Laugardagur 3. maí 2025
Heim Blogg Síða 2118

Kostir þjóðgarðs og virkjunar verði vegnir saman

Guðmundur Ingi og Björt Ólafsdóttir við lyklaskiptin í umhverfisráðuneytinu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir skynsamlegt að bera saman kosti Hvalárvirkjunar í Ófeigsfirði og að stofna þar þjóðgarð. Umhverfisráðherra var í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 fyrir helgi. Hann sagði virkjun og þjóðgarð ekki fara sérlega vel saman en áréttaði að Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki rammaáætlunar og næstu skref virkjunarinnar eru hjá sveitarstjórn Árneshrepps og hjá Orkustofnun.

„Á þessum tímapunkti er þetta heimamanna að skoða. Mér finnst að það ætti að bera þessa tvo möguleika kirfilega saman og hvað þeir þýða fyrir samfélagið í Árneshreppi,“ sagði Guðmundur í viðtalinu. „Hvort er líklegra til að skapa fleiri störf og meiri verðmæti til framtíðar?“ spurði Guðmundur.

Guðmundur nefndi að ein af ástæðum þess að virkjunin fór í nýtingarflokk rammaáætlunar á sínum tíma hafi verið sú að tilkoma hennar myndi bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum. Sú skýring er langsótt, að hans mati. Til að bæta afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum vill umhverfisráðherra sá horft til að skoða hvaða möguleikar eru til staðar að setja raflínur í jörð og segir að þetta þurfi að kanna áður en hafist verður handa við byggingu Hvalárvirkjunar.

smari@bb.is

Auglýsing

Fyrsti vinningur keyptur á Ísafirði

Einn miðahafi var með allar tölur réttar í Lottóinu á laugardag og hlýtur sá heppni rúmlega 24 milljónir í vinning. Miðinn var keyptur hjá N1 á Ísafirði. Einn var með fjórar réttar tölur auk bónustölunnar og fær hann rúmlega 429 þúsund krónur í vinning. Miðinn var keyptur hjá Samkaup-strax í Mývatnssveit.

Sex voru með fjórar réttar tölur í Jóker og hlýtur hver þeirra 100 þúsund krónur í vinning. Miðarnir voru keyptir hjá N1, Lækjargötu Hafnarfirði, Happahúsinu, Kringlunni, Reykjavík, Ice Boost and Burgers, Mosfellsbæ,  Kríu veitingasölu, Eskifirði, N1, Borgartúni, Reykjavík og í áskrift.

smari@bb.is

Auglýsing

Blakhelgi hjá Vestra

Mynd: vestri.is

Meistaraflokkur karla í Vestra sigraði Fylki 3-0 í útileik 1. desember. Vestramenn komu ákveðnir til leiks og sigurinn var sannfærandi. Hinn nýi leikmaður Vestra, Mateusz Klóska, átti góðan leik og ljóst er að Vestramenn voru heppnir að fá þennan pólska Bolvíking til liðs við sig. Kjartan Óli Kristinsson var einnig sterkur og í rauninni áttu allir leikmenn fínan leik.

Laugardaginn 2. desember mætti liðið svo HK b og laut þar í lægra hald í 5 hrinu leik þar sem Vestri hóf leikin með því að vinna tvær fyrstu hrinurnar, þá hrökk HKb í gang og vann seinni þrjár.

Vestri og HKb eru nú í þriðja og fjórða sæti deildarinnar með 7 stig en Vestri á einn leik til góða.

bryndis@bb.is

 

Auglýsing

Tíu ungmenni úr Vestra í æfingahópum yngri landsliða KKÍ

Hópurinn sem á sæti í æfingahópum yngri landsliða frá Vestra. Myndin var tekin eftir sigur meistaraflokks á Gnúpverjum á útivelli en báðir 10. flokkar Vestra voru einng að spila á útivelli um helgina. Frá vinstri: Hilmir Hallgrímsson, Hjördís Harðardóttir, Egill Fjölnisson, Rakel Adeleye, Hugi Hallgrímsson, Dagbjört Jóhannesdóttir, Björn Ásgeir Ásgeirsson, Helena Haraldsdóttir, Friðrik Vignisson og Katla Sæmundsdóttir. Mynd: Vestri.is

Á heimasíðu Vestra kemur fram að síðastliðinn föstudag hafi birst listar yfir æfingahópa Körfuknattleikssambands Íslands  fyrir yngri landslið. Vestri á óvenju stóran og glæsilegan hóp þar innanborðs en alls eru 10 krakkar frá félaginu í æfingahópunum. Þessi miklu fjöldi ber vitni um það öfluga barna- og unglingastarf sem fram hefur farið í deildinni undanfarin ár. Þetta er einnig í takti við þann mikla fjölda krakka sem leggur hart að sér í hverri viku við að bæta sig í íþróttinni undir öruggri handleiðslu Yngva Gunnlaugssonar yfirþjálfara og annarra þjálfara deildarinnar.

Æfingahóparnir koma saman rétt fyrir jól og á milli jóla og nýárs á suðvesturhorninu og æfa undir handleiðslu landsliðsþjálfara hvers hóps.

Í U-15 æfingahópi stúlkna eru þrjár Vestra stelpur, þær Helena Haraldsdóttir, Katla María Magdalena Sæmundsdóttir og Rakel Damilola Adeleye. Þessar þrjár stúlkur eru í 9. flokki en fögnuðu áfanganum með góðum sigri í bikarkeppni KKÍ á sunnudag ásamt stöllum sínum í 10. flokki og tryggðu liðinu sæti í undanúrslitum.

Í U-15 æfingahópi drengja er Strandamaðurinn Friðrik Heiðar Vignisson sem hefur æft og spilað með Vestra undanfarin ár ásamt því að æfa með Geislanum á Hólmavík. Þess má geta að Friðrik hefur að mestu spilað ár upp fyrir sig og varð m.a. bikarmeistari með 9. flokki drengja hjá Vestra í vor. Um helgina lék hann með 10. flokki í bikarkeppni  KKÍ en sameiginlegt lið Vestra og Skallgríms tryggði sér sæti í undanúrslitum keppninnar á sunnudag.

Í U-16 æfingahópi stúlkna eiga þær Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir og Hjördís Harðardóttir sæti. Þær stöllur fögnuðu árangrinum á sunnudag ásamt félögum sínum í 10. flokki með því að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar með sigri á Breiðablik.

Í U-16 æfinghópi drengja eiga sæti þeir Hilmir og Hugi Hallgrímssynir ásamt félaga sínum Agli Fjölnissyni en Hilmir og Hugi tóku þátt í verkefnum U-15 landsliðsins í sumar. Líkt og aðrir iðkendur voru þeir félagar önnum kafnir um helgina og tryggðu sér sæti í undanúrslitum bikarsins 10. flokki með sigri á KR en Vestri er ríkjandi bikarmeistarar í þessum aldursflokki.

Að lokum á Björn Ásgeir Ásgeirsson sæti í U-18 æfingahópi drengja. Björn Ásgeir fagnaði þessum áfanga með frábærum leik á föstudag með meistaraflokki karla í 1. deildinni þar sem hann skoraði 23 stig. Björn Ásgeir kom til Vestra frá Hamri í sumar en hann var í U-16 landsliði Íslands árið 2016.

bryndis@bb.is

Auglýsing

Börn fá fríar tannlækningar

Kostnaður vegna tannlækninga barna verður greiddur að fullu af Sjúkratryggingum Íslands frá og með 1. janúar 2018. Foreldrar þurfa að skrá börn sín hjá heimilistannlækni og greiða árlega 2500 króna komugjald. Þetta er lokahnykkurinn á innleiðingu samninga Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands um tannlækningar barna, sem hefur verið komið á í skrefum frá árinu 2013.

Markmið samningsins er að börn yngri en 18 ára fái nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra.

smari@bb.is

Auglýsing

Að lifa með einhverfu

Mikael Sigurður Kristinsson

Mikael Sigurður Kristinsson er 18 ára nemi við Menntaskólann á Ísafirði. Hann sker sig ekki mikið úr nemendahópnum en munurinn á Mikael og vísitölunemanum er að hann er með einhverfu. Á vísindadögum Menntaskólans sem voru haldnir á dögunum sagði Mikael frá einhverfu og hvernig hún hefur markað líf hans. Kynning Mikale var verðlaunuð sem besta kynningin á vísindadögum. „Ég fjallaði fyrst um hvað einhverfa er og hversu mismunandi hún getur verið. Manneskja sem er með dæmigerða einhverfu eins ég og getur talað og hagað sér eðlilega en það eru til fleiri afbrigði af einhverfu,“ segir Mikael.

Hann fór einnig yfir hvað við getum tengt einhverfu, fordóma sem einhverfir verða fyrir og hvað skólar geta gert fyrir fólk með einhverfu.

„Svo sagði ég mína sögu og hvernig ég lifi með einhverfu. Ég var lagður í einelti og átti erfitt í skóla vegna þunglyndis. Nú er ég á starfsbraut í Menntaskólanum og gengur frekar vel, eiginlega alveg fáránlega vel,“ segir Mikael.

Leiðin liggur upp á við hjá þessum efnilega unga manni en hann fer ekki í grafgötur með það að barnæskan hafi verið erfið. „Ég var greindur mjög seint með einhverfu og þetta var verst þegar ég var yngri, þá vissi ég ekki hvað var að mér. Ég vissi að ég væri öðruvísi en ekki af hverju.“

Á næstu önn ætlar Mikael að halda áfram námi. „Ég held áfram á starfsbraut en tek einhverja áfanga á náttúrufræðibraut. Markmiðið er að klára stúdentinn.“

Hér má horfa á fyrirlestur Mikaels.

Smari@bb.is

Auglýsing

Jólaljós tendruð um helgina

Jólaljósin verða tendruð á Ísafirði og Flateyri um helgina. Klukkan 15.30 á morgun hefst jólatorgsala Tónlistarskólans á Silfurtorgi þar sem lúðrasveit skólans blæs jólaandanum í gesti. Eftir að ljósin hafa verið kveikt syngur barnakór Tónlistarskólans nokkur falleg jólalög.

Á Flateyri hefst vöfflu- og kakósala Grettis í Félagsbæ á sunnudag klukkan 14, en ljósin verða kveikt á jólatrénu klukkan 16 áður en börn úr Grunnskóla Önundarfjarðar taka lagið.

Eins og venjulega má telja nokkuð öruggt að vaskir sveinar úr fjöllunum láti sjá sig þegar ljósin hafa verið tendruð.

smari@bb.is

Auglýsing

Stofnfundur Vestfjarðastofu ses

Í dag kl. 13:00 hófst stofnfundur Vestfjarðastofu ses að viðstöddu fjölmenni í Edinborgarhúsinu. Í stofnsamþykkt stofunnar segir:

Tilgangur Vestfjarðastofu ses. er að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga, stofnana og fyrirtækja á Vestfjörðum og veita samræmda og þverfaglega ráðgjöf og þjónustu tengda atvinnu- og byggðaþróun, frumkvöðlastarfsemi og menningu í víðum skilningi.

Markmið Vestfjarðastofu ses. er að efla atvinnulíf á Vestfjörðum, stuðla að velferð íbúa og styrkja Vestfirði sem búsetukost og áfangastað ferðamanna. Markmiði sínu hyggst Vestfjarðastofa ses. ná með öflugu samstarfi atvinnulífs, sveitarfélaga, ríkisvalds og stoðkerfis hins opinbera.

Undirbúningur Vestfjarðastofu hefur staðið um nokkurt skeið og mun hún taka yfir þau verkefni sem Fjórðungssamband Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hafa sinnt hingað til.

Í stjórn Vestfjarðastofu skal skipa 9 einstakling og skulu 5 tilnefndir af sveitarfélögum og fjórir af svið atvinnulífs og menningar. Í þessa fyrstu stjórn og varastjórn stofunnar voru kosnir:

Stjórn

Pétur G. Markan, sveitarfélag

Jón Örn Pálsson, sveitarfélag

Ingibjörg Emilsdóttir, sveitarfélag

Margrét Jónmundsdóttir, sveitarfélag

Sigurður Hreinsson, sveitarfélag

Víkingur Gunnarsson, atvinnulíf og menning

Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, atvinnulíf og menning

Ágústa Ýr Sveinsdóttir, atvinnulíf og menning

Kristján G Jóakimsson, atvinnulíf og menning

Varastjórn

Óskar Hálfdánarson, atvinnulíf og menning

Jón Jónsson, atvinnulíf og menning

Inga Hlín Valdimarsdóttir, atvinnulíf og menning

Aðalbjörg Óskarsdóttir, atvinnulíf og menning

Áslaug Guttormsdóttir, sveitarfélag

Daníel Jakobsson, sveitarfélag

Jónas Þór Birgisson, sveitarfélag

Nanný Arna Guðmundsdóttir, sveitarfélag

Magnús Jónsson, sveitarfélag

bryndis@bb.is

Auglýsing

María Rut aðstoðar Þorgerði

María Rut Kristinsdóttir.

Önfirðingurinn María Rut Kristinsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður formanns Viðreisnar, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðreisn.

María Rut er með BS-gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og stundar nú meistaranám í opinberri stjórnsýslu við sama skóla. Hún lætur af störfum sem sérfræðingur í dómsmálaráðuneytinu þar sem hún hefur leitt samráðshóp ráðherra um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins síðastliðin tvö ár.

Áður starfaði hún sem markaðsstjóri GOMOBILE og formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þá var hún talskona Druslugöngunnar 2013 til 2015 þar sem hún lagði ríkar áherslur á úrbætur í ofbeldismálum.

„Hún tók virkan þátt í stúdentapólitík þar sem hún sat m.a. í háskólaráði, jafnréttisnefnd HÍ og sinnti ýmsum öðrum trúnaðarstörfum fyrir skólann. Var hún tilnefnd af JCI Íslandi sem framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2014 fyrir afrek á sviði menntamála. María gegndi embætti varaformanns Samtakana ’78 árið 2015-2016 og er stofnandi Hinseginleikans, ásamt unnustu sinni.

Hinseginleikinn er fræðsluvettvangur fyrir ungt fólk sem hefur það að markmiði að brjóta upp staðalmyndir og fjölga fyrirmyndum hinseginfólks í samfélaginu. Verkefnið fékk heiðursviðurkenningu KYNÍS fyrir framúrskarandi starf á sviði kynfræðslu 2016. Þá er María einnig í skipulagsteymi rokkhátíðarinnar Aldrei fór ég suður, sem haldin er á Ísafirði ár hvert.

María Rut er fædd árið 1989 og er trúlofuð Ingileif Friðriksdóttur, laganema og fjölmiðlakonu og eiga þær soninn Þorgeir Atla, 10 ára,“ segir í tilkynningu Viðreisnar.

smari@bb.is

Auglýsing

Framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um Eyrarrósin og er umsóknarfrestur er til 15. janúar 2018. Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Byggðastofnun, Air Iceland Connect og Listahátíð í Reykjavík hafa staðið saman að verðlaununum frá upphafi, eða frá árinu 2005.

Umsækjendur um Eyrarrósina geta meðal annars verið stofnun, tímabundið verkefni, safn eða menningarhátíð. Valnefnd, skipuð fulltrúum Byggðastofnunar, Listahátíðar í Reykjavík og Flugfélags Íslands ásamt einum menningarfulltrúa á starfssvæði Byggðastofnunar tilnefnir þrjú verkefni og hlýtur eitt þeirra Eyrarrósina ásamt veglegum peningaverðlaunum. Hin tvö tilnefndu verkin hljóta einnig peningaverðlaun.

Verndari Eyrarrósarinnar er Eliza Reid, forsetafrú.

Í tvígang hefur Eyrarósin verið veitt vestfirskum menningarverkefnum. Árið 2007 fékk Strandagaldur verðlaunin og árið eftir kom Eyrarósin í hlut Aldrei fór ég suður.

smari@bb.is

Auglýsing

Nýjustu fréttir