og urðu það loka úrslitin.

Staðan í deildinni

Auglýsing

Vegagerðin fær aukafjárveitingu

Vestfjarðarvegur (60) gegnum Dalina. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Í frumvarpi til fjáraukalaga sem kynnt var í ríkisstjórn í síðustu viku er gert ráð fyrir þriggja milljarða króna aukafjárveitingu til Vegagerðarinnar.

Vegagerðin hafði því óskað eftir aukafjárveitingu og unnar voru nokkrar sviðsmyndir miðað við mismunandi upphæðir. Fyrir þrjá milljarða er mikið hægt að gera. Til dæmis væri hægt að byggja upp 50 km af vegum í stað 30 km eins og verið hefur undanfarin ár.

Þessi aukafjárveiting verður fyrst og fremst nýtt í endurbyggingu vega og endurnýjun slitlaga þar sem viðhaldsástand er hvað verst.

Vegagerðin áætlar að láta malbika þekkta blæðingakafla, svo sem hluta af Bröttubrekku fyrir vestan og Bakkaselsbrekku fyrir norðan. Umræddir vegir eru með bundnu slitlagi sem kallast klæðing, sem þolir illa mikla og þunga umferð.

Með auknu fjármagni  verður einnig hægt að fara í fjölmörg brýn styrkingarverkefni þar sem sérstök áhersla verður lögð á Vesturland þar sem burður vega er á köflum afar bágborinn.

Þá verður lögð áhersla á endurnýjun bundinna slitlaga, sérstaklega á Suðurlandi. Með auknu fjármagni til viðhalds bundinna slitlaga munu vegfarendur ekki einungis verða varir við greinilegar umbætur á vegakerfinu, heldur stuðla aðgerðirnar einnig að því að hægja á niðurbroti samgöngukerfisins til lengri tíma.

Þau verkefni við styrkingar og endurbyggingu vega sem hér eru nefnd voru tilbúin til útboðs en hefðu ekki verið boðin út á þessu ári nema með tilkomu þessarar aukafjárveitingar.

Auglýsing

Nemendur útbúa skilti fyrir Hornstrandir

Nemendur á starfsbraut Menntaskólans á Ísafirði hafa undanfarið unnið að því að hanna og framleiða skilti fyrir friðlandið á Hornströndum og voru skiltin afhent með viðhöfn þann 16. maí í Hornstrandastofu á Ísafirði.

Aðdragandi verkefnisins var sá að Kristín Ósk Jónasdóttir starfsmaður Hornstrandastofu fékk þá hugmynd að fara í samvinnu við nemendur á starfsbraut MÍ um gerð skilta fyrir friðlandið.

Íslenskt lerki var útvegað til verksins, nokkrir nemendur lærðu hvernig setja á upp verk á tölvu fyrir fræsara og svo voru skiltin fræst, málað ofan í stafina og pússað. 

Mikil ánægja var með útkomuna og þótti skiltagerðin hið skemmtilegasta samvinnuverkefni.

Auglýsing

Sjómannadagurinn á Suðureyri 2025

Hátíðarhöld Sjómannadagsins á Suðureyri hefjast á miðvikudag og standa fram á sunnudag eða í fimm daga. Margir viðburðir eru og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Dagskrá:

Miðvikudagur 28. maí

18:00-20:00 Barnabíó í FSÚ, frítt inn

Fimmtudagur 29. maí

20:00-22:00 Best of Sóli Hólm í FSÚ.

Föstudagur 30. maí

17:00-19:00 Fjölskyldubingó björgunarsveitarinnar Bjargar í FSÚ.
20:00-22:00 Óvissuferð fyrir ungmenni 14-17 ára. Mæting á Sjöstjörnu.
21:00 Pöbbkviss, kokteilar og Keli trúbador á Fisherman

Laugardagur 31. maí

11:00-12:00 Bæjarstjóra-skemmtiskokk með Siggu Júllu. Mæting á Sjöstjörnu.
12:00-15:00 Hoppukastalar í íþróttahúsinu
12:45 Skrúðganga frá Bjarnaborg að Suðureyrarkirkju
13:00 Sjómannadagsmessa
15:00-16:00 Kappróður á Lóninu
16:00-18:30 Fjölskylduskemmtun á grunnskólalóðinni: VÆB og Íþróttaálfurinn, Leikfélag MÍ sýnir atriði úr Grease, froðudiskó.
19:30-20:00 Sjómannadagshóf í FSÚ.
22:30-02:00 Dansleikur í FSÚ. Babies-flokkurinn og Salka Sól.

Sunnudagur 1. júní

14:00 Skemmtidagskrá á höfninni. Hefðbundnar sem og nýjar greinar fyrir alla aldurshópa.
18:00 Kvöldsigling um Súgandafjörð. Mæting við bryggjuna

Auglýsing

Nýjustu fréttir